Þ ar sem fyrir röskum eitt hundrað árum síðan var byggður fátæklegur bárujárnshjallur sem birgðastöð fyrir lest þá er gekk á milli Mombasa og Úganda er í dag fjölmennasta borg austur Afríku með um þrjár milljónir íbúa. Hafði þar töluvert áhrif að Bretar sem þá réðu lofum á þessum slóðum gerðu Nairóbí að aðalbækistöð sinni fyrir kaffi- og terækt.

Nafnið Nairóbí kemur úr máli Maasai ættbálksins sem býr á þessum slóðum en þeir kölluðu svæðið Enkere Nyirobi sem þýtt var sem Staður hinna kældu vatna. Borgin stendur við bakka Nairóbí árinnar og er meðal áhrifamestu borga í allri Afríku nú á dögum. Þar eru bækistöðvar fjölmargra vestrænna fyrirtækja sem reka starfsemi í Afríku. Allri neyðarhjálp í álfunni er stjórnað héðan og kauphöllin í Nairóbí er ein sú allra stærsta í Afríku allri.

En ekki er allt gull sem glóir. Kæld vötn heyra sögunni til. Mengun er hræðilegt vandamál í lofti, á láði og legi og glæpir eru stórt vandamál. Þá er spilling í stjórnkerfinu hér landlægt vandamál og fátækt ekki af skornum skammti.

Snöggsoðin sagan

Áður en Bretum hugkvæmdist að setja hér upp birgðastöð fyrir lestar sínar 1899 var svæðið í raun einn mýrarfláki og himnaríki fyrir misfögur skordýr og annan ófögnuð. Hingað komu þó dýr og menn reglulega til að svala þorsta sínum. Sá hluti borgarinnar sem fyrst byggðist var brenndur til kaldra kola aðeins nokkrum árum eftir uppbyggingu vegna plágu sem ríkti þá og stráfelldi mann og annan.

Nairóbí liggur miðja vegu milli borgana Mombasa og Kampala og hæð hennar yfir sjávarmáli, 1661 metri, gerði hana afar aðlaðandi fyrir kófsveitta Breta en mest um vert samt að moskítóflugur lifa ekki í því kælda loftslagi sem ríkir svo hátt yfir sjávarmáli. Það var svo árið 1905 sem Nairóbí varð höfuðborg Kenía í stað Mombasa.

Borgin óx og dafnaði og fyrr en varði urðu átök milli Breta og ættbálka Maasai manna og Kikuyu manna vegna þess að borgin tók allt land þeirra til suðurs og takmarkaði aðgang að vatni því sem við borgina var. Logaði allt í deilum um langan tíma en sauð loks upp úr strax eftir Seinni heimstyrjöldina þegar Mau Mau uppreisnin braust út. Tuttugu árum síðar, 1963, fékk landið sjálfstæði frá Bretum.

Loftslag og ljúflegheit

Allnokkrar ferðahandbækur sem njóta virðingar vara ferðamenn við að hitastig getur fallið ískyggilega í Nairóbí í júní og júlí. Niður í heilar tíu gráður! Brrrrr. Fyrir fölbleika Frónbúa er það sennilega kjörhitastig og ólíkt skárra en eilífar svitaperlur í 30 gráðum plús.

Heitustu mánuðir eru desember til mars þegar hitastig rokkar milli 20 og 30 gráða yfir daginn. Meðalhitastig Nairóbí eru 24 gráður. Tvö rigningartímabil eru árlega í kortunum hér en þó engar byljandi dembur dögum saman. Mest rignir seinnipart ágúst og fram í september en sökum nálægðar við miðbaug er tiltölulega lítill munur á árstíðum hér.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Nairóbí er Jomo Kenyatta flugvöllur. Sá er stærsti flugvöllurinn í austur Afríku og í um hálftíma fjarlægð frá borginni.

