L íklega setja fæstir samasemmerki milli Barselónu annars vegar og skíðasvæða hins vegar en raunin er sú að það er ekki langt frá þessari skemmtilegu borg á hin ágætustu skíðasvæði að vetrarlagi.
Það vill oft gleymast að Spánn er eitt allra fjalllendasta land Evrópu og nánast í öllum héruðum landsins er hægt að komast á skíði að því gefnu að þar sé snjó að finna.
Snjór í fjöllum Katalóníu er nánast gefið yfir vetrartímann (ennþá) og þar sem auðvelt er, og stundum ódýrara en taka með að heiman, að leigja skíði á staðnum er óvitlaust að bregða undir sig betri skíðafætinum ef dvalist er í Barselóna eða nágrannabæjum yfir vetrartímann.
Tveir ágætir staðir sem eru nánast í „beinni“ frá Barcelona með lestum eru Vall de Núria og La Molina sem hvorugir flokkast sem fyrsta flokks en sannarlega frábærir á íslenskan mælikvarða.
Sá fyrrnefndi, Vall de Núria tilheyrir Girona héraði til norðurs af Barcelona og sérdeilis fínn áfangastaður fyrir dagsferð frá borginni. Fínar brekkur sem henta ungum sem öldnum og skíðafólki sem brettafólki. Ellefu mismunandi brekkur með ellefu mismunandi lyftum. Best kannski að dagskíðapassinn plús lest til og frá Barcelona kostar aðeins tæpar 4.000 krónur á haus. Frá Barcelona Sants stöðinni skal fara til bæjarins Ribes de Freser og þar skipta yfir í lest beint á svæðið.
Enn styttra er að halda til La Molina sem er eitt elsta skíðasvæði Spánar. Þar er öllu meiri erill almennt en í Vall de Núria enda fleiri svæði sem henta byrjendum og brekkurnar ekki jafn brattar almennt. Frábært sérsvæði fyrir brettafólk. Hingað er komist með lest frá Barcelona Sants og beint til bæjarsins La Molina en þaðan ganga rútur frá lestarstöðinni upp í brekkurnar. Dagspassi í brekkurnar plús túrinn til og frá Barcelona kostar um 4.500 krónur alls á mann.