B ærinn Lloret de Mar á Brava ströndinni hefur ekki mikið verið ýkja mikið á dagskrá íslenskra ferðaskrifstofa hingað til þó það sé að breytast. Bærinn er þó troðfullur af túristum öllum stundum því aðrir, sérstaklega Bretar, flykkjast hingað í hrúgum til að sóla sig og sýna enda er hér um fimm mismunandi strendur að velja.

Lloret de Mar er vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Costa Brava en svo heitir strandlengjan í norðausturhluta Spánar. Nær ströndin sú frá landamærum Frakklands og langleiðina til Barcelóna. Hér búa um 40 þúsund manns en af þeim er nokkuð stór hluti erlendra einstaklinga sem plantað hafa rassi sínum endanlega hér.

Strendurnar eru eðalfínar ef nokkuð troðnar yfir hásumartímann og eðli málsins samkvæmt er enginn skortur á börum og litlausum veitingastöðum eins og raunin er annars staðar á vinsælum ströndum Spánar.

Hér er þó takmarkað að sjá annað en sól og bærinn sjálfur tiltölulega ómerkilegur. Þó hefur hann það til ágætis að verðlag á gististöðum hér er aðeins lægra en á vinsælli ströndum sunnar í landinu. Hér er hægt að dvelja á sæmilegum hótelum á vel undir tíu þúsund krónum ef svo ber undir.

Til og frá

Ástæða vinsælda Lloret de Mar stafar fyrst og fremst af því að lágfargjaldaflugfélög hófu að fljúga til borgarinnar Girona fyrir nokkrum árum síðan. Ódýr fargjöldin freistuðu margra en frá Girona er rúmlega klukkustundar akstur til Barcelóna. Það fannst mörgum heldur langt að fara og upp frá því hefur ferðaþjónusta á Costa Brava aukist jafnt og þétt.

Frá Girona Costa Brava flugvelli til Lloret de Mar er um tæplega 40 mínútna keyrslu að ræða og á milli fara rútur reglulega. Moventis heitir rútufyrirtækið og fer alls tvívegis á milli hvern dag.

Vænlegast er að taka bílaleigubíl á leigu en einnig er hægt að fá skutl á milli með leigubílum. Sá rúntur aðra leiðina kostar um það bil sex þúsund krónur á dagtaxta. Sjálfsagt er að reyna prútt séu menn sleipir í spænsku.

Til umhugsunar: Einhverjar ferðaskrifstofur auglýsa hversu stutt og auðvelt er að fara milli Lloret de Mar og Barcelóna. Það er þó ekki svo í raun. Þangað tekur klukkustund að fara með bíl eða rútu og engar lestir fara frá Lloret de Mar heldur þarf að taka rútu til nágrannabæjarins Blanes og þaðan taka lest inn í Barcelóna. Síðustu rútur og lest fara þó frá Barcelóna aftur fyrir klukkan 20 um kvöldið þannig að skipuleggja verður svoleiðis túr nokkuð vel.

Loftslag og ljúflegheit

Nokkur andvari berst á land svo norðarlega á Spáni og þýðir að hitar í Lloret de Mar verða sjaldan yfirgnæfandi hræðilegir. Í júlí og ágúst fer þó hitamælirinn reglulega í og yfir 30 gráður.

Ljúfast er sennilega að koma hingað snemma í apríl og maí eða seint í september. Þá er fólk laust við alla mollu og hitastig kringum 14 til 24 gráður að jafnaði.

Hér verður þó kalt yfir dimmustu mánuðina og hitinn fellur vel niður fyrir tíu stig á þeim tíma.

Söfn og sjónarspil

>> Santa Clotilde garðurinn (Paratge de Santa Clotilde) –  Glæsilegur borgargarður sem hátt stendur og gefur frábært útsýni til hafs. Hér eru skúlptúrar og styttur eftir einn þeirra sem hannaði og skóp Montjuïc garðinn í Barcelóna. Opinn alla daga 10 til 20. Aðgangseyrir 900 krónur.

>> Kirkjugarðurinn (Camí del Repos) – Kirkjugarður Lloret de Mar er verður heimsóknar sökum þess að hann er bæði fallegur og hér eru skúlptúrar í módernistastíl sem athygli vekja og eru fallegir. Opinn daglega 8 til 18.

>> Sant Roma kirkjan (Sant Romà) – Þessi litla sæta kirkja við Plaça de l’Església er nokkurs konar tákn fyrir bæinn og eðlilega því þetta er áberandi fallegasta byggingin í stórum radíus. Ljúft að setjast þar niður og íhuga eða fá frið fyrir sólinni. Hún er þó aðeins opin frá 9 til 13 og aftur 16 til 19 um helgar fyrir utan messutíma.

>> Vatnsheimurinn (Waterworld) – Vinsæll vatnsleikjagarður skammt fyrir utan bæinn. Eðalfínn til að kæla sig niður og ekki síðri sé smáfólk með í för. Hann er þó skrambi troðinn enda í raun eini afþreyingargarðurinn í öllu Girona fylki. Garðurinn er í kílómeters fjarlægð frá bænum til suðurs við Carretera Vidreres. Opinn 10 til 18 á veturnar en 10 til 19 á sumrin. Aðgangseyrir 12.500 krónur fyrir alla yfir 1.20 á hæðina en 7.500 fyrir þá sem lægri eru. Heimasíðan.

>> Dvergagarðurinn (Gnomo Park) – Þyki fólki dvergar forvitnilegir er þetta kannski málið. Hér er þeim gerð skil með ýmsum hætti og þá fyrst og fremst með hinum velþekktu dvergastyttum sem víða dvelja í görðum fólks um heim allan. Hér eru líka ýmis leiktæki fyrir smáfólkið og veitingastaður. Opið daglega á sumrin milli 10 til 19. Áberandi túristagildra og verðlag eftir því. Bæði þarf að greiða inn í garðinn og í flest leiktækin að auki. Miðaverð 1.100 krónur. Dvergagarðurinn er eins og Vatnsheimurinn aðeins út úr Lloret de Mar og örlítið lengra til suðurs en sá síðarnefndi. Heimasíðan.

>> Sant Pere klaustrið (Sant Pere del Bosc) – Klaustur eitt fyrir ofan Lloret de Mar við Paratge de Sant Pere del Bosc sem hefur verið breytt í veitinga- og skemmtistað. Gott orð fer af matnum hér og ekki skemmir byggingin neitt fyrir stemmningunni. Opið daglega frá 11 og frameftir kvöldi og nóttu um helgar. Heimasíðan.

>> Dreifbýlissafnið (Museu Rural  Catalá) – Hér finna dreifbýlistúttur eitthvað við sitt hæfi… eða ekki. Safnið er lítið og opið á óreglulegum tímum en forvitnilegt er samt að reka inn nefið og komast að hvernig bændur hér tórðu á árum áður. Það stendur við Sepulcre Romà götu og er jafnan opið seinnipartinn á sumrin. Annars þarf að panta skoðun símleiðis.

>> Hafsögusafnið (Can Garriga) – Árið 1981 keypti bærinn alla húsalengjuna við milli Camprodon og Arrieta gatna en þar standa hús sem kennd eru við Garriga og eru flest byggð kringum 1870. Í einu þessara húsa er að finna skemmtilegt safn um sögu Lloret de Mar sem mikilvægs útgerðarbæjar á árum áður. Bæði er að finna fróðleik um sjósókn bæjarbúa en ekki síður um skútur og stærri skip sem héðan héldu ekki bara til fiskveiða heldur sjórána líka. Sennilegast besta safn bæjarins. Opið daglega 10 til 18 fyrir utan síestuna. Aðgangseyrir 800 krónur.

>> Castellet rústirnar (Puig de Castellet) – Í tveggja kílómetra fjarlægð frá bænum er að finna merkilegar rómverskar rústir frá þriðju öld sem grafnar hafa verið upp að mestu og eru til sýnis undir beru lofti. Forvitnilegt í besta falli en ekkert sem hinn afþreyingarglaði ferðamaður getur ekki lifað án þess að sjá. Tvær sams konar fornar rústir en mun minni hafa verið grafnar upp nær bænum en heldur ekki neitt til að gera sér sérstaka ferð eftir. Calle Poblat Iberic. 11 til 17 virka daga og miðaverð 600 krónur.

Verslun og viðskipti

Nokkuð er af ýmis konar verslunum í Lloret de Mar og þar á meðal stöku þekktari keðjuverslanir. Almennt er þó bæði úrval og gæði af skornum skammti og fleiri verslanir en ekki ganga út á að selja ferðamönnum glingur og glimmer á sem dýrastan hátt. Mest úrval verslana er við ströndina.

Ritstjórn Fararheill ráðleggur ferð til Barcelóna sé verslun á dagskránni en í versta falli er betra að skreppa yfir til nágrannabæjarins Blanes þar sem úrval verslana er aðeins meira og fjölbreyttara en hér. Þar er líka bændamarkaður daglega á morgnana þar sem kaupa má ferskmeti á vægu verði dveljist fólk á íbúðarhóteli eða í einbýli.

Ein afsláttarverslun, outlet, er í Lloret de Mar við Avenida de las Alegries. Þar má fá merkjavörur á lægra verði þó verslunarvanir segi verðlagningu þar nokkuð dýrari en við var búist.

Matur og mjöður

Meirihluti matsölustaða í Lloret de Mar er af sömu gæðum og annars staðar á ströndum Spánar. Betri staðir eru vandfundnir en þrír sem almennt fá góða dóma á netinu eru:

  • La Campaña > Calle Capità Conill i Sala
  • La Fusta > Calle Hospital Vell
  • Giorgio Restaurant > Calle Ramón Cases

Djamm og djúserí

Gnótt bara um allan bæ og fjórir tiltölulega stórir klúbbar fyrir þá sem vilja djamma fram í morgunsárið. Þeir eru: St.Trop, Bumbers, Moef Gaga og  Tropics. Allir eru þeir á miðbæjarsvæðinu.

Líf og limir

Lloret de Mar er eins öruggur staður og bílasalinn Brimborg. Hér eru veskisþjófar og stöku innbrotsþjófar eins og annars staðar í landinu en ekkert til að hafa áhyggjur af ef heilbrigð skynsemi er notuð.

View Áhugaverðir staðir í Lloret de Mar á Spáni in a larger map