H versu mikið er eðlilegt að tjá sig um Kaupmannahöfn? Hana þekkja velflestir Íslendingar af eigin raun og þúsundir okkar hafa búið þar í skemmri eða lengri tíma. Hver einn og einasti þeirra þekkir skemmtilegan krók eða kima sem engar ferðahandbækur fjalla um eða vita af. Það er því dálítið eins og að lýsa snjó fyrir Grænlendingum. Svo er heldur ekki svo langt síðan Íslendingar áttu, eða þóttust eiga, allt markvert í borginni.
Sem betur fer er ekki svo lengur enda fara Íslendingar óhemju mikið verr með hlutina en Danir. Sem skýrir að hluta hvers vegna ligeglad stemmning heimamanna hér þykir stressboltunum á Fróni svo heillandi. Sú staðreynd að hér fara fjölskyldur raunverulega í hjólreiðatúra saman eftir klukkan fimm á daginn er óneitanlega meira heillandi fyrir marga en að mæta of seint á leikskólann uppúr klukkan fimm og skjóta börnunum í ofboði til ættingja svo hægt sé að vinna aðeins lengur frameftir.
En það eru aðrar góðar ástæður fyrir að Köben stendur okkur Íslendingum alltaf svo nærri. Ekki síst að þetta var höfuðborg landsins um langa hríð og enn syrgja margir að svo sé ekki enn.
Í borginni í heild sinni búa nú um tvær milljónir manna en Kaupmannahöfn stendur sem kunnugt er á eyjunum Sjálandi og Amager. Hún hefur verið höfuðborg landsins síðan í upphafi fimmtándu aldar og mikilvægi hennar hefur aukist jafnt og þétt síðan. Jókst það til muna með tilkomu Eyrarsundsbrúarinnar um aldamótin en með tilkomu hennar er Kaupmannahöfn og Malmö í Svíþjóð í raun nánast orðið eitt og sama svæðið.
Kaupmannahöfn er vinsælasta ferðamannaborg Norðurlanda og líklega hefur það eitthvað með vinsældir hennar að gera að hún er aftur og aftur valin ein besta borg heimsins að búa í og starfa. Þá þykir hún hreinust borga heimsins og gorta Kaupmannahafnarbúar af því að geta stungið sér til sunds á hafnarsvæðinu án nokkurra vandkvæða enda mengun lítil sem engin. Þá öfundast margir út í þá staðreynd að heil 36% íbúa hjóla til og frá vinnu dag hvern.
Ýmsum finnst orðið Kaupmannahöfn orðin skrambi dýr nú allra síðustu árin. Það er strangt til tekið bæði rétt og rangt. Rangt því verðlag í borginni almennt séð er það sama og það var árið 2009. Rétt þar sem það er íslenska krónan sem látið hefur undan síga.
Helstu hverfi
Kaupmannahöfn er skipulögð eftir hinu fræga fingurplani, Fingerplanen, frá árinu 1947 en eins og sést gróflega á loftkorti liggur borgin í einar fimm áttir frá hinni gömlu miðborg. Þeir hlutar sem ferðafólki finnast spennandi eru þó miðborgarhlutinn. Gamli bærinn með sinn einstæða sjarma, tískuhverfið kringum Vesterbro með sitt iðandi mannlíf, Nørrebro er litrík með eindæmum og Østerbro er fallegt og skemmtilegt íbúðahverfi. Þá má ekki gleyma Christianshavn með sínar gamaldags byggingarnar og síkin ekki síður forvitnileg.
Hér eru líka leifar þess sem fyrir nokkrum árum var fríbærinn Kristjanía með sínar einstæðu reglur og reykingar. Staðurinn í dag á lítið skylt við það sem áður var þó enn eimi eftir af uppreisnarseggjum og hasshausum á svæðinu. Síðast en ekki síst eru Valby og Frederiksberg forvitnileg hverfi í vesturhluta miðborgarinnar.
Loftslag og ljúflegheit
Heit og góð sumur sem sífellt verða heitari en veturnir í Danmörku vilja gjarnan vera nístandi kaldir þó snjór sé í minna fallinu. Þó koma vetur þar sem snjóþyngsli, sérstaklega í norðurhluta landsins, eru mikil en það er afar sjaldgæft í höfuðborginni. Snjóföl er nærri lagi þar yfir háveturinn. Sökum mikils raka virðist kuldinn þó smjúga auðveldar inn í bein en gerist til að mynda hér á Fróni. Meðalhiti í landinu á ársgrundvelli er 8.2 gráður.
