V era kanna að verið sé að bera í bakkafullan lækinn að skrifa ferðavísi til höfuðborgar Jamaíka því velflestir fararstjórar ferðaskrifstofa, innlendra sem erlendra, vara alla farþega sína við ferðum þangað og hafa gert lengi. Það helgast af hárri glæpatíðni í borginni og þess að velflest hverfi Kingston heyra undir hina og þessa stríðsherra sem leyfa engar spásseringar fölbleikra ferðamanna gegnum hverfi sín.

Þrátt fyrir þetta er borgin stjórnsýslu- og menningarleg höfuðborg landsins og ritstjórn getur sannarlega mælt með dagsferð þangað frá einhverjum af strandstöðunum sem ferðamenn sækja gjarnan. Dvöl hér lengur en það borgar sig vart enda ekki svo mikið að sjá og upplifa með tiltölulega öruggum hætti.

Borgin skiptist gróflega í tvennt; annars vegar miðbæinn og hins vegar Nýju Kingston. Hér er ágætt næturlíf og allnokkrir klúbbar en hafa skal í huga að hvíta fólkið er hér í miklum minnihluta og auðvelt að lenda í vandræðum og það verulegum.

Til og frá Kingston

Stærsti flugvöllur Jamaíka er við Kingston og er það Norman Manley flugvöllurinn.  Sá er kominn til ára sinna en sleppur sökum þess að velflestir ferðamenn til eyjarinnar lenda í Montego Bay fremur en hér. Örtröð er því sjaldan um að ræða hér.

Leigubílar eru hér til reiðu þegar á þarf að halda en annars er lítið mál að hringja á einn slíkan. Þá eru fjórar bílaleigur staðsettar í flugstöðinni.

Til umhugsunar: Bretar réðu hér ríkjum lengi vel áður fyrr og þeir voru fljótir að kenna heimamönnum alls kyns vitleysu eins og að keyra vinstra megin. Ágætt að hafa það í huga 🙂

Annars staðar frá eynni er hingað komist á bílaleigubílum, með rútum eða það sem flestir gera er að leigja sér bílstjóra eina dagstund eða svo til að rúnta um eynna. Sjálfsagt er að prútta því lítill skortur er á tilboðum á götum úti. Fæst þannig heill dagur og oft með ágætri leiðsögn fyrir 6 – 10 þúsund krónur.

Rúturnar eru flóknari fyrirbrigði því þótt að nafninu til sé um reglulegar ferðir að ræða frá öllum helstu bæjum eyjunnar eru tímasetningar og leiðakerfi vandfundin. Helst er í raun að forvitnast hjá heimamönnum eða á hótelum. Hafa skal í huga að þeir leggja ekki í hann nema troðfullir og því getur biðin orðið löng og troðningum mikill. Heimasíða opinbera rútufyrirtækisins hér.

Samgöngur og snatterí

Innan borgarinnar er í raun þörf á leigubíl með leiðsögumanni því hér eru hverfi sem þú vilt ekki fyrir nokkra muni villast inn í. Það er þekkt er að skotið sé að ókunnum bílum í stöku hverfum borgarinnar og gildir þá einu hver er undir stýri.

Söfn og sjónarspil

>> Bob Marley safnið (Bob Marley Museum) – Það er engin tilviljun að safn Bob Marley stendur við Vonargötu, Hope Road, því hann hefur gefið milljónum von með lagasmíðum sínum gegnum tíðina. Án alls vafa þekktasti einstaklingur sem komið hefur frá karabíska svæðinu þó rætur sínar reki Marley til Eþíópíu. Hér bjó Marley um skeið og á safninu má sjá persónulega muni hans og líf í máli, myndum og músík. Ekki fyrsta flokks á neinn mælikvarða en ósvikið sem heimili hans um tíma. Hér er líka Tuff Gong upptökuverið sem er það allra vinsælasta meðal erlendra tónlistarmanna sem vilja fá reggíkeim í tónlist sína. Greiða verður fyrir leiðsögn um safnið og tekur túrinn klukkustund. Opið frá 9:30 til 16. Aðgangseyrir 2.500 krónur. Heimasíðan.

>> Devon villan (Devon House) – Ein allra fyrsta villan á allra eynni og sú fyrsta sem byggð var af heimamanni sem komst í álnir. Afar reisuleg bygging og vel við haldið og eitt helsta tromp ferðamálaráðs borgarinnar. Byggingin og garðurinn teljast til þjóðminja Jamaíka. Heimasíðan.

>> Hope grasagarðurinn (Hope Botanical Garden) – Það segir sig sjálft að grasagarður í karabíska hafinu er mökkfullar af áhugaverðum plöntum og blómum. Vel þess virði að taka strollu hér í gegn og við hliðina er Hope dýragarðurinn sem einnig er brúklegur. Opið daglega 5:30 til 18. Heimasíðan.

