Í kjölfar falls okkar ástkæru krónu hafa íslenskir kylfingar glímt við töluverðan vanda. Hvernig komast skal erlendis í golf án þess að greiða fót- og handlegg fyrir.

Hér golfar þú ódýrast í heiminum

Hér golfar þú ódýrast í heiminum

Fararheill.is hefur tekið saman meðalverð í golf í nokkrum helstu löndum Evrópu svo þú eigir hægara um vik að taka ákvörðun um hvar þú spilar þetta árið án þess að brjóta bankann. Áhersla er á þau lönd sem flogið er til héðan frá Íslandi en ekki tekið tillit til sérstakra golfpakka sem ferðaskrifstofurnar bjóða.

Öll verð eru í íslenskum krónum miðað við gengið í byrjun febrúar í ár.

Danmörk – Ódýr hringur á ódýrum velli í  gamla föðurlandinu kostar þetta árið 4.300 krónur á virkum dögum en sami hringur um helgi fæst ekki undir 6.500 krónum. Hafa skal í huga að vellir á þessum verðum eru ekki ýkja margir og flestir úti á landsbyggðinni. Dýrustu vellir landsins á virkum dögum kostar kringum 9.000 krónur og hátt í 13.000 um helgar. Gera má ráð fyrir að meðalvöllurinn kosti gróflega milli sex og níu þúsund.

Bæði flugfélögin fljúga hingað. Kaupmannahöfn, Billund og Álaborg

Spánn – Vellirnir á Spáni eru alla jafna velflestir í góðum gæðaflokki og ólíklegt að finna dapra sveitavelli þar á meðal. Á ódýrustu vellina á virkum dögum hér þarf að punga út 5.500 krónum og vart undir 7.500 um helgar. Standi hugur til að spila betri velli kostar það ekki undir 12 þúsundum á virkum dögum og rúm 15 þúsund um helgar. Auðvitað er hægt að miða hátt og taka hring á heimsfrægum velli eins og Valderrama fyrir 48 þúsund krónur líka. Hér er meðalverðið gróflega á milli 9 og 12 þúsund krónur.

Icelandair og Iceland Express fljúga hingað. Áfangastaðirnir eru Alicante, Madrid og Barcelona

Portúgal – Leit í öllum landshlutum í Portúgal leiðir í ljós að enginn hringur þar fæst ódýrar virka daga en á 4.400 krónur. Sami hringur um helgi tæmir veskið um 6.700 krónur hvorki meira né minna. Þeir dýrustu hér í landi kosta frá 11 þúsundum einn hringur á virkum degi og helgarnar kosta hvern kylfing sextán þúsund krónur. Gróflega má gera ráð fyrir að meðalverðið sé frá sjö þúsundum á virkum dögum og um 9.500 um helgar.

Engin bein flug hingað nema gegnum ferðaskrifstofurnar

Ítalía – Allra ódýrasti hringurinn hér á virkum degi kostar kylfinginn um fimm þúsund krónur og sjö þúsund um helgar. Hending er þó að finna svo ódýra velli og þeir eru víðsfjarri ferðamannaslóðum. Ellefu þúsund þarf að greiða fyrir virkan dag á dýrari völlum landsins og um helgar getur einn einasti hringur kostað allt að sautján þúsundum. Heilt yfir má þó gera ráð fyrir að hringur kosti að meðaltali 8.500 krónur virka daga og vart undir 12.000 um helgar.

Icelandair flýgur beint til Mílanó

Svíþjóð – Hér er töluverður munur á hvar í landinu er spilað en ódýrast bjóða golfklúbbar hér hringinn virka daga á kringum 2.000 krónur og 4.400 ódýrast um helgar. Taki menn hring á vinsælli völlum má gera ráð fyrir að greiða sem nemur 7.500 krónum virka daga og upp undir 10 þúsund um helgar. Meðaltalið er þó nokkuð hagstætt eða gróflega 5.500 fyrir hring virka daga og kringum 7.500 um helgar.