Til og frá
Íslendingar þekkja hann sem Kastrup flugvöll en alþjóðaflugvöllur borgarinnar heitir aðeins Kaupmannahafnarflugvöllur. Hann er hins vegar staðsettur í Kastrup hverfi. Völlurinn er bæði fyrir innan- og utanlandsflug og er tiltölulega einfaldur að rata um. Stöðvarhús 1 er fyrir innanlandsflug en 2 og 3 fyrir alþjóðaflug.
Inn í miðborgina frá flugvellinum er auðvelt að komast. Sé tíminn aðalatriðið er hægt að skjóta sér beint inn í leigubíl fyrir utan og bruna í miðbæinn á fimmtán mínútum eða svo. Á dagtaxta má gera ráð fyrir að sá túr kosti um 5.800 krónur. Allir leigubílar aka til Svíþjóðar sé þess óskað.
Einfaldast og ódýrast er að taka jarðlest frá brautarstöðinni undir stöðvarhúsi 3 inn í borgina. Fara vagnar til og frá á tíu mínútna fresti á daginn en á 20 mínútna fresti á kvöldin. Tekur rösklega tólf mínútur að fara að Nørreport lestarstöðinni í miðbænum en flestir vagnar halda áfram ferð sinni alla leið til Vanløse. Intercity lestirnar fara svo alla leiðina til Hirtshals á Jótlandi. Jarðlestakort hér. Stakt fargjald í miðborgina, þrjú hverfi, kostar 840 krónur.
Strætisvagnar er annar kostur frá flugvellinum og jafnvel betri ef áfangastaðurinn er ekki nálægt jarðlestakerfinu. Einir sjö slíkir þjónusta flugvöllinn auk rútubifreiða sem fara enn lengra leiðir. Vagnar 5A og 96N fara inn í borgina en það tekur lengri tíma en með jarðlest. Kostnaðurinn fer eftir hversu langt er farið. Sjá leiðakerfin hér og hér má sjá verðlistann allan.
Þá aka farþegalestir einnig til og frá flugvellinum bæði innanlands og til Svíþjóðar frá sömu stöð og jarðlestirnar við stöðvarhús 3. Ratvísir dönsku járnbrautanna, DSB, hér.
Hægt er að kaupa farmiða hvort sem er á brautarstöðinni sjálfri ellegar í flugstöðinni.
Samgöngur og snatterí
Það er ekki sérstaklega erfitt að rata eða þvælast um í Kaupmannahöfn. Gamli miðbærinn, sá hluti borgarinnar sem heillar flesta ferðamenn er ekki ýkja stór og sé hefðbundið púst í fólki er lítið mál að rölta milli helstu staða. Gróflega má segja að 90 prósent alls þess sem ferðamenn koma til að skoða og upplifa í borginni sé í göngufæri á miðborgarsvæðinu. Það er því strangt til tekið ekki brýn þörf að nota samgöngutæki.
Eins og annars staðar í landinu er mikið gert fyrir hjólreiðamenn og þeir eiga víða réttinn hér á aðra. Hjól er hægt að leigja víða og lengi vel bauð borgin sjálf upp á ókeypis hjól til leigu á yfir 100 stöðum í miðborginni. Það er ekki lengur í boði en hjálparsamtök hafa þó tekið hluta þess kerfis upp á arma sína og er hægt að leigja gömlu hjólin á einum fimmtán stöðum. Nánar hér. Lítið gjald er þó tekið fyrir ólíkt því sem áður var. Nokkur fjöldi annarra aðila leigja einnig hjól en þar eru hlutirnir farnir að kosta skildinginn. Sólarhringur getur rokkað milli 2.500 og 3.500 krónur plús trygging.
Til umhugsunar: Velflest samgöngutæki borgarinnar leyfa hjól um borð og því auðvelt að þvælast um stóran hluta borgarinnar án þess að keyra sig alveg í botn.
Heilli hjólreiðar en leti sé til staðar er ein leið að leigja sér létthjól, rickshaws, og láta alveg hjóla með sig. Slík nýbreytni hefur notið slíkra vinsælda að ein fjögur fyrirtæki í borginni sérhæfa sig nú í slíkum ferðum. Hálftíma rúntur með þeim kostar um 3.600 krónur. Tvö slík fyrirtæki eru Flying Tigers og Cykeltaxa.
