Lengi vel var Osló lýst sem sveitabæ með stórborgarbrag af þeim Íslendingum sem þangað fóru áður en ferðalög voru á hvers manns færi. Sem eftir á að hyggja er ekkert svo ýkja langt síðan. Þeir áttu náttúrulega við að meðan Osló væri góð og gild stórborg miðað við allt á Íslandi héldu hún engu að síður þessum smábæjarsjarma sem allir kannast við. Fáir að deyja úr taugaveiklun þar og samneyti og samheldni íbúa með afbrigðum góð.

Þó áratugir hafi liðið síðan þetta var og eðlilega sé margt breytt er óhætt að staðfesta að Osló ber enn þennan netta og töluvert heillandi keim en óhætt er að lýsa henni í dag fremur sem stórborg með smábæjaryfirbragði en sveitabæ með stórborgarkomplex. Þetta er henni engan veginn til minnkunar heldur þvert á móti gerir hana sérstaka.

Borgin er höfuðborg Noregs og langstærsta þéttbýli landsins. Haraldur Hárfagri konungur bjó hér um sig árið 1048 sé að marka annála Snorra Sturlusonar og rösklega tvö hundruð árum síðar var Osló orðin höfuðborg landsins. Um tíma þegar Danir réðu ríkjum Noregs kallaðist borgin ekki Osló heldur Kristjanía.

Osló er strangt til tekið skipt í fimm hverfi eins og sjá má hér. Þeir staðir sem ferðamenn helsta sækja í eru eðlilega kringum miðbæinn sjálfan, Sentrum, gamla bæjarhlutann, Gamle Oslo,og mögulega staði eftir strandlengjunni beggja vegna. Fátt er að uppgötva spennandi í efri hverfum borgarinnar enda íbúðahverfi að mestu.

Mörgum sem ferðast hafa vítt um landið telja reyndar að Osló sé orðin of mikil heimsborg og hafi misst tengsl við hinn raunverulega Noreg. Að nokkru leyti má það til sanns vegar færa en það gerir Osló í raun ekkert verri fyrir ferðamanninn sem vill aðeins slaka á, skoða og njóta. Eitt sem gerir Osló heillandi er nálægðin við náttúruna en skógar þrengja að borginni á öllum köntum og meira að segja eru nokkuð stór svæði skógi vaxin innan borgarmarkanna.

Í borginni sjálfri búa 550 þúsund manns og þar af um 100 þúsund innflytjendur sem sest hafa þar að. Mannlífsmunstrið í Osló er því með fjölbreyttara móti en slíkt hefur reyndar skapað vandamál í gegnum tíðina.

Loftslag og ljúflegheit

Sökum þess að Osló er vel varin af fjöllum verður hér töluvert hlýrra en menn búast almennt við og mikill munur getur verið á hitastigi í Osló annars vegar og til að mynda í Larvík eða Kristiansandi sem eru nokkuð sunnar við strandlengjuna. Veturnir eru einnig þess vegna mildari envið er að búast. Hitastig fer sjaldan niður fyrir frostmark á veturna.

Til og frá

Tveir alþjóðaflugvellir sinna flugi til Osló. Oslo Gardemoen er aðalvöllurinn en smærri völlur, Sandefjord, er gjarnan notaður af lágfargjaldaflugfélögum. Reyndar er sá þriðji við Moss, Rygge flugvöllur, en sá er lítt notaður nema innanlands.

Oslo Lufthavn í Gardermoen er aðalflugvöllur Osló og nágrennis. Völlurinn er í tæplega 50 kílómetra fjarlægð frá borginni og handhægast og fljótlegast að komast til borgarinnar með svokallaðri fluglest, Flytog, en þær fara frá brautarpalli undir flugvallarbyggingunni á tíu mínútna fresti á daginn en 20 mínútna fresti snemma á morgnana og þegar kvölda tekur. Hafa skal í huga að önnur hver þeirra fer niður á Aðalstöð Osló, Oslo Sentralstasjon, en önnur hver enn lengra, að Nationaltheatret og endar í Drammen. Flytoget tekur um 20 mínútur að Aðalstöðinni og kostar farið fyrir fullorðinn 2800 krónur.

