Fullyrða má að það segi flest sem segja þarf um borgina Orlando að þegar ferðamenn flykkjast í milljónatali árlega til svæðisins er enginn þeirra í raun að fara til Orlando. Neibbs. Yfirgnæfandi meirihluti fólks sækir í magnaða risastóra skemmtigarðana og töluverður fjöldi spilar golf hér út í eitt
Svæðið per se er þekkt og táknrænt á heimsvísu sem afþreyingarmiðstöð og skemmtigerður en þá er ekki verið að tala um borgina Orlando heldur öllu fremur þeir risavöxnu skemmtigarðar sem hér er allt í kring og þykja bera af. Hvorki Disneyworld né Universal garðurinn tilheyra Orlando á nokkurn hátt. Þeir báðir og velflest annað hér sem fólk sækist í eða eftir er í Lake Buena Vista héraði.
Í allri hreinskilni er borgin Orlando þó hvorki betri né verri en margar aðrar borgir Bandaríkjanna. Hún er ung að árum og þar er ekkert ýkja margt að sjá eða skoða annað en traffík, stress og þessar hefðbundnu verslanir stórborga. Mest er lífið í borginni sjálfri við Orange breiðgötuna, Orange Avenue, en þar má finna góðar verslanir, veitingastaði og bari. Hluta götunnar er lokað fyrir umferð bíla þegar líða fer á kvöldin og þá getur verið innilega gaman að vera á því svæði.
Þá er fallegt við Eola vatnið sem er nokkrum götum frá Orange og afar fallegur lýstur gosbrunnur þar í miðju vatninu sem hefur með tímanum orðið tákn borgarinnar. Sé vilji til að djamma dálítið fram eftir nóttu er Wall Street málið. Þar eru nokkrir ágætir veitingastaðir og margir betri barir borgarinnar.Þá spilar NBA körfuboltaliðið Orlando Magic hér í Amway Arena á veturna og ekki hefur þótt sérstaklega erfitt að verða sér úti um miða hingað til.
Tvö svæði sérstaklega í borginni eru ekki til þess fallin að fara þar um sökum glæpa. Það eru hverfin Parramore og Pine Hills. Glæpir gegn ferðafólki almennt á svæðinu öllu eru fremur sjaldgæfir.
Tvær árstíðir eru fyrir þetta svæði; heitt og heitara og svo merkilegt sem það nú er þá er meginferðamannastraumurinn til svæðisins alls frá mars og fram í september. Nema hvað besta veðrið í Orlando er á veturna þegar minnst er um ferðamenn og þar er klárt tækifæri að upplifa svæðið án þess að eyða heilu klukkustundunum í biðraðir eins og oft vill verða á annatímum.
Þær 52 milljónir ferðamanna sem árlega sækja Orlando svæðið heim sækjast fyrst og fremst eftir góðu veðri, skemmtigörðunum og vaxandi fjöldi stundar golf hér við öll tækifæri. Meginþorri þeirra dvelur og þvælist kringum International Drive, I-Drive, en á þeirri götu má finna allt sem ferðalanga getur vanhagað um.
SAMGÖNGUR OG SNATTERÍ
Tiltölulega einfalt er að komast til og frá flugvöllunum til annaðhvort borgarinnar eða nálægra staða. Icelandair flýgur til Orlando Sanford flugvallar sem er sá minni af tveimur við borgina. Mörg betri hótel bjóða skutlur fyrir gesti sína til og frá flugvellinum. Sé það ekki í boði er leigubíll vænn kostur þó slíkt geti fækkað þúsundköllunum í veskinu um fjóra til fimm eftir því hvert ferðinni er haldið. Auðvelt er og sæmilega ódýrt er að leigja bílaleigubíl strax á flugvellinum og í Sanford einir tólf aðilar að bjóða þá þjónustu.
Hvort sem dvalist er í Orlando borg sjálfri eða í hverfum Lake Buena Vista og reyndar hvarvetna í Flórída er hvergi komist spönn frá rassi nema vera með bifreið til umráða. Vissulega ganga strætisvagnar í borginni og rútur fara reglulega milli bæja og borga en þar sem fæstir dvelja í borginni sjálfri er langsótt að ætla að brúka slíkt. Sjá má allar leiðir strætisvagna hér ef sá gállinn er á fólki.