>> Jamaíka stofnunin (Institute of Jamaica) – Þjóðarsafn landsins og reyndar karabíska svæðisins alls. Listaverk frá þessum heimshluta, saga í máli og myndum og reisulegt bókasafn. Safnið stendur við Austurstræti, East street, í miðbænum. Opið virka daga 8:30 til 17. Heimasíðan.

>> Þjóðlistasafnið (National Gallery of Jamaica) – Nákvæmlega eins og nafnið gefur til kynna eru hér sýnd verk helstu listamanna þjóðarinnar. Stendur við Oceanic breiðgötuna. Opið frá þriðjudögum til laugardaga milli 10 og 16. Miðaverð 380 krónur. Heimasíðan.

>> Beverly hæðir (Beverly Hills) – Jamm, þú last þetta rétt. Í hlíðunum fyrir ofan borgina sjálfa er að finna hverja lúxusvilluna á fætur annarri en þar búa allir íbúar borgarinnar sem náð hafa að moka til sín seðlum gegnum tíðina. Þaðan gefst æði gott útsýni yfir Kingston og til sjávar.

>> Uppreisnarsafnið (Revolution Gallery) – Keramik, skartgripir, klæði og allt annað en það sem flokkast undir hefðbundna list er hér til sýnis. Fróðlegt safn að skoða.

>> Bolívar galleríið (Bolivar Gallery) – Annað flott gallerí við Grove götu en hér má kaupa verk allra helstu listamanna landsins á ágætum prísum. Muna að prútta.

Verslun og viðskipti

Minjagripir eru víða til sölu hér sem annars staðar en hvað varðar alvöru vestrænar verslanir eru þær fáar hér. Engar verslunarmiðstöðvar finnast hér. Vænlegra er að versla og prútta á mörkuðum sem virðast reknir hér á auðum svæðum reglulega.

Hvað varðar muni almennt sem vert er að fjárfesta í eru handunnir skartgripir og útskornir trémunir margir fallegir. Kaffið hér er ekkert minna en stórkostlegt og enginn selur hér kaffi undir fölskum formerkjum. Kingston Crafts Market selur þetta allt en sá markaður er staðsettur í gamalli járnskemmu skammt frá hafnarsvæðinu á horni Pechon og Port Royal götum. Sá er opinn daglega nema sunnudaga.

Annar ágætur markaður en fyrst og fremst með matvörur er Coronation markaðurinn við William Grant garðinum.

Sé Bláfjallakaffið, Blue Mountain, aðalmálið er allra ódýrast að kaupa það í næsta súpermarkaði. Er það ekta vara og yfirleitt helmingi ódýrara en á ferðamannastöðum eða í tollfrjálsum verslunum á flugvellinum.

Matur og mjöður

Að mati ritstjórnar Fararheill.is er varla til betra skyndibiti í veröldinni en jerk kjúklingur og þá helst með þjóðarbjórnum Red Stripe. Allra best að kaupa slíkt hjá næsta götusala. Aðrir réttir sem vert er að prófa er þjóðarrétturinn saltfiskur sem Íslendingar þekkja mætavel en hér er hann matreiddur á sérstakan máta. Esckoveitch fiskur er eðalgóður fyrir þá sem vilja krydd á matinn sinn.

Almennt verður þó að hafa varann á sér á veitingastöðum því hreinlætið er ekki beint í fyrirrúmi á eyjunni.

Hvað drykki varðar er þjóðarbjórinn Red Stripe eðalfínn í hitanum og Appleton rommið er fyrsta flokks. Séu menn reiðubúnir í nýja lífsreynslu er málið að súpa á Wray & Nephew Overproof hvítu rommi. Það er bara 180 prósent vínandi.

Líf og limir

Eins og áður sagði eru hér hverfi sem ekki einu sinni heimamenn hætta sér inní. Hvítir menn eru hér almennt fáséðir og vekja alls staðar athygli. Sé hugmyndin að skoða borgina er alveg þess virði að finna vænan bílstjóra og fá hann til að taka rúntinn fyrir lítinn pening. Það margborgar sig.

Samkynhneigð er bönnum með lögum í landinu og atlot á almannafæri afar líkleg til að skapa vandræði.

VEGABRÉFSÁRITUN

Engin þörf á slíku. Íslendingar geta flatmagað á Jamaíka 30 daga án þess að þurfa að sækja sérstaklega um vísa.

GJALDMIÐILL

Jamaískur dollar er málið hér. Best að taka fúlgu með áður því bankar eru aftarlega á merinni, loka snemma og biðraðir langar. Hraðbankar sjaldgæfir en hægt að skipta fé á betri hótelum gegn gjaldi.

LYF OG LÆKNAR

Sjúkrahús fá en bærileg þó alls ekki á pari við sjúkrahús í ríkari löndum. Engin sérstök þörf á bólusetningum en stöku tilfelli malaríu koma reglulega upp á eynni.

VARÚÐ SKAL HÖFÐ

Alls staðar. Kingston er alla jafna ekki á lista ferðaskrifstofa sem sendi fólk til Jamaíka. Glæpir eru þó fremur algengir en beinast sjaldan að ferðafólki