Samgöngur aðrar eru afskaplega fínar í borginni. Strætisvagnar ganga ótt í öll hverfi og fjölmargir næturvagnar eru í boði í helstu hverfin. Leiðakort hér. Miða er hægt að kaupa í sjálfsölum við flesta stöðvar eða hjá vagnstjórunum sjálfum. Skal þá hafa rétt klink við hendina því ekki er gefið að þeir geti gefið til baka. Svokallað klippikort er ódýrari kostur en stakur miði. Kostar tíu miða eða sólarhringskort 3.300 krónur.
Strætisvagn 11A er sérstakur túristavagn sem aðeins fer um allra helstu staðina í miðborginni en nokkrir slíkir eru í ferðum á sjö mínútna fresti dag hvern. Miði sem gildir í klukkustund kostar 560 krónur.
Jarðlestir, metró, fyrirfinnast í Kaupmannahöfn þó enn sem komið er sé aðeins um tvær línur að ræða.
- Lína M1 fer milli Vestmager og Vanløse.
- Lína M2 fer milli Kaupmannahafnar flugvallar og Vanløse
Miðaverð fer eftir lengd ferðalags. Ódýrasti staki miðinn, tvö hverfi, kostar 560 krónur. Sjálfsalar eru á öllum stöðvum. Leiðakerfi hér.
Söfn og sjónarspil
>> Þjóðminjasafnið (Nationalmuseet) – Eitt stærsta safn landsins og þokkalegt samkvæmt leiknum og lærðum. Þrátt fyrir nafnið eru hér munir alls ótengdir Danmörku víða að úr heiminum sem er jafnvel til bóta enda Danmörk ekki mekka fornleifa. Sögu lands og þjóðar gerð góð skil. Safnið stendur á Ny Vestergade milli Kristjánsborgar og H.C. Andersen breiðgötunnar. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Sérstök barnadeild lokar klukkustund fyrr um helgar. Aðgangur er frír. Heimasíðan.
>> Ríkislistasafnið (Statens Museum for Kunst) – Nafnið ekki sérlega spennandi en safnið sjálft er að margra mati það besta í Kaupmannahöfn. Hér má sjá dönsk verk frá ýmsum tímum. Það elsta frá tólftu öld. Allmargir erlendir listamenn eiga verk hér einnig. Listamenn á borð við Rubens, Picasso, Rembrandt og Matisse. Safnið stendur við Sølvgade. Strætisvagnar 6A, 14 eða 26. Opið alla daga nema mánudaga milli 10 og 17. Lengur á miðvikudögum. Aðgangur er frír nema að sérstökum aukasýningum sem oft eru haldnar samhliða. Heimasíðan.
>> Nýja Carlsberg höggmyndasafnið (Ny Carlsberg Glyptotek) – Annað mikilvægt safn sem áður fyrr var í eigu auðkýfingsins Carl Jacobsen. Meginþema safnsins eru munir frá Egypta- og Grikklandi en að auki talsverður fjöldi skúlptúra eftir Rodin. Síðast en ekki síst ágætt safn listaverka impressjónista innlendra sem erlendra. Ómissandi fyrir listunnendur. Það stendur við Dantes Plads gengt Tívolíinu. Opið daglega frá 11 – 17 nema mánudaga. Aðgangseyrir 1500 krónur en frítt inn á sunnudögum. Heimasíðan.
>> Nýlistasafnið Louisiana (Louisiana Museum of Modern Art) – Þetta ágæta safn stendur við ströndina í Humlebæk með ágætt útsýni yfir Eyrarsundið. Þykir safn þetta ákaflega framúrstefnulegt en yfir þrjú þúsund verk eru þar til sýnis. Er rjóminn af verkunum frá norrænum listamönnum. Sex til átta sinnum á ári fara þarna fram farandsýningar að auki og fjölmargir konsertar fara þar einnig fram. Opið 11 – 22 virka daga nema mánudaga og 11 – 18 um helgar. Miðaverð 2400 krónur en frítt fyrir 18 ára og yngri. Heimasíðan.
>> Lista- og hönnunarsafnið (Kunstindustri Museet) – Þetta ágæta safn er hýst í gömlum spítala og fer vel um það þar. Dönsk list og hönnun í fyrirrúmi og margt forvitnilegt ber fyrir augu. Strætisvagn 1A eða 15. Opið 11 – 17 alla daga nema mánudaga. Prís fyrir fullorðinn 1300 krónur en frítt inn á miðvikudögum. Heimasíðan.
>> Thorvaldsens safnið (Thorvaldsens Museum) – Einn af þekktustu listamönnum Dana er myndhöggvarinn Bertil Thorvaldsen. Hér er stór hluti verka hans til sýnis. Strætisvagnar 1A eða 2. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 950 krónur og frítt fyrir 18 ára og yngri. Ókeypis fyrir alla á miðvikudögum. Heimasíðan.
>> Cisternerne safnið (Cisternerne) – Er tileinkað glerlist af ýmsu tagi. Sýningar hér fjölbreyttar og breytast ört. Afar sérstakt en virkilega þess virði að heimsótt sé. Strætisvagnar 26 og 18 að Pile Allé. Safnið aðeins opið þriðjudaga og föstudaga milli 14 og 18 og um helgar milli 11 – 17. Lokað í janúar og desember ár hvert. Punga þarf út 1200 krónum. Heimasíðan.
>> Ordrupgaard safnið (Ordrupgaard) – Þetta er staðsett örlítið utan við borgarmörkin á gömlu setri í yndislegu umhverfi. Verk safnsins úr ýmsum áttum aðallega frá nítjándu öld og ber þar hæst nokkur verk Paul Gaugin. Strætisvagnar 169 eða 179. Opið virka daga 13 – 17 nema mánudaga. 11 – 17 um helgar. Prísinn 2.200 krónur. Heimasíðan.
>> Frilandssafnið (Frilandsmuseet) – Hér er merkilegt safn sem alfarið óhætt er að fullyrða að börn hafa gaman af einnig. Staðsett í Lyngby við borgarmörkin og er eitt elsta safn sinnar tegundar í veröldinni en safnið er að mestu undir beru lofti. Fara þar fram gjörningar, sýningar og leikrit í gömlu endurbyggðu þorpi sem telur yfir 50 byggingar af gamla skólanum. Áhrifaríkt og fræðandi og grundir safnsins svo stórar að auðvelt er að finna sér sinn eigin stað til slökunar og borða nesti. Þetta er alvöru. Safnið lokar yfir háveturinn að frátöldum einstöku jólasýningum en fylgjast verður með slíku á heimasíðu safnsins. Annað safn, Brede safnið, er við hlið Frilandssafnsins en hið þema hins fyrrnefnda er iðnbyltingin í Danmörku. Forvitnilegt en börnunum mun leiðast. Strætisvagnar 184 eða 194. Opið 10 – 17 alla daga frá aprílbyrjun til októberloka. Aðgangur frír. Heimasíðan.
>> Rósenborgarhöllin (Rosenborg Slot) – Önnur af tveimur konunglegum höllum í Kaupmannahöfn en þessi er ekki í formlegri notkun heldur viðhaldið sem safni. Og glæsilegt er það ef íburður og ríkidæmi heillar þig. Metró M1 eða M2 að Nørreport. Slottið er opið á nokkuð mismunandi tímum yfir árið en milli 11 og 16 er öruggt að opið er. Aðgangseyrir er 1.900 krónur. Heimasíðan.
>> Tónlistarsafnið (Musikmuseet) – Glæsilegt safn tileinkað tónlist og hljóðfærum í Åbenrågötu í miðborginni. Opið milli 13 og 16 þriðju – sunnudags. Lokað mánudaga. Frítt inn. Heimasíðan.
>> Óperuhúsið (Operaen) – Danir eru enn að rífast yfir þeim kostnaði sem til féll vegna byggingar þessa mikla mannvirkis en það er óumdeilanlega áhrifarík bygging og stjórnendum hefur tekist að laða til sín stórstjörnur óperunnar mjög reglulega. Húsið sjálft er hægt að fá að skoða með leiðsögn. Strætisvagn 66 eða meða Pendul ferjunni sem fer reglulega frá Nýhöfn yfir að Óperuhúsinu alla daga á 20 mínútna fresti. Opið alla daga nema sunnudaga milli 14 og 20 og þremur tímum fyrir sýningar á sunnudögum. Heimasíðan.
