Skip to main content

H ægt og bítandi og án þess að vekja of mikla eftirtekt hefur verslunarmynstur víða í evrópskum borgum tekið nokkrum breytingum. Það er með tilkomu kínverskra afsláttarverslana og auðvitað verslunar á netinu.

Þessi lætur ekki mikið yfir sér en innifyrir bjóða yfir 300 kínverskir aðilar vörur sínar á kostakjörum. Mynd CIC

Þessi lætur ekki mikið yfir sér en innifyrir bjóða yfir 300 kínverskir aðilar vörur sínar á kostakjörum. Mynd CIC

Ekkert nýtt að Kínverjar hvarvetna hafa um áratugaskeið verið duglegir að opna verslanir og veitingastaði í þeim erlendu löndum sem þeir setjast að í. Kínversk hverfi, Chinatowns, eitt allra besta dæmið um slíkt en slík eða vísir að slíkum hverfum finnast ótrúlega víða á Vesturlöndum.

Það er heldur ekkert nýtt að outlets verslanir og verslunarkjarnar eru víða líka og njóta vaxandi vinsælda í þeim löndum þar sem tekjur meðalmannsins standa í stað eða lækka ár frá ári meðan útgjöld heimilisins hækka jafnt og þétt.

En það er nýlegt fyrirbæri að upp spretti heilu vöruhúsin sem selja fatnað, glys og glingur hvers kyns sem eingöngu koma frá Kína án milliliða. Stundum kallast slíkt heildsölur en oftar er „outlet“ bætt við nafnið.

Reyndar má til sanns vegar færa að velflestar vörur bandarískra og evrópskra söluaðila séu framleiddar í Kína en þá gjarnan undir nafni. Það er munurinn á þessum nýju afsláttarverslunum Kínverja og þeim hefðbundnu. Í þeim kínversku eru eingöngu til sölu vörur sem koma frá kínverskum verksmiðjum ellegar merktar kínverskum fyrirtækjum eða alls ómerktar. Þær vörur eru oft keimlíkar eða nákvæm eftirlíking vinsælla vara vestrænna stórfyrirtækja eins og þekkt er. Mike í stað Nike eða Golce & Gabbana í stað Dolce & Gabbana svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.

Á Ítalíu komst nýlega í fréttirnar ein kínversk afsláttarverslun og sú reyndar í stærri kantinum enda að selja vörur frá yfir 300 kínverskum aðilum. Það var fyrir tilviljun að frönsk kona sem keypti sér sumarkjól í þekktri merkjavöruverslun í miðborg Padúa á Ítalíu fyrir tæpar 30 þúsund krónur rakst á nákvæmlega sama kjól í kínversku afsláttarversluninni fyrir litlar 1.200 krónur. Það er ekki nema rúmlega 2300 prósent verðmunur. Mjög líklega gæðamunur á flíkinni atarna en framleiðandinn í Kína þó hinn sami.

Það gæti því verið eftir töluverðu að slægjast langi fólk til að versla erlendis á sem ódýrastan hátt en gallinn er að þessar kínverskur afsláttarverslanir eru vandfundnar. Meira að segja Google getur lítt hjálpað og nokkrar kínverskar afsláttarverslanir sem Fararheill veit um finnast ekki við leit á þeim vef.

Þjóðráð því sé fólk statt erlendis að spyrja einfaldlega næsta heimamann. Sé kínversk afsláttarverslun nærri má víst telja að heimamenn viti af því þó ferðahandbækur geri það ekki enn sem komið er.

Svo er allt annað mál hvort flíkurnar sem þú kaupir í kínverskum afsláttarverslunum séu endingargóðar. Það eru þær sennilega ekki 😉