Gisti fólk á I-Drive eða nálægt er óvitlaust að notfæra sér þjónustu I-Ride-Trolley en það samgöngutæki fer fram og aftur mörgum sinnum daglega. Sá reyndar stoppar æði oft sem er kostur eða galli eftir því hverju fólk er að leita eftir. Þá fer það einnig eftir umferð hversu fljótur hann er í förum. Stakt fargjald kostar 200 krónur. Nákvæmar leiðir og tíðni má finna hér.
Til að rata um Orlando borg er ráðlegt að kaupa gott kort af borginni enda er hún glettilega stór og þar er auðvelt að villast. Öðru máli gegnir um International Drive, I-Drive, og helstu skemmtigarða. Hér er allt kyrfilega merkt í bak og fyrir og nánast engin leið að villast. Gott ráð er að grípa eitt af fríum kortum sem fást á velflestum hótelum og gististöðum.
Til umhugsunar: Ef frá er talin hraðbrautin I4 er tollur á öllum hraðbrautum í Orlando héraði. Sé víða farið um er það fljótt að hrannast upp í peningum talið. Þekki fólk þær leiðir sem það ætlar að fara er hægt að nota þennan tollmæli til að átta sig á því nákvæmlega hversu mikið skal greiða í tolla á leiðinni.
Verðlag 90%Loftslag 85%Landslag 45%Afþreying 100%
PLÚS
Beint flug með Icelandair allt árið
Ógrynni verslana
Tiltölulega auðvelt að rata
Sólskin 236 daga á ári
Nokkuð fjölbreytt dýralíf
Glæpatíðni lág
Mikill fjöldi hótela tryggir lágt verð
MÍNUS
Miður geðsleg skordýr
Nauðsyn að leigja bílaleigubíl
Landslagið flatt og óáhugavert
Hitastigið stundum óþægilega hátt
Raðir og bið í helstu skemmtigarða
Fáir fyrsta flokks veitingastaðir
Mörg svæði afgirt og dauðhreinsuð
VERSLUN OG VIÐSKIPTI
Orlando er sennilega meira ævintýraland fyrir kaupglaða en Disney World er fyrir börnin. Hér eru risa verslunarmiðstöðvar á hverju strái með allt fyrir alla og þótt verðin séu ekki jafn hagkvæm fyrir okkur Íslendinga nú og þegar dollarinn fór niður í fyrir 60 krónum gagnvart krónunni er engu að síður víða hægt að gera fínustu kaup.
The Florida Mall er stærsta verslunarmiðstöðin hér um slóðir í héraðinu með yfir 200 verslanir. The Mall at Millennia er öllu minni en mun fínni og dýrari. Þar eru verslanir með lúxusmerkin öll saman. Sú þriðja sem eitthvað bragð er af er Orlando Fashion Square í norðausturhluta borgarinnar sjálfrar.
Þrjár svokallaðar outlet verslunarmiðstöðvar eru á Orlando svæðinu. Henta þær íslenskum veskjum mun betur þessi dægrin en áður var. Fyrst er að telja til Orlando Premium Outlets en þar er mest úrval merkjavöru frá stærstu framleiðendunum. Prime Outlets er skammt frá Disney World og hét áður Beltz. Vel yfir 300 verslanir eru svo í Lake Buena Vista Factory Stores miðstöðinni sem einnig er skammt frá Disney World. Aðeins færri verslanir finnast í Lake Buena Vista Factory Store og svo má ekki gleyma risaverslunum Walmart sem hér eru nokkrar og selja æði margt á verði sem flokkast gæti sem outlet-verð.
Í borginni sjálfri eru verslanir svo víða eins og gengur og gerist en sé áhugi á einhverju sérstöku gæti verið tilvalið að kíkja á „Litla Saigon“ hverfið svokallaða örfáum götum til austurs frá miðbænum. Þar er mikið úrval af veitingastöðum og verslunum með varning frá Víetnam og annars staðar í Asíu. Orlando á líka sitt „Littla Indland“ þar sem finna má indverska staði í massavís og þar meðal annars marga ágæta veitingastaði. Eru þeir margir við aðalgötuna South Orange Blossom Trail og í nálægum hliðargötum.
SÖFN OG SJÓNARSPIL
Til umhugsunar: Það eru kannski ekki svo margir sem leggja sig eftir heimsóknum á söfn og gallerí þegar dvalist er hér um slóðir enda ógrynni af afþreyingu annarri í boði. En sé viljinn mikill til að sjá sem mest og bíll til umráða er óvitlaust að kaupa svokallað Go Orlando kort. Með því fæst töluverður afsláttur eða frír aðgangur inn á tæplega 50 söfn og skemmtigarða hér um kring. Það er þó ekki frítt. Tveggja daga passi kostar fullorðinn einstakling um sextán þúsund krónur. Nánar hér.