Leigubílar eru hér í magni en flestir án allra gjaldmæla og skal semja um verð áður en lagt er af stað. Óhætt er að prútta eftir getu og skipta þá um bíl sé bílstjórinn erfiður. Inn á milli eru svokallaðir Kenatco leigubílar sem hafa leyfi stjórnvalda til reksturs leigubíls og þeir hafa gjaldmæli. Nokkrir þeirra eru með bresku sniði.

Besta leiðin og öruggasta er engu að síður að fá hótel það sem gist er á í borginni til að sækja farþega sína á flugvöllinn. Mörg betri hótelanna gera það frítt og önnur fyrir gjald sem er svipað og leigubílstjórar taka.

Ratvísi

Borgin er stór og mikil en líkur eru á að ferðamenn per se þvælist ekki mikið útfyrir miðborgarkjarnann enda strangt til tekið ekki ýkja öruggt. Ferðamönnum er rænt hér nokkuð reglulega. Nairóbí er ekki sérstök borg heim að sækja fyrir annað en að hér er þungamiðja safaríferða í allar áttir frá borginni. Borginni er skipt niður í átta borgarhluta og yfir 50 smærri svæði.

Eitt svæði sérstaklega er vert að skoða en í fylgd með fróðum en það er Kibera hverfið sem er eitt stærsta fátækrahverfi í heiminum. Staðsett í vesturhluta borgarinnar og er bæði hrikalegt og yndislegt í senn. Hrikalegt sökum fátæktarinnar en yndislegt að mannsandinn skuli samt sem áður geta tórað við slíkar aðstæður. Það er þó langt í frá eina fátækrahverfi borgarinnar; þau eru alls 66 talsins.

Samgöngur og snatterí

Borgaryfirvöld standa sig ekki sérstaklega vel hvað samgöngur varðar. Engir farkostir eru hér í þeirra boði heldur nota borgarbúar skutlur, Matatus, til að komast milli staða. Er áfangastaður hvers og eins matatus skráður á hlið bílsins og eru langflestir bílanna litríkir mjög. Bílstjórarnir eru þó þekktir fyrir allt annað en öryggi og slys vegna þeirra gerast daglega. Afar athyglisvert er að ferðast með einum slíkum en fara skal að gát og undir engum kringumstæðum hafa nein verðmæti með.

Tiltölega nýlegt fyrirbæri eru svokallaðir Citi Hoppa rútur sem fara um bæinn líka. Þeir eru fáir en nokkuð nútímalegir og eru allir grænir.

Söfn og sjónarspil

> Safn Karen Blixen (Karen Blixen Museum) – Ekki eru nema örfáir áratugir síðan heimili hinnar dönsku Karen Blixen sem skrifaði eftirminnilega um lífið í Kenía stóð eitt og yfirgefið langt inni í landi. Í dag hefur borgin vaxið svo hratt að sveitabýli hennar er aðeins enn eitt húsið í úthverfi Nairóbí. Þar var lengi vel stór kaffiplantekra en hún er horfin. Ágætt kaffihús er þó opið við hlið safnsins. Safnið stendur við Karen veg nálægt Karen skólanum. Það er opið daglega milli 9 og 18. Aðgangseyrir fyrir fullorðna 330 krónur en helmingur fyrir börn.

> Járnbrautasafn Kenía (Kenya Railway Museum) – Ef ekki væri fyrir járnbrautina væri engin Nairóbí. Safn þetta rekur sögu járnbrauta í landinu og þar má sjá hluti úr eldgömlum lestum fyrri tíma auk heillandi ljósmynda. Opið daglega milli 8:30 og 17. Aðgangur 350 krónur.

> Þjóðminjasafn Nairóbí (National Museum of Nairobi) – Mikið og glæsilegt safn um sögu lands og þjóðar og margt ber fyrir augu. Safninu er skipt niður í fimm svæði og hvert um sig mjög forvitnilegt fyrir erlenda ferðamenn sem forvitnir eru um landið og þjóðina sem það byggir. Opið daglega 9:30 til 18. Aðgangur 1400 krónur. Heimasíðan.

