V elflest söfn heims eru yfirleitt annaðhvort afslappandi eða jákvætt örvandi fyrir gesti og gangandi. Það á engan veginn við um safn eitt vestur í Michigan í Bandaríkjunum. Þar gefur að líta muni á borð við Ku Klux Klan búning, hengingaról og yfir níu þúsund aðra muni sem notaðir voru reglulega til að níðast á blökkumönnum í þessu landi frjálsra manna.
Hér er um að ræða Jim Crow Museum of Racist Memorabilia sem er safn ýmissa muna frá þeim tíma þegar enginn hvítur Bandaríkjamaður þótti merkilegur pappír nema níða blökkufólk niður í svaðið og ganga helst lengra en það.
Safnið hefur vakið miklar deilur um hvort slíkir munir eigi yfir höfuð heima á opnu safni en safnstjórinn, sem sjálfur er svartur, segir það enga spurningu. Slíkir munir tengist sögu Bandaríkjanna og kynþáttahaturs sem var sannarlega við lýði í landinu á síðustu öld og er reyndar við lýði enn þann dag í dag á einstöku stöðum í landinu.
En fáum á að koma gagnrýni á óvart með tilliti til að ekki er dregin dula yfir nokkurn hlut og margir þeir sem safnið sækja koma út ævareiðir, illir og móðgaðir enda verið óþægilega minntir á að saga Bandaríkjanna er fjarri því að vera saga lands hinna frjálsu.
Safnið er staðsett í Ferris State háskólanum í borginni Big Rapids og er opið alla virka daga frá 12 til 17. Frá Chicago tekur um þrjár stundir að komast til Big Rapids og litlu lengur frá Toronto í Kanada.