Morse Museum of American Art >> Stærsta safnið í Bandaríkjunum tileinkað glerlistamanninum Louis Comfort Tiffany sem fáir Evrópubúar þekkja. Louis vinurinn afar þekktur listamaður í heimalandinu og glerlist hans sannarlega skoðunar verð. Safnið finnst í Winter Park til norðurs frá Orlando borg. Opið 9:30 til 16 alla daga nema mánudaga og frá 13 til 16 á sunnudögum. Aðgangseyrir 700 krónur.
Cornell Fine Arts Museum >> Það er aðeins meira að segja fyrir Íslendinga að labba um listasöfn þegar hitastigið úti fyrir er statt og stöðugt 30 gráður plús. Geti menn það er ráð að kíkja á þetta ágæta litla safn sem einnig er í Winter Park eins og Morse Museum glerlistasafnið. Ekkert hér sem breytti heiminum en allgott safn verka alls staðar að. Opið 10 til 16 alla daga nema mánudaga. Frír aðgangur.
The Orlando Museum of Art >> Sæmilegt safn í miðborg Orlando og líklega það virtasta hér um slóðir. Af og til detta hér inn sýningar sem virkilega geta freistað þeirra sem elska list. North Mills Avenure. Opið 12 til 16 alla daga nema mánudaga. Aðgangur misjafn eftir sýningum.
The Orlando Science Center >> Risastórt nítján þúsund fermetra vísindasafn ætlað yngstu og ungu kynslóðinni. Mjög áhugavert fyrir margar sakir og smáfólkinu mun varla leiðast hér. Aðgangseyrir er 2.600 krónur en biðraðir eru algengar á annatímum. Opið 10 til 17 sunnudaga til föstudaga en frá 10 til 22 á laugardögum yfir háannatíma. East Princeton Street.
Ripley´s Believe it or Not >> Raunveruleikinn er lyginni líkastur oft á tíðum og Ripley safnið gerir vel að bregða ljósi á þann furðuheim sem við búum í alla daga. Safnið staðsett við International Drive og fer sennilega ekki fram hjá neinum sem þar fer hjá enda byggingin sjálf afar undarleg. Meðal skoðunarferðin tekur eina og hálfa klukkustund og þarna er opið alla daga ársins nema jóladag frá 9:30 til 23 á kvöldin. Fullorðinsgjald 2.500 krónur og 1.600 fyrir börn yngri en tólf ára.
Wonder Works >> Fararheill mælir heils hugar með heimsókn hingað og Wonder Works auðfindið við I-Drive. Leitið bara að húsinu sem er á hvolfi. Þetta er ævintýraheimur þar sem gestum gefst kostur á að sjá og prófa ýmislegt skringilegt og merkilegt. Ótvírætt skemmtanagildi ef smáfólk er með í för. Miðaverð kringum 3.000 krónur.
Titanic Exhibition >> Fjölmargir hafa áhuga á lúxusskipinu Titanic jafnvel þó það hafi legið í votri gröf um áratugaskeið. Þennan áhuga hafa menn vestanhafs gripið á lofti og á I-Drive er að finna safn tileinkað skipinu. Þar innandyra má sjá nákvæmar eftirlíkingar af innanstokksmunum auk raunverulegra muna sem bjargað hefur verið úr skipinu. Sæmilegt safn ef áhugi er fyrir hendi en annars leiðinlegt. Miðaverð 2.700 krónur.
Til umhugsunar: Hér að ofan tilgreinum við aðeins það helsta sem er í Orlando eða allra næsta nágrenni. Sé radíusinn víkkaður meira er töluvert af forvitnilegum hlutum annars staðar í Daytona, Cape Canaveral, Fort Lauderdale eða Tampa svo nokkur dæmi séu tekin. Kennedy geimferðamiðstöðin er sjón að sjá á Cape Canaveral, ágætt listasafn tileinkað Salvador Dalí er í Tampa og strendurnar á Fort Lauderdale ekki amalegar í neinni merkingu. Það er líka þaðan sem sigla nokkur af stærstu skemmtiferðaskipum heims og yfirleitt hægt að finna fínustu siglingar á lægsta mögulega verði skammt fyrir brottför
Orlando
24C
haze
humidity: 50%
wind: 4km/h E
H 24 • L 24
23C
Mon
23C
Tue
24C
Wed
25C
Thu
23C
Fri
AFÞREYING OG ÁNÆGJUSTUNDIR
Ferðamálayfirvöld í héraðinu hafa reiknað út að til þess að prófa einu sinni alla skemmtigarða og uppákomur sem völ er á á svæðinu þurfi til þess 67 daga. Fæstir gefa sér nú þann tíma en stærsta aðdráttaraflið er án efa Universal Orlando Resort sem verður að lýsa sem megagarði. Hann samanstendur af tveimur skemmtigörðum, þremur hótelum og stóru verslunar og þjónustusvæði. Þar fer enginn inn á kvöldin nema vera orðinn 20 ára og með skírteini til að sanna það enda opnir barir á svæðinu.