Bæði Icelandair og Iceland Express fljúga hingað til Gautaborgar og Stokkhólms

Þýskaland – Ólíkt því sem margir halda er golf ekki eingöngu á færi viðskiptamógúla í Þýskalandi. Hér finnast ódýrari en fínir vellir í sveitahéruðum á 6 þúsund krónur en margir vellir í Þýskalandi bjóða sömu verð virka daga og helgar. Í og við stórborgir landsins hækkar prísinn duglega og þarf þá að telja fram 9 þúsund að lágmarki virka daga og allt að 14 þúsund um helgar. Almennt má þó segja að meðalverð sé kringum 7.500 virka daga og 10.000 um helgar.

Iceland Express býður þrjá áfangastaði þetta árið og Icelandair tvo. Berlín, Frankfurt og Friedrichshafen

England – Enska velli þekkja orðið margir Íslendingar enda oft í boði golfpakkar þangað. Misjafnt er þó hvort þeir séu hagstæðir eður ei. Hér í landi eru ódýrustu vellir að kosta kringum 2.000 krónur á virkum dögum og 4.000 um helgar. Í hinn endann er einnig hægt að spila hring á vinsælli völlum fyrir 25 þúsund virka daga og upp í 40 þúsund um helgar. Meðaltalið yfir línuna er þó milli 4 og 6 þúsund virka daga og kringum 8 til 10 þúsund um helgar.

Hingað fljúga bæði flugfélögin til London

Wales – Þó Íslendingar hafi ekki gert mikil strandhögg á golfvöllum hér er Wales ótrúlega gjöfult fyrir kylfinga sökum fjölda valla. Það er einmitt fjöldinn sem gerir það að verkum að hér er hægt að golfa virka daga niður í 3.400 krónur og 6.500 um helgar á ódýrum völlum. Dýrasti völlur landsins, Celtic Manor þar sem síðasta Ryder keppni fór fram, kostar þó ekki meira en 19 þúsund fyrir gesti. Almennt er Wales þó hagstætt land því meðalverðin virka daga eru 4.400 og um helgar vart meira en 7.000 krónur.

Engir bjóða ferðir til Wales héðan svo ritstjórn Fararheill viti af.

Skotland – Sú saga er lífsseig að golf hér á fæðingarstað golfsins sé dýrt og aðeins fyrir vellauðuga plebbusa. Það er rangt svo lengi sem menn hafa opinn huga og eru reiðubúnir að spila á lítt þekktum völlum. Hringur á þeim völlum, sem eru ekki síðri en þeir bestu íslensku, kosta alveg niður í 3.300 krónur virka daga og 4.500 um helgar. Sé um þekktari velli að ræða er vallargjaldið komið í 12.000 virka daga og upp í 15.000 nema menn dreymi um hring á gamla vellinum á St.Andrews sem er merkilega ódýr á 23 þúsund krónur. Að því sögðu er meðalkostnaður við hring í Skotlandi um 5 þúsund virka daga og milli 7 og 8 þúsund um helgar.

Iceland Express flýgur til Edinborgar og Icelandair til Glasgow

Írland – Allra ódýrustu vellirnir á Írlandi eru í eigu sveitarfélaga úti á landi en þeir eru öllum opnir sem gerir að verkum að panta þarf með góðum fyrirvara og margir eru um hituna. Hringur á slíkum völlum yfir sumartímann getur þó verið afar ódýr og finnast minnst fjórir slíkir í landinu þar sem aðeins þarf að greiða 1.600 krónur fyrir herlegheitin. Er það ódýrasta golf sem ritstjórn fann við leit sína. Nema það eru ekki þeir vellir sem kylfingar þvælast landa á milli til að spila og á þá velli gildir allt önnur verðstefna enda velflestir í einkaeigu. Hringur á þeim dýrustu í grennd við Dublin kosta vart minna en 28 þúsund krónur. Gera má þó ráð fyrir að 10 þúsund krónur kosti að spila mjög góða velli í landinu og upp að 14 þúsundum um helgar. Er þá miðað við þekkta velli á annatíma nálægt Dublin sem er jú sá staður á Írlandi sem flestir ferðamenn fljúga til.

Iceland Express flýgur til Belfast á Norður Írlandi

[polldaddy poll=“4546423″]