Skip to main content

H vað skyldi nú Ilulissat bjóða upp á annað en aðrir grænlenskir bæir? Meiri ís og klaka kannski?

Vissulega er lítill skortur á ís og klaka og verður sennilega aldrei en það er sannarlega eitt sem Ilulissat býr yfir sem enginn annar bær í landinu getur státað sig af. Fjörðurinn sem bærinn liggur við er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Það er ekki lítill heiður fyrir lítinn bæ sem telur aðeins 4500 íbúa en heiðurinn er tilkominn vegna þess að fjörðurinn umtalaði er ekki bara næsti afdalafjörður heldur er hann 56 kílómetra langur, troðfullur af tignarlegustu ísjökum sem augu fá séð og einn af örfáum stöðum á öllu Grænlandi þar sem jökullinn nær alla leið niður í sjó. Ennþá.

Staðurinn er það stórkostlegur að okkar eigið glæsilega Jökulsárlón fengi minnimáttarkennd á heimsmælikvarða. Hundrað metra háir jakar eiga það til að lóna í firðinum grænlenska og létt verk að fá að sigla um hann á báti. Er það enda hugmyndin að nafni bæjarins sem þýðir ísjakar á grænlensku.

Sé það ekki nóg til að ýta við manni að kíkja á herlegheitin er ekki úr vegi að minnast á að það eru næstum jafn margir sleðahundar í bænum og er fólk. Auðsótt mál er að fara í sleðaferð með heimamönnum og sú upplifun gleymist aldrei.

Sé veskið vel troðið er hægt að leigja þyrlu og fljúga yfir fjörðinn fallega alla leið upp á topp jökulsins. Slíkt 30 mínútna ferðalag kostar rúmlega 40 þúsund krónur á mann og eru nokkrar mismunandi slíkar ferðir í boði.

Bærinn sjálfur með sína tæplega fimm þúsund íbúa er aðeins 200 kílómetra frá Norðurheimskautabaugnum sem ætti að gefa hugmynd um að hér er þokkalega kalt flestum stundum. Þetta er þó þriðja stærsta þéttbýlið í landinu og eini bærinn að heita má þar sem ferðaþjónusta er meginatvinnuvegurinn. Vinsældir ísfjarðarins aukast ár frá ári sem eðlilegt er.

Hingað verður þó aðeins komist með skipum Arctic Umiak frá Nuuk eða Grænlandsflugi.