Hefðbundnar héraðslestir fara einnig um stöðina á flugvellinum og eru þær ódýrari en hægari í förum og stoppa á leiðinni. Ganga þær á klukkustundar fresti og eru milli 25 og 40 mínútum á leiðinni. Miðaverðið er 2300 krónur. Nánar hér.

Rúta er annar möguleiki ekki síst ef áfangastaðurinn er ekki Osló. Flybussexpressen heldur úti ferðum til fjögurra mismunandi áfangastaða. Lína F1 gengur til Osló en tekur það einar 45 mínútur og kostar 3200 krónur aðra leið.

Leigubíll eru möguleiki en eru fokdýrir. Ódýrasta er að panta einn sérstaklega í þartilgerðum bás inni í flugstöðvarbyggingunni en leigubílar sem svo er pantaðir bjóða eitt fast verð sem er þó aldrei lægra en 9000 krónur. Sé rokið beint í leigubílaröðina fyrir utan flugvöllinn er mælirinn strax settur í gang og minnstu tafir á leiðinni geta þýtt að gjaldið rýkur auðveldlega upp í tólf til fimmtán þúsund krónur.

Sandefjord Lufthavn Torp nýtur vaxandi vinsælda enda nota hann flugfélög á borð við Ryanair og mörgum öðrum lágfargjaldaflugfélögum. Hann er í 115 kílómetra fjarlægð frá Osló og tekur ferðalag þangað hartnær tvær klukkustundir. Leigubíll héðan er fráleitlega rándýr og í raun aðeins um tvær leiðir héðan. Annars vegar með rútufyrirtækinu Torpexpressen alla leið til Osló eða taka frískutlu frá flugvellinum að næstu lestarstöð og þaðan taka lest til Osló.

Rúturnar leggja af stað 35 mínútum eftir lendingu hverrar vélar fyrir sig og því vænlegast að hangsa ekki mikið í flugstöðinni. Kaup má miða um borð og greiða skal 4000 þúsund krónur fyrir þau herlegheit. Ferðalagið tekur 1:45 klukkustund. Nánar hér.

Lest frá Sandefjord stöð til Osló er því miður ekki fljótari í förum en rútan. Þvert á móti er hún fimm mínútum lengur á ferð auk þess sem skutlið frá flugvellinum að lestarstöðinni tekur tíu mínútur. Lestar fara frá Sandefjord á klukkustundarfresti og kostar farið 5000 krónur.

Samgöngur og skottúrar

Bíllausir í Osló þurfa litlar áhyggjur að hafa. Þeir komast auðveldlega innan borgarinnar með úrvali samgöngutækja sem öll kosta neytendur það sama. Sem reyndar er fokdýrt eigi að borga með íslenskri krónu en farmiði sem gildir í klukkustund kostar litlar 580 krónur. Það gildir þó aðeins sé miðinn keyptur í sjálfsala. Pungi fólk út fyrir miða um borð hækkar verðið í 800 krónur.

Til eru ýmis samgöngukort sem spara litlar upphæðir en það er ekkert sem nýtist ferðamönnum ýkja vel nema stoppið í Osló sé vika eða lengur og menn á ferðinni innan borgarinnar öllum stundum. Slík kort má fá víða í sjoppum og á öllum helstu stöðvum borgarinnar. Börn og unglingar að 17 ára aldri borgar hálft verð. Gilda þarf alla miða áður en lagt er í hann og um leið og um borð er komið í sporvögnum og strætisvögnum. Lágmarkssekt fyrir að nást án miða eru 17 þúsund krónur og Norðmenn grimmir í slíkri eftirfylgni. Hægt er að fá ágæt ókeypis leiðakort fyrir Osló og nærliggjandi sveitir á upplýsingamiðstöð ferðamanna rétt fyrir utan Aðalstöðina.

