Skip to main content

Þynnri budda, dýrari ferðir og krónan hálflömuð gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Hvað er til ráða til að verða sér úti um nauðsynlegt frí fyrir fjölskylduna en eiga einnig nokkrar krónur í veskinu til að eyða í vitleysu?

Íbúða- eða húsaskipti er bráðgóð leið til að lækka kostnað við ferðir erlendis.

Íbúða- eða húsaskipti er bráðgóð leið til að lækka kostnað við ferðir erlendis.

Íbúðaskipti er klárlega ein allra besta leiðin til að komast ódýrt í frí og fjölgar þeim mjög sem þannig ferðast um heiminn. Það þýðir í raun að eini kostnaðurinn við ferðalagið er flugið sjálft sem þó er nógu dýrt eitt og sér. Peningana sem sparast má svo nýta til að njóta.

Ein úr ritstjórn er nýkomin heim úr slíku fríi og fékk fyrir stóra fjögurra herbergja íbúð sína í vesturbæ Reykjavíkur 400 fermetra glæsivillu í bænum Fort Lauderdale á Flórída í Bandaríkjunum. Ekki aðeins voru húsakynnin fyrsta flokks og verulega mikið glæsilegri en íbúðin í vesturbænum heldur voru um leið höfð bílaskipti svo báðir aðilar höfðu aðgang að bíl allan tímann. Ekki vanþörf á enda báðir staðir bílabæir. Hjónin bandarísku settu ekkert fyrir sig að dvelja í öllu minna húsnæði þessar tvær vikur sem um ræddi. Tveggja vikna dvölin úti í Flórída kostaði þriggja manna fjölskylduna um það bil 220 þúsund krónur fyrir utan eyðslufé.

Nú er kannski tíminn sem aldrei fyrr því vart hefur farið fram hjá nokkrum að Ísland er móðins meðal útlendinga og því öllu meira um að velja nú en áður.

En hvernig stendur maður í slíkum íbúðaskiptum með sem öruggustum hætti. Fararheill.is hefur tekið saman helstu punktana sem hafa skal í huga:

♥  Vafraðu um netið og skoðaðu íbúðaskiptaþjónustur sem í boði eru. Þær skipta hundruðum og eru flestar traustar og tryggar. Þær sem eru það ekki eru yfirleitt ekki lengi í bisness. Skráðu þig, oftast ókeypis, og þína íbúð og byrjaðu að skoða. Best er að skrá sig og sína eign hjá þeim þjónustum sem taka gjald fyrir því þá er meiri vissa fyrir því að alvara sé að baki íbúðaskiptum. Gjaldið yfirleitt ekki hátt. Gefðu upp allar helstu upplýsingar um þína íbúð án þess þó að opna dyrnar fyrir misyndismönnum sem gætu verið að skoða slíkar síður. Myndir eru nauðsynlegar og því fleiri því betra.

♥  Veldu tíma og þá staði sem þú hefur áhuga að dveljast á. Þá er sums staðar hægt að leita uppi þá sem áhuga hafa að dvelja á Íslandi og kanna tímaramma og hvað er í skiptum þar. Hafðu strax samband við þá aðila og forvitnastu um hvað þeir hafi hugsað sér og hvenær.

♥  Náist samkomulag við einhvern aðila skal láta alla aðra vita af því sem þú hefur verið í sambandi við svo enginn þurfi að velkjast í vafa um að skipti séu möguleg.

♥  Það er afar illa séð að ná samkomulagi og breyta því svo ef vera kynni að vænlegra tilboð berist.

♥  Eftir að gengið hefur verið frá samkomulagi er best að ganga úr skugga um að heimilistryggingar séu í fullu gildi meðan ókunnugir gista. Kanna skal smáa letrið vel ef einhverjir fyrirvarar eru við slíkum íbúðaskiptum. Sama gildir um ökutækjatryggingar sé um bílaskipti að ræða líka.

♥  Fáðu staðfestingu á kaupum á farmiðum frá þeim er þú hyggst skipta við svo ekki leiki nokkur vafi á að þú komir að tómu húsi þegar út er komið.

♥  Áður en til kemur er ágætt líka að gera samkomulag um umgengni og annað það sem gæti valdið misskilningi síðar. Er eitthvað sem ekki má snerta eða nota? Skriflegur slíkur samningur gæti komið sér vel einn daginn.

♥  Gakktu úr skugga um að þú hafir nákvæmar leiðbeiningar hvernig komast skal á áfangastað og hver sé besta leiðin frá flugvellinum. Bjóða skal sömu upplýsingar á móti.

♥  Þrífa íbúðina hátt og lágt og búa til pláss í skápum fyrir gestina. Henda mat úr ísskápnum nema ástæða sé fyrir öðru.

♥  Hafðu handhæga litla handbók með hagnýtum upplýsingum. Hvar setja skal rusl, hversu langt er í verslun, hvers konar rafmagn er notað og svo framvegis. Slíkt er afar vel þegið.

♥  Ítreka skal nauðsyn þess að ræða við tryggingafélagið þitt og fá alveg naglfast hvað er tryggt og hvað ekki. Bæði í þínu eigin ferðalagi en ekki síður í fasteigninni hér heima meðan ókunnir gista. Sama gildir um bílalán ef slíkt er líka gert. Með þær upplýsingar á hreinu er minna mál að takast á við deilur síðar meir.

♥  Áður en haldið er út er fín hugmynd að taka myndir af húsnæðinu og eða bílnum svo sanna megi hvernig ásigkomulagið var ef eitthvað fer úrskeiðis. Sama gildir um að ljósmynda þá fasteign erlendis sem fengin er að láni.

Listi yfir traustar íbúðaskiptasíður á vefnum: