Skip to main content

L estarferðir hafa lítið átt upp á pallborðið hjá íslenskum ferðalöngum enda engin hefð fyrir þeim hérlendis. En fátt jafnast á við að slíkan rúnt í góðu tómi og ekki síst þegar merkilega hluti ber fyrir augu á nokkurra sekúndna fresti.

Mikil upplifun er að taka inn djúpa dali og fjalllendi svissnesku Alpanna í þægindum í lest. Mynd Glacier Express

Mikil upplifun er að taka inn djúpa dali og fjalllendi svissnesku Alpanna í þægindum í lest. Mynd Glacier Express

Það má sannarlega heimfæra upp á ferð svissnesku jöklahraðlestarinnar, Glacier Express, en nánast má segja að sú ferð sé ein samfelld auglýsing fyrir Alpafjöll og Sviss í leiðinni. Það er líka þess vegna sem þetta er sennilega seinlegasta hraðlest í veröldinni því Svisslendingar vita sem er að svo margt heillandi ber fyrir augu að fáránlegt væri að keyra á fullu blasti.

Glacier Express túrinn tekur rúmar átta stundir sé farið alla leið. Auðvelt er að átta sig á rólegheitunum þegar haft er í huga að vegalengdin sem farið er, frá St.Moritz til Zermatt, er aðeins 290 kílómetrar. En þvílíkir kílómetrar. Hæðamunur mikill víða þegar farið er frá þorpum djúpt í stórkostlegum dölum og langt upp í fjöll. Ekki aðeins er náttúrufegurðin stórkostleg heldur og er sjón að sjá og ekki síður upplifa það gríðarlega mannvirki sem þessi leið er. Farið er um 92 göng og yfir tæplega 300 brýr sem margar hverjar standa æði hátt. Svo hátt að lofthræddir ættu kannski að líta í gaupnir þar sem þverhnípið er mest. Hæsti punktur ferðarinnar er um Oberalt skarðið sem stendur í 2033 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er nánast sama hæð og hæsti punktur á Íslandi.

Ein mistök sem sumir gera sem ekki þekkja til er að kaupa miða á staðnum rétt áður en förin hefst. Það mistök vegna þess að á slíkum miðum er aðeins hægt að fara alla leið án þess að hoppa af eða á eftir hentugleika. Aðeins með því að bóka miða fyrirfram, og helst með sæmilegum fyrirvara, gefst fólki kostur að stíga af í næsta fallega þorpi og spóka sig um áður en förinni er fram haldið.

Síðast en ekki síst er hægt að láta fara dúndurvel um sig í lestinni. Fínustu réttir eru fram reiddir í matsal og þó það kosti skildinginn, eins og allt í Sviss, þá er það rjóminn á þessari köku. Ekki fer þó illa um neinn. Sæti mjög þægileg og stærri gluggar en venjulega í svokölluðum panorama-lestum gera það að verkum að útsýni er alltaf gott.

Túrinn atarna kostar sitt en er algjörlega þess virði. Öll leiðin á 2. farrými kostar einstakling um 20 þúsund krónur en skjagar upp í 40 þúsund krónur á fyrsta farrými. Sé hugmyndin að þvælast mikið um landið er vænlegt að kaupa svokallaða flex miða sem veita ótakmarkað aðgengi að lestum, rútum og strætisvögnum plús aðgengi að fjölda safna í landinu.

The Glacier Express: Full Film from HOLDEN OUTERWEAR on Vimeo.