>> Tívolí (Tivoli) – Það væri að bera í bakkafullan lækinn að segja Íslendingum frá þessum frægasta garði Danmörku allrar enda vænleganlega hver einasta Frónarsál stígið fæti hér inn á leið um borgina. Ómissandi skemmtun í einum elsta skemmtigarði heims. Hér er til dæmis elsta Parísahjól heimsins sem enn er í notkun. Tívolígarðurinn er nánast í miðju miðborgarinnar við Vesterbrogade og fer ekki framhjá nokkrum manni. Aðgangur 2400 fyrir tólf ára og eldri en helmingur þess fyrir börn. Opið daglega frá 11 – 22 og til 23 á föstu- og laugardögum. Garðurinn er lokaður frá október til apríl ef frá er talinn mánuðurinn fyrir jól. Heimasíðan.
>> Strikið (Strøget) – Göngutúr um Strikið er jafn ómissandi ferð til Kaupmannahafnar og rölt um Römbluna er það í Barcelona. Það auðgar ekkert lífið per se og varningurinn í verslununum er engu merkilegri en annars staðar í heiminum en það bara tilheyrir og er skemmtilegt á góðum degi. Hafa skal þó í huga að veitingar í þessari götu eru á hámarksverði.
>> Bakkinn (Dyrhavsbakken) – Annar stórskemmtilegur garður við Klampenborg í norðurhluta borgarinnar og þessi tekur skuldlaust heiðurinn af að vera elsti skemmtigarður heims enda að slefa í 400 ára aldurinn. Frábær fyrir börnin enda margt að sjá, gera, fikta, skoða og læra. Þá eru hér dýr að skoða bæði alvöru og í brúðulíki. Garðurinn er ekki síður yndislegur til göngu og afslöppunar og þjóðráð er að grípa með nesti áður en haldið er hingað. Eftir því sér enginn. Lest til Klampenborg. Opið daglega frá mars til ágústloka. Aðgangur frír. Heimasíðan.
>> Bryggjubaðið(Havnebadet) – Hvort sem um er að kenna leti eða framsýni þá þurfa miðborgarar ekkert að ferðast í neinar tíu mínútur á næstu baðströnd. Borgin byggði bara gerviströnd við næstu bryggju, nánar tiltekið við Íslandsbryggju. Geysivinsæl þegar sólin lætur sjá sig og kölluð Copencabana af heimamönnum. Enginn sandur en sólstólar, barir og kaffihús og fyrsta flokks stemmning. Þá er sjálfsagt að baða sig í höfninni enda hrein og fín. Allt frítt.
>> Amager strandgarðurinn (Amager Beach Park) – Hér er helsta strönd borgarbúa og miðað við strönd þetta norðarlega á hnettinum er hún stórkostleg. Eðli málsins samkvæmt er hér þó aðeins líf á sumrin. Aðeins tíu mínútur frá miðborginni. Strætisvagn 12. Heimasíðan.
>> Frelsarans kirkja (Vor Frelsers Kirke) – Hún lætur kannski ekkert sérstaklega mikið yfir sér þessi kirkja í Christianshavn en þvílíkt mannvirki þegar betur er að gáð. Spírallinn á toppnum vekur athygli margra enda afar sérstakur og hann er hægt að fara upp í og skoða nánar. Langflestir missa þó andann fyrsta þegar inn er komið. Yndisleg kirkja trúuðum sem trúleysingjum. Hér eru gjarnan haldnir tónleikar og er eftirminnilegt að njóta slíks í þessum húsakynnum. Sjá myndaröð hér. Heimasíðan.
>> Frúarkirkjan (Vor Frue Kirke) – Hin opinbera dómkirkja landsins er hin glæsilega Frúarkirkja sem vert er að skoða. Kirkjan atarna þótti á miðöldum einhver fegursta bygging Evrópu allrar en þarna hefur kirkja staðið síðan á þrettándu öld þó ekki í þessari mynd. Hún stendur í Nørregade skammt frá Illum og Magasin du Nord. Opin daglega frá 11 – 17 en lokuð ferðamönnum þegar guðsþjónustur eru í gangi. Heimasíðan.
