Skip to main content

J afn yndislegt og nauðsynlegt það er að ferðast út fyrir landsteinanna og fylla skilningarvit af nýjum og spennandi hlutum þá þarf ekki alltaf að greiða fúlgur fyrir. Sérstaklega ekki í Berlín.

Þó Berlín sé ein hagkvæmasta borg Evrópu að heimsækja er ekki þar með sagt að hún sé ýkja létt á pyngjunni

Þó Berlín sé ein hagkvæmasta borg Evrópu að heimsækja er ekki þar með sagt að hún sé ýkja létt á pyngjunni

Berlín nýtur vaxandi vinsælda Íslendinga eins og annarra og ekki síst sökum þess að borgin sú er merkilega ódýr þrátt fyrir allt. Gildir þá einu hvaða hverfi borgarinnar er heimsótt.

En auðvitað er það líka í Berlín sem annars staðar að bestu hlutirnir í lífinu eru jú ókeypis :

Hér nokkrar hugmyndir að ókeypis afþreyingu í þessari yndislegu borg Þýskalands.

♥ Njóttu útsýnisins af þaki Ríkisþinghússins  –  Ein fallegasta byggingin í Berlín og með mikla og merka sögu. Þó hvolfþakið á toppnum þyki ekki öllum augnayndi er óvíða hægt að fá betra útsýni yfir borgina. Aðgangur er frír en eyða þarf einhverjum tíma í biðröð til að komast upp. Heimasíðan.

♥ Fylgdu heillegasta hluta Berlínarmúrsins – Lítið er eftir af þessum illræmda múr sem skipti borginni um áraraðir og var tákn Kalda stríðsins. Heillegasti hluti hans við Mühlenstraβe er útkrotaður og ljótur á köflum en þó heillegur ennþá. Það sem meira er; þar er að finna sönn listaverk inn á milli enda stöku listamenn tekið sig til og málað myndir yfir ljótann steininn. Staðurinn gjarnan kallaður gallerístræti af heimamönnum.

♥ Safnaeyjan á sunnudögum  –  Safnaeyjan, Museuminsel, er stórkostlegt fyrirbæri í Berlín þar sem fimm stór og fræg söfn eru á einum og sama blettinum. Alla jafna þarf að punga út til að skoða en ekki á fyrsta sunnudegi hvers mánaðar þegar öll opinber söfn opna dyr sínar og aðgangseyrir dettur niður í núll krónur.

♥ Treptower garðurinn  –  Þeir eru nokkrir garðarnir í borginni sem ekkert kostar að rölta um og njóta. Tiergarten er þeirra vinsælastur enda miðsvæðis en Treptower er merkilegur líka þó ekki nema fyrir þær sakir að vera byggður af Sovétmönnum til minningar um þá hermenn Rauða hersins sem létust í umsátrinu um Berlín. Sagt er að hér hvíli bein fimm þúsund hermanna. Heimasíðan.

♥ Landsvæði helvítis  –  Landsvæði helvítis er léleg þýðing ritstjórnar á Topographie des Terrors en það er safn er staðsett þar sem höfuðstöðvar hinna illræmdu SS sveita voru þegar Adolf Hitler réði ríkjum hér. Hér er sögu SS sveitanna gerð skil og ekkert undan skilið þó viðbjóðslegt sé.  Safnið er að hluta til úti og að hluta til inni. Heimasíðan.