SeaWorld Orlando er annað afar vinsælt skemmtisvæði. Hluti sædýrasafn og skemmtigarður en þar má finna stærsta rússíbana í Orlando. Systurgarður SeaWorld er Discovery Cove þar sem áhugasamir geta synt með höfrungum í 30 mínútur.Þá er einnig sundlaugagarðurinn Wet´N´Wild við International Drive. Nýr vatnsleikjagarður, Aquatica, hóf starfsemi nýlega en sá er rekinn af SeaWorld.
Í hálftíma fjarlægð frá International Drive er einn frægasti, ef ekki sá frægasti, skemmtigarður heims: Walt Disney World. Þar er ógrynni af afþreyingu fyrir bæði kyn og alla aldurshópa en sá hængur er á að garðurinn er stútfullur af fólki alla daga og búa verður yfir ómældri þolinmæði til að þola þar við lengur en tvo til þrjá tíma. Langar biðraðir eru í flest skemmtitækin, veitingastaðir innan svæðisins í dýrari kantinum og eilíf öskur hingað og þangað um garðinn reyna á rólegasta fólk.
Til umhugsunar: Fjöldinn sem sækir Disney World heim dag hvern skiptir tugum þúsunda. Engum þarf að koma á óvart að gríðarmiklar raðir eru við allra vinsælustu tækin á staðnum og mælir Fararheill.is með að þú verðir þér úti um svokallaðan Fastpass. Sá gefur forgang umfram alla sem ekki hafa slíkan passa og getur verið munurinn á að bíða í 3-4 klukkustundir í röð við hvert og eitt undur eða bíða „aðeins“ 10 til 20 mínútur eða skemur. Með slíkum passa færðu úthlutaðan tíma fyrir hvern viðburð fyrir sig og svo læturðu sjá þig á réttum tíma og þarft lítið að bíða. Eftirtalin tæki eru þau vinsælustu í garðinum: Splash Mountain, Peter Pan´s Flight, Space Mountain, Toy Story Mania, Test Track, Soarin, Rockin Roller Coaster og Kilimanjaro Safaris. Passinn er frír og fæst við innganginn.
Skammt frá Disney heiminum má finna enn einn garðinn; Gatorland. Er það dýragarður með sérstaka áherslu á krókodíla og alligatora og er enginn skortur af þeim. Önnur dýr má sjá þar líka. Þá er einn til þar skammt frá. Holyland heitir sá og hefur Jerúsalem sem þema en rekinn er þar talsverður áróður fyrir kristinni trú og Ísrael enda garðurinn stofnsettur af sértrúarsöfnuði. Síðast en ekki síst er hér stærsta Lególand heims, Lególand Flórída, en sá er reyndar nokkurn spöl til suðurs í Winter Haven.
Til umhugsunar: Hver og einn þessara skemmtigarða er opinn frá kl. 9 á morgnana yfir háannatíma á sumrin en opnunartími breytist mikið eftir árstíma. Stöku garðar loka nokkra mánuði yfir vetrartíma. Gangið úr skugga um slíkt á heimasíðum viðkomandi garða.
GUÐDÓMLEGT GOLF
Orlando og nágrenni er paradís fyrir kylfinga enda hvorki fleiri né færri en 22 vellir í klukkustundar radíus frá borginni. Er þar úr ýmsu að moða. Bæði heimsþekktir vellir þar sem stórmót í golfinu hafa farið fram ellegar opnir vellir fyrir hvern þann sem áhuga hefur. Gjald fyrir einn hring er misjafnt en rokkar frá 6000 krónum og upp í 40 þúsund á þeim allra frægustu. Sjá nánar úttekt Fararheilla á golfvöllum í Orlando hér.