Jarðlest (metro) – Tunnelbane kallast jarðlestakerfi Oslóar eða T-bane. Það er stórt og viðamikið og allar sex línur kerfisins liggja saman í miðbænum. Það er því auðvelt notkunar og auðlært fyrir gesti. Hér má sjá leiðakerfið í heild sinni.

Strætis- og sporvagnar (bus og tram) – Fjöldi strætisvagna fer um borgina og nokkrir sporvagnar einnig. Leiðakerfi þeirra má sækja hér á heimasíðu samgöngumiðstöðvar Oslóborgar. Þar má einnig setja inn götunöfn í sérstaka leitarvél sem svo finnur bestu og fljótlegustu leiðina fyrir þig. Vagnar ganga frá 5 á morgnana til 01 að nóttu og sérstakir næturvagnar ganga líka þó sjaldnar sé.

Sporvagnakerfið er aðallega á þeim slóðum sem jarðlestakerfið er ekki uppsett. Ganga þeir á tíu mínútna fresti yfir daginn en 20 eða 30 mínútna fresti kvöld og helgar.

Langflestir vagnar beggja kerfa enda eða hefja ferðir frá Oslo sentralstasjon sem einnig heitir Jernbanestation svo ekkert fari milli mála. Næturvagnar ganga um helgar frá Oslo S torginu til helstu úthverfa. Miði með slíkum vagni kostar 1100 krónur.

Farþegalestir (Tog) – ganga frá Oslo S til úthverfa reglulega. Hægt er að nota hefðbundna miða með þeim en þó aðeins innan borgarmarkanna. Sé farið lengra skal greiða sérstaklega fyrir það áður en lagt er í hann.

Hjól (Sykkel) – Merkilegustu staðir Oslóborgar eru ekki það fjarri hvor öðrum að ekki sé hægt að njóta þeirra á labbinu einu saman en sé púst í lungum og vilji til að fara útfyrir það allra nálægasta er fín leið að fara um á hjóli sem borgin leggur til. Þetta er þó aðeins í boði yfir sumarmánuðina. Oslo Bysykkel er kerfið kallað en það felur í sér að hver sem er getur fengið hjól lánað víðs vegar um borgina. Sá böggull fylgir reyndar skammrifi að áður verður viðkomandi að verða sér úti um áskrift, abonnement, sem greiða þarf 1800 krónur fyrir. Með slíkri áskrift má fá hjól á öllum útleigustöðum en aðeins í þrjár klukkustundir í senn. Verður þá að skila hjólinu en taka má það jafnharðan aftur í þrjá tíma. Ekki ýkja þjált kerfi en hægt er að skoða stóran hluta Osló á þennan hátt án þess að borgar himinháar upphæðir í samgöngukerfi. Heimasíða Oslo Bysykkel hér og þar má einnig verða sér úti um áskriftarkortið.

Leigubílar (taxi) – Ekki vantar samkeppnina á þessum markaði í Osló en engu að síður liggur við að leigubíll hér falli undir lúxus svo dýrir eru þeir. Lágmarks startgjald á daginn er kringum 1800 krónur og kílómetragjaldið er litlu hagstæðara. Tvöföld þessi upphæð á kvöldin og um helgar. Þá skal því forðast í lengstu lög nema fólk eigi tonn af seðlum. Leigubílar eru út um allt í miðbænum og þar eru ennfremur leigubílastöðvar og ekkert vandamál er að fá bíl á þeim slóðum. Hringja þarf eftir þeim annars staðar eða panta á netinu hér. Allir leigubílar hér taka kreditkort en fáir bjóða raðgreiðslur. Einnig skal hafa í huga að sumir taka aukagjald fyrir allan farangur.

