Skip to main content

N arsarsuaq á suðurströnd Grænlands merkir á máli heimamanna Sléttan mikla. Nafnið segir töluvert því Sléttan mikla er ekki ýkja stór en er þó þar flatlendi sem er vandfundið annars staðar á þessari stærstu eyju heims eins og Grænland er stundum kölluð.

Narsarsuaq stendur reyndar verulega inni í landi í löngum firði sem kenndur er við Eirík Rauða og heitir Eiríksfjörður. Veitir sá töluvert skjól fyrir veðri og vindum sem nóg er af hér mestallt árið. Þetta er eini staðurinn í landinu þar sem bændur geta sent fé út í haga og vottur af grænum gróðri gægist upp úr hrústrugu landinu. Það er ástæða þess að landskiki innst í Eiríksfirði er kallaður Blómafjörður.

Eina ástæða bæjar á þessum stað tengist flugvelli þeim er Bandaríkjamenn byggðu hér árið 1941 og er nú helsti alþjóða flugvöllur landsins. Flugstöðin er stór á grænlenska mælikvarða sem þýðir lítil á íslenskan en það er bærinn sjálfur líka því aðeins búa hér 150 manns. Velflestir þeirra starfa á einn eða annan hátt við flugvöllinn þó vissulega hafi komum ferðamanna sem þjónustu þurfa fjölgað verulega á seinni árum.

Gegnt flugvellinum í Narsarsuaq er að finna bæjarstæði Eiríks Rauða í Bröttuhlíð sem er sannarlega vert að skoða fyrir Íslendinga sem komast vilja nær sögunni. Þar er líka Brattahlíðarkirkja og rústir Þjóðhildarkirkju sem kona Eiríks lét byggja kringum árið þúsund. Er það sögulega fyrsta kirkjan sem byggð er í Ameríku sem Grænland tilheyrir landfræðilega.

Frá Narsarsuaq er kjörið að taka báts- eða þyrluferð til bæjarins Qooroq en í samnefndum firði gefst ferðafólki kostur að komast í návígi við stórkostlega ísjaka í bátsferðum og jafnvel á kajökum. Sá bær er sá stærsti og fjölmennasti í suðurhluta Grænlands með um 3000 íbúa.

Kjósi menn hins vegar náttúruna, kyrrðina og ískaldan andann af jökulsettum fjöllum er engin þörf að fara lengra þó hætt sé við að lítill og fábreyttur bærinn heilli ekki alla sem þangað koma.

Auðsótt mál er að fara hér í lengri eða styttri göngur og hægt er að leigja kajaka og hundasleða af heimamönnum ef sá gállinn er á fólki. Þá eru veiðiferðir einnig í boði með heimamönnum og þeir flestir skemmtilegt fólk sem lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna. Reglulegar bátsferðir eru til nágrannabæjanna Narsaq, sem tvö þúsund manns kalla heimili sitt, og Qooroq. Þá eru ennfremur bátsferðir yfir mesta sumartímann til Qassiarsuk og Igaliku sem eru grænlensku heiti bústaðar Eiríks Rauða og fornminja þeirra Íslendinga sem hér dvöldu áður en ferð var fram haldið til Ameríku.

Í Narsarsuaq er eitt lítið hótel og eitt gistiheimili, ein verslun og hér er einnig lítil sjúkrastöð ef eitthvað bjátar á.