Skip to main content

Þ að vita fæstir nema þeir sem persónulega hafa heimsótt hafa eitt fátækasta land Suður-Ameríku, Ekvador, að þrátt fyrir mikla fátækt alla tíð hefur þjóðinni tekist að byggja lestarteina á ólíklegustu stöðum. Þetta er eina land álfunnar sem býður ekki aðeins upp á lestarferðir milli fjalls og fjöru heldur og lúxus-lestarferðir milli fjalls og fjöru.

Nariz de Diablo, Nef Djöfulsins, er fjall eitt hátt og mikið í Andesfjöllum Ekvador. Gamaldags gufuknúnar lúxuslestir ferja menn frá fjöru fleiri þúsund metra upp Andesfjöllin.

Þrjátíu og fimm þúsund krónur íslenskar þykja ágæt mánaðarlaun almúgans í Ekvador þegar þetta er skrifað og má af því ráða að hlutirnir hafa verið skrambi erfiðir þessari litlu þjóð síðustu ár og aldir. Ekki svo að skilja að Ekvadorar fái greitt í íslenskum krónum en þið vitið hvað við erum að fara 😉

Í því ljósi er aldeilis fráleitt að það kosti að lágmarki 220 þúsund krónur íslenskar á mann að skottast í gamalli gufulest frá fjöru upp í fjöll eða öfugt í fjögurra daga ferð.

Það er verðmiðinn á túr með Tren Cruceiro lestinni í Ekvador en sú fer á milli fjöru, borgarinnar Guayaquil, og til höfuðborgarinnar Quito sem stendur í 2800 metra hæð yfir sjávarmáli og eðli máls samkvæmt sömu leið til baka. Leiðin atarna fer reyndar töluvert ofar en það því hæsti punktur Tren Cruceiro nær hvorki meira né minna en 3600 metra hæð. Það, góðir lesendur, eru rúmlega sextíu Hallgrímskirkjur á hæðina.

Einhver kann að spyrja hvað sé nú merkilegt við gamla hægfara gufulest sem skaufast upp og niður tiltölulega óþekkt svæði í tiltölulega lítt þekktu landi. Það er röng spurning. Rétta spurningin er: hversu geðveikt ætli sé að sniglast með aldagamalli lest upp einhverja hæstu og fallegustu fjalltinda heims? Sniglast framhjá minnst ellefu smáþorpum þar sem afkomendur Inkanna stunda enn sína fjallarækt, lestast framhjá tíu eldfjöllum og þar af einu sem enn er virkara en Miðflokksmenn á Klaustri. Sniglast kringum eitt merkilegasta fjall Andesfjalla, Nef Djöfulsins, þar sem lestin þarf að skottast fram og aftur til að komast alla leiðina upp.

Svarið er einfalt: þetta er ómissandi túr þó dýr sé. Svona túr sem ólíkt mörgum öðrum, gleymist seint eða aldrei. Og víst mun litla hjartað banka ótt og títt á köflum þar sem útsýnið er lóðbeint fleiri hundruð metra niður í eilífðina en litla hjartað þarf líka á spennu að halda. Annars hættir það að slá af tómum leiðindum 🙂

Út með þig 🙂