Einkabíll (bil) – Fyrir aðkomufólk getur verið spennandi að aka um í Osló því næsta víst er að menn týnast einu sinni eða oftar áður en menn fá almennt sens fyrir borginni og legu gatna. Umferðin hér er þó leiðinlega mikil og hefur hríðversnað síðustu árin. Dýrt er að leggja hér og lögregla er mjög sjáanleg og hikar ekki við að deila út sektum og virða alveg að vettugi hvort vant fólk er á ferð eða nýgræðingar. Best er að sleppa bíl alveg nema fara eigi út fyrir borgina. Fjöldi bílaleiga er í Osló sjálfri eða á flugvöllunum en tiltölulega lítill munur er á verðum þeirra á milli.

Almennt er auðvelt að rata í Osló þegar menn þekkja helstu kennileiti. Hringvegir eru um borgina sem einfalda til muna aðkomu og brottför. Kynna skal sér vegakort af borginni áður en lagt er í hann. Varast skal sporvagna bæjarins sem eiga allan rétt gagnvart bílum og það eiga gangandi vegfarendur einnig.

Söfn og sjónarspil

>> Munch safnið (Munch-museet) – Edward Munch er frægasti listamaður Noregs og hér má finna mörg hans bestu verka meðal annars hið stórmerka Ópið sem er í bókum sem það listaverk sem oftast hefur verið stolið í heiminum. Verk Munch eru þó þess eðlis að annaðhvort falla menn í stafi yfir þeim eða þola þau ekki. Strætisvagn: 20, 60 eða 67 til Tøyen. Opið þriðju- til föstudaga milli 10 og 16 og 11 til 17 um helgar. Lokað mánudaga. Miðaverð fyrir fullorðna 1700 krónur. Heimasíðan.

>> Ibsen safnið (Ibsen Museum) – Líf og list annars velþekkts Norðmanns kynnt hér í máli og myndum á hans eigin heimili þar sem hann eyddi síðustu árum ævi sinnar. Að sjálfsögðu við Henrik Ibsen götu og forvitnilegt fyrir þá sem þekkja til verka hans en varla fyrir aðra. Sporvagn: 13 eða 19 að Slottsparken. Opið 11 – 16 þriðjudaga til sunnudaga. Tveimur tímum lengur á fimmtudögum en lokað mánudaga. Aðgöngumiðinn á 1900 krónur. Heimasíðan.

>> Tækni og vísindasafn Noregs (Norsk Teknisk Museum) – Forvitnilegt og skemmtilegt tæknisafn sem börnin munu hafa gaman af ásamt foreldrum sínum. Hér er til dæmis heil þota til sýnis ásamt ótrúlegum fjölda tækja og tóla úr ýmsum áttum. Sporvagn: 11 eða 12 til Kjelsås. Opið 10 – 18 alla daga á sumrin en 9 – 16 þriðjudaga til föstudaga og 11 – 18 um helgar á veturna. Aðgangur 1800 fullorðnir, 900 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Friðarmiðstöð Nóbels (Nobels Fredssenter) – Eitt nýjasta safn borgarinnar er Nóbelsmiðstöðin á Ráðhústorginu. Þar er að finna allt um upphaf, sögu og vinningshafa þessara virtu en umdeildu verðlauna. Sporvagn: 12 til Akerbryggju. Opið 10 – 18 þriðjudaga til sunnudaga. Lokað mánudaga. Miðaverð 1800 krónur en frítt með Oslókorti. Heimasíðan.

>> Safn Emanúels Vigeland (Emanuel Vigeland Museet) – Merkilegt safn listamannsins Emanúels sem var undir miklum ítölskum áhrifum í listsköpun sinni. Safnið er einkasafn þar sem verk hans eru geymd, ásamt ösku hans sjálfs og þar eru haldnir smærri tónleikar reglulega. Mjög forvitnilegt. Sporvagn: 1 til Slemdal og örstutt labb að Grimelundsveie. Opið aðeins á sunnudögum frá 12 – 18. Miðaverð 650 krónur. Heimasíðan.

