Nokkur gullkorn úr smiðjum íslenskra ferðaskrifstofa sem enn þann dag í dag virðast líta á viðskiptavini sína sem hugsunarlausa kjána.
Bændaferðir um Toskana hérað
…Það er því margt að skoða í þessari vikuferð en einnig gefst tími til að njóta þess besta sem Ítalía hefur upp á að bjóða.
?????: Hvernig Bændaferðir ætla að bjóða “allt það besta” sem Ítalía hefur upp á að bjóða í vikuferð er ótrúleg staðhæfing og með henni er gert lítið úr landi og þjóð og sleginn rykmökkur í augu hugsanlegra viðskiptavina.
Vita ferðir um París
… Skoðið elstu borgarhlutana, Ile de la Cité, Latínuhverfið, Montmartre, og farið svo yfir í nýja hverfið La Défense. Þannig má blanda saman hinu elsta og hinu allra nýjasta í París. Svo má ekki gleyma því að gangstéttarkaffihús, veitingastaðir og glæsilegir skemmtistaðir eru á hverju götuhorni og hvergi betra að njóta lífsins til fullnustu.
?????: Ekki slæm áætlun að skoða París næstum eins og hún leggur sig og hafa tíma aukalega til að dúlla sér á gangstéttarkaffihúsum, veitingastöðum og að ógleymdum skemmtistöðunum. Nema hvað umrætt tilboð á við um tveggja nátta ferðir yfir vetrartímann. Gangi ferðamönnum afar vel að komast yfir svo mikið sem einn borgarhluta á þeim tíma og ekki síður að finna opið gangstéttarkaffihús um miðjan vetur.
Úrval Útsýn um Skíðaferðir
…Skíðavertíðinni á Ítalíu er lokið. Ferðir næsta árs kynntar fljótlega
?????: Skíðavertíðin á Ítalíu er enn í fullum gangi þegar þetta er skrifað 6. mars 2010 og verður það áfram út mánuðinn hið minnsta. Það er aðeins Úrval Útsýn sem hættir að bjóða ferðir þangað.
Heimsferðir um Búdapest
… Heimsferðir bjóða nú beint flug til Búdapest, einnar eftirsóttustu borgar Evrópu, sjötta árið í röð.
?????: Hvort er Búdapest ein eftirsóttasta borg Evrópu sjötta árið í röð eða Heimsferðir að fljúga þangað í sjötta skiptið í röð? Líklega hið síðarnefnda enda er langur vegur í að Búdapest komist í fremstu röð hvað vinsældir snertir. Deila má líka um hversu jákvætt það er að fljúga árum saman á sama áfangastaðinn? Getur það ekki líka borið vott um að blóðmjólka beljuna í stað þess að bjóða mögulega meira úrval ferða? Heimurinn er jú stærri en Búdapest.