>> Litla hafmeyjan (Den Lille Havfrue) – Frægasta stytta Danmerkur og sennilega frægasta tákn Kaupmannahafnarborgar er án efa styttan af Litlu hafmeyjunni. Smíðuð til heiðurs þjóðarskáldinu H.C.Andersen á sínum tíma en hann skrifaði einmitt eitt ævintýra sinna um þessa stúlku úr sjónum. Meyjan situr kyrr og róleg við Langelinie á hafnarsvæði borgarinnar og margvíslegir möguleikar að komast þangað. Einn sá besti er að taka eina af fjölmörgum ferjum sem meðfram borginni fara. Hafmeyjan er vinsælasti áfangastaður ferðamanna á öllum Norðurlöndum þó margir verði vonsviknir þegar að er komið enda styttan merkilega lítil.
>> Ráðhúsið (Rådhuset) – Sitt sýnist hverjum um fegurð ráðhúss borgarinnar við Ráðhústorgið en byggingin fer vart framhjá nokkrum manni. Upp í turn þess eru 105 metrar sem gerir húsið að einu því hæsta í borginni. Þá er Rådhuspladsen sérdeilis góður staður til mannlífsskoðunar.
>> Amalienhöllin (Amalienborg) – Hér er aðsetur dönsku konungsfjölskyldunnar yfir vetrartímann. Höllin samanstendur af mörgum byggingum og tvær þeirra standa ferðamönnum til boða að skoða. Eru það fyrrum hallir Kristján sjöunda og Kristjáns áttunda. Safn um sögu konunga Danmerkur er að finna á jarðhæð í höll þess síðarnefnda. Hallargarðarnir standa ávallt opnir og er fallegir mjög ekki síst þegar allt er í mestum blóma yfir sumartímann. Vinsælt er að fylgjast með vaktaskiptum varðmanna drottningar en sú athöfn fer fram á hádegi hvern dag. Veitingahús er að finna í garðinum og klósett og fátt því til fyrirstöðu að dvelja hér um tíma og gera sér glaðan dag. Nokkuð misjafnt er hvenær opið er enda önnur höllin enn notuð þegar gesti konungsfjölskyldunnar ber að garði. Sjá nánar á heimasíðu. Aðgangseyrir er 1.500 krónur og kaupa verður miða á staðnum. Heimasíðan.
Matur og mjöður
Matur hér er fyrsta flokks á evrópska vísu og þeim veitingastöðum fjölgar ört sem detta inn í Michelin bókina fyrir framúrskarandi mat og þjónustu. Einir sextán slíkir staðir eru nú í Kaupmannahöfn sem er meira en nokkur önnur borg á Norðurlöndum getur státað af. Þá er enginn skortur á hefðbundnum búllum heldur og smurbrauðsstofur eru hér í massavís.
Ekki þarf heldur að kynna bjórmenningu Dana eða bjórgerð. Allir þekkja Carlsberg sem enn er framleiddur hér í Kaupmannahöfn. Færri vita að eins og á Íslandi hefur orðið sprenging í tilkomu smærri brugghúsa og yfir 40 fyrirtæki framleiða sinn eigin bjór víða í borginni.
Verslun og viðskipti
Meðan krónan okkur þjáist af sama niðurgangi og hún hefur gert frá hruni er ekkert sérstaklega ódýrt að versla í Köben. Það er þó heldur ekki fokdýrt eins og raunin er í fákeppninni á Fróni.
Helstu og bestu verslunarmiðstöðvar Kaupmannahafnar eru:
- AMAGER CENTRET > Reberbangade
- FISKETORVET COPENHAGEN MALL > Kalvebod Brygge
- FIELDS > Arne Jacobsens Alle
- FREDERIKSBERG CENTRET > Falkoner Alle
- ILLUM > Østergade
- MAGASIN DU NORD > Kongens Nytorv
- WATERFRONT SHOPPING > Tuborg Havnevej
- STRØGET > Strøget
Líf og limir
Fátt að óttast í Kaupmannahöfn. Smáglæpir gerast hér eins og annars staðar en borgin er eins örugg og aðrar stærri borgir í Skandinavíu. Fregnir af skot- eða hnífabardögum milli gengja finnast nokkuð reglulega í dagblöðum en það er blásið vel út og líkurnar næsta engar að ferðamenn í miðborginni verði vitni að slíku.
Lögregla hér er í harðari kantinum. Litið er að mestu framhjá hassreykingum en harðari efni eru ávísun á dóm og fangelsisvist.
View Kaupmannahöfn in a larger map