>> Norska menningarsafnið (Norsk Folkemuseum) – Aðeins utan við borgina í Bygdøy má finna þetta safn sem er ómissandi þeim er mestan áhuga hafa á sögu og menningu Noregs. Byggingalist Norðmanna gerð hér góð skil. Strætisvagn: 30 að Folkemuseet. Opið 11 – 15 virka daga en 11 – 16 um helgar. Aðgangseyrir 1600 krónur. Heimasíðan.

>> Víkingaskipasafnið (Kulturhistorisk Museum) – Víkingar og allt þeim tengt er hér til sýnis. Strætisvagn: 30 að Folkemuseet. Opið 9 – 18 alla daga. Miðaverð 1100 krónur en hægt að kaupa fjölskyldumiða fyrir fjóra á 2000 krónur. Heimasíðan.

>> Siglingasögusafnið (Norsk Sjøfartsmuseum) – Dugi Víkingaskipasafnið ekki til að drekkja áhuga um sjó og sjófarendum er hægt að rölta sér hingað til skoða til hlítar aðra skiptakosti Noregs frá aldaöðli. Strætisvagn: 30 að Folkemuseet. Opið alla daga milli 10 og 18 en tveimur tímum skemur á veturnar. Prísinn 900 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.

>> Kon Tiki safnið (Kon Tiki Museet) – Thor Heyerdahl er ein af norsku þjóðhetjunum og saga hans afar merkileg. Meðal annars þvældist hann yfir Kyrrahafið á samanreyrðum fleka sem er til sýnis hér ásamt mörgu öðru ævintýralegu. Skemmtilegt safn. Strætisvagn: 30 að Folkemuseet. Opnunartímar afar mismunandi en alla jafna alltaf milli 11 og 15:30. Aðgangur 1300 krónur. Heimasíðan.

>> Fram safnið (Frammuseet) – Ótengt með öllu samnefndu íþróttafélagi úr Safamýri. Safnið geymir seglskipið Fram sem kom mjög við sögu í heimskautaferðum Norðmanna áður fyrr. Aukinheldur mikið af upplýsingum um ævintýramennsku Amundsen, Nansen og fleiri landkönnuða Norðmanna.

Til umhugsunar: Eins og annað í Noregi er ekki ókeypis að sækja hér söfn. Sé hugmyndin að sækja þau nokkur getur verið ráð að verða sér úti um Oslokortið, Oslo Pass, sem veitir umtalsverðan afslátt eða frían aðgang á einum 35 söfnum. Veitir slíkt einnig aðgang að Holmenkollen skíðastökkpallinum fræga og ótakmarkaðar ferðir með almenningssamgöngutækjum innan miðborgarinnar. Oslókortið fæst á upplýsingamiðstöð ferðamanna við Jernbanetorget. Ódýrasta útgáfan til 24 tíma kostar 5000 krónur.

Annað áhugavert

Færa má fyrir því sterk rök að þó vissulega megi finna forvitnilega hluti að sjá og gera í Osló er það náttúra hennar og umhverfi sem heilla sennilega hvað flesta hvort sem er á sumrin eða á veturna. Miklir skógar umkringja borgina þar sem hreint unaðslegt getur verið að ganga um eða dvelja í útilegu. Strandlengjan í báðar áttir frá Osló er afar heillandi á sumrin og mest heillandi er hversu stutt þarf að fara til að komast í náttúruna.