> Eyðimerkursafnið (Loiyanganali Desert Museum) – Meira lifandi verða söfn ekki. Hér er um að ræða byggð sex samfélaga á einum stað sem öll eru vön samneyti og lífinu í eyðimörkinni. Afar forvitnilegt en staðurinn sem um ræðir er á hæð yfir Turkana vatn.

Annað áhugavert

Þrátt fyrir töluverða mengun og rusl á víðavangi er borgin afar græn sem helgast af miklum trjágróðri og fjölmörgum minni og stærri görðum. Nokkrir þeirra eru þess virði að skoða svo lengi sem ekki er þvælst þar eftir að skyggja tekur. Uhuru garður, Uhuru Park, er þeirra frægastur enda verið vettvangur fjölmargra atburða í sögu borgar og lands. Við hlið hans stendur Miðgarður, Central Park, en þar má finna skúlptúr tileinkuðum fyrst forseta lýðveldisins Kenía, Jomo Kenyatta.

Nairóbí er sem fyrr segir ekki sérstaklega merkilegt ferðamönnum en hún er staður númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að upphafspunkti fyrir leiðangri og safaríferðir út á sléttur landsins sem óumdeilanlega eru þær frægustu í veröldinni sökum fjölbreytts dýralífs. Hver kannast ekki við Masa Mara eða Tsvovo þjóðgarðanna? En meðal heimamanna sjálfri er einn enn sem töluvert er frægari en þeir. Er það Nairóbi þjóðgarðurinn, Nairobí National Park, en sá er nánast í úthverfi borgarinnar.  Er hann eini þjóðgarður heims sem er svo nálægt byggð. Það sem meira er; þar er fjöldi villtra dýra eins og gíraffa og ljóna á vappi þó vissulega fari þeim fækkandi með plássfrekju mannfólksins. Þjóðgarðurinn er líka sá eini þar sem áhugasamir mega labba um garðinn í fylgd leiðsögumanna  eins og sjá má hér.

Þó undarlegt kunni að hljómar er einn staður í Nairóbí sem Íslendingar gætu fundið snert af heimþrá. Er það í Panari Sky Centre sem er verslunarmiðstöð og hótel en þar er einnig stærsta skautahöll í Afríku. Solar Ice Rink opnaði 2005 og þar er eðli málsins samkvæmt ískalt.

Mizizi menningarmiðstöðin er annar staður þar sem sjá má þverskurð af list og framleiðslu er íbúar landsins eru þekktir fyrir. Mizizi Cultural Center er erlenda nafnið en þar má oft sjá sýningar af ýmsum toga. Annar staður þar sem sjá má heim íbúa landsins er Bomas of Kenya en þar er áherslan meira á heimilishald og dansa.

Aðrir staðir sem heillað gætu ferðamenn er grafhýsi fyrsta forseta landsins, Jomo Kenyatta, sem grafinn er í stjórnarbyggingu í miðborg Nairóbí. Þjóðarleikhúsið, Kenya National Theatre, er líka forvitnilega. Listhúsið Rahumtulla er helsta nútímalistasafn þjóðarinnar.

Líf og limir

Nairóbí er hættuleg borg. Ferðamenn og sérstaklega þeir sem hvítir eru á hörund skuli alls ekki vera á ókunnum slóðum án fylgdarmanna þegar skyggja tekur neins staðar í borginni. Sum allra fátækustu hverfin skal forðast öllum stundum enda vopnaðar árásir algengar.

Öll fyrirtæki og velflest heimili eru með vaktmenn og hunda til að halda glæpamönnum frá og sama gildir um velflest hótel borgarinnar. Árið 2007 varð 1 af hverjum þremur íbúum fyrir einhvers konar glæp.

Borgaryfirvöld hafa tekið nokkuð í taumanna síðustu ár en fara skal með sérstakri gát hvarvetna og aldrei nokkurn tíma láta skína í peninga eða verðmæti á götum úti.