Nokkrir fínir almenningsgarðar eru í Osló. Þeir helstu eru Frogner garður í Vigelandsparken (strætó eða sporvagn til Vigelandsparken) en sá er bæði frið- og gróðursæll og að auki má þar finna Vigeland skúlptúrgarðinn. Hundruðir listaverka standa þar og gera heillandi umhverfið enn meira spennandi. Þar við er einnig stór og fín útisundlaug. Tøyen garður er við Munch safnið og öldungis vinsæll til nestisferða og slökunar. Þar er einnig sundlaug en innandyra. Í göngufjarlægð frá honum til suðurs er grasagarður Oslo, Botanisk hage, auk Náttúrufræðisafns borgarinnar en þar er aðgangur frír. St.Hanshaugen er minni garður í hæðum borgarinnar en þar má fá besta útsýnið yfir borgina og nágrenni. Enn einn garðurinn, Slottsparken, er við Konungshöllina á Karl Jóhanns stræti.

Sé heitt í veðri er þjóðráð að bregða undir sig betri fætinum með sundfötin undir betri hendinni og taka stefnuna á einhverja af ströndum þeim er borgarbúar sækja stíft. Allnokkrar ferjur flytja fólk að þeim stórkostlegu eyjum sem Oslófjörð fylla. Þá hefur borgin haft þá fyrirhyggju að bjóða upp á svokallaða sundrútu, badbussen, sem er strætisvagn númer 87 sem fer frá Jernbanetorget, Oslo S, að þremur eðalströndum á innan við hálftíma. Eru það Hverenbukta, Bestemorstranda og Ingierstrand en á öllum er aðstaða eins fyrsta flokks og hún gerist á strönd norður í ballarhafi. Þá er og vinsælt að taka sundspretti í einu af fjölmörgum vötnum nálægt Osló og nægir að halda til Oslomarka til að upplifa slíkt.

Ekebergsletta er úthverfi Osló sem orðið er heimsþekkt fyrir að þar er árlega haldið stærsta knattspyrnumót heims ár hvert. Norway Cup dregur að yfir 30 þúsund þátttakendur ár hvert frá tugum landa.

Allir þekkja Holmenkollen skíðasvæðið sem er enn þann dag í dag einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í borginni. Sjón er að sjá stökkpallinn og safn honum tengt en þar er líka kjörið að leigja gönguskíði, sleða eða skauta þegar snjór liggur yfir. Hér hafa heims- og Ólympíuleikar í skíðastökki farið fram og næsta HM árið 2010 verður haldið hér.

Gaman er að rölta um Aker Brygge bryggjuhverfið sem hefur alfarið verið byggt upp að nýju og er þar sægur veitinga- og kaffihúsa og mannmergð á góðum dögum. Þar er einnig talsvert af verslunum en þær eru allar í dýrasta kantinum.

Hið nýja norska Óperuhús við höfnina er mikil smíð og hefur bæði byggingin og arkitektar hennar hlotið mörg verðlaun. Hljómburður þykir lyginni líkast og tiltölulega auðvelt er að verða sér úti um miða á uppsetningar flestar. Þar er einnig veitingastaður og húsið sjálft er vel þess virði að sjá.

Norska konungshöllin, det Kongelige Slott, er Íslendingum vel kunnug úr fréttum og hún rís tignarlega við enda Karl Jóhanns götu. Yfir sumartímann er hægt að skoða hluta hennar með leiðsögufólki en það kostar rúmar tvö þúsund krónur. Nánar hér.

Akershus Slott er hinn konunglegi kastali þeirra Oslóbúa og vel skoðunar virði. Gott útsýn yfir fjörðinn og hluta borgarinnar er þaðan og fróðlegt að skoða sögu kastalans sem um leið er saga borgarinnar frá þrettándu öld.

Verslun og viðskipti

Á velmegunartíma Íslands hefði mögulega einhver getað gert sæmileg kaup í Osló en því fer víðs fjarri nú. Borgin hefur enda ásamt Reykjavík mælst sú dýrasta í Evrópu og jafnvel í heiminum öllum í mörgum könnunum. Osló er enn rándýr en krónan okkar fórnarlamb og góð kaup hér gerir enginn með laun í íslenskum krónum að svö stöddu. Vilji fólk reyna er best að sækja útsölurnar í janúar og ágúst. Helstu verslunarkjarnar Osló eru:

♥  Glasmagasinet stórverslunin stendur við Stóratorg, Stortorvet, og er vinsæl meðal heimamanna.

♥  Oslo City er verslunarmiðstöð gegnt Aðalstöðinni, Oslo S. Sérstaklega vinsæl meðal yngra fólks og úrvalið gott.

♥  Byporten er verslunarmiðstöð með markaðsyfirbragði við Aðalstöðina.

♥  Karl Johansgate er brimfull af verslunum ýmis konar sem Íslendingar þekkja mætavel. Hér er meðal annars Paléet og þar má líka finna hina vinsælu stórverslun Steen og Ström í einni hliðargötunni.

♥  Á Aker brygge er slatti af verslunum. Þær eru þó með þeim allra dýrustu í borginni.

♥  House of Oslo við Dokkvei er verslunarmiðstöð sem samanstendur af verslunum í innanhússarkittektúr. Sé vilji til að kaupa fallega innanstokksmuni er þetta staðurinn.

♥  Víðar um borgina má finna ágætar verslunargötur aðrar með sérhæfðara eða minna úrval. Akersgata, Møllergata og Bygdøy allé eru þrjár vinsælar.

Matur og mjöður

Jamm og jæja! Hér stendur hnífurinn í kúnni hvað Osló varðar því þótt fræðilega sé mögulegt að valsa þar um og gera sæmileg kaup í varningi ýmis konar er næsta útilokað með öllu að fara alsæll út af veitingastað hér þar sem verðin eru svo himinhá að einu gildir hversu góður maturinn er.

Að gamni slepptu má segja að vart sé hér farið á sæmilegan veitingastað án þess að fjögur þúsund krónur að lágmarki hverfi úr veskinu og mun meira en það sé áfengi keypt með. Á betri veitingastöðum hækkar prísinn á mann auðveldlega í sex til átta þúsund fyrir utan drykki.

Þumalputtareglan hér er að allir norskir staðir eru dýrir en asískir staðir, sem nóg er af víða, eru þeir ódýrustu í bænum. Fjöldi veitingastaða er í miðbænum og í radíus kringum Karl Jóhannsgötu og finna má slíka staði í flestum helstu götum í öllum hverfum.

Hér má sjá 100 bestu veitingastaði Osló að mati lesenda Tripadvisor.com

Sé maturinn dýr þá fá flestir sjokk við að sjá vínlista veitingastaða. Þar er fátt heillandi og segir það sitt að stór meirihluti Norðmanna leggur á sig töluverð ferðalög til Svíþjóðar eða Danmerkur til að versla áfengi í stórum stíl. Bjór á bar kostar hér 1400 krónur að meðaltali og sterkir drykkir skjaga vel í þrjú þúsund krónur. Alls staðar er bannað að reykja og allir staðir hætta sölu áfengis á slaginu þrjú eftir miðnættið. Flestir loka skömmu síðar.

Til umhugsunar: Sami háttur er á sölu áfengis í Noregi og hér og það aðeins selt í áfengisverslunum Vinmonopolet. Skal það brýnt fyrir ferðafólki að taka með sér toll af áfengi eða tóbaki til Noregs því það sparar þúsundir króna.

Líf og limir

Glæpir fara ört vaxandi í Osló og hún er langt frá því jafn saklaus og margir telja hana vera. Mikill fjöldi innflytjenda hefur skapað mikinn ríg í stöku hverfum og glæpir á borð við þjófnaði og vændi algengari með hverju árinu. Svæðið kringum Aðalstöðina skal forðast seint á kvöldin og svæðið milli Karl Jóhanns götu og hafnarsvæðisins er heimavöllur vændiskvenna og dólga sem sumir geta verið miður skemmtilegir. Þá skal ávallt hafa augun hjá sér á biðstöðvum lesta og strætisvagna.

View Larger Map