Skip to main content

Þ að tekur ekki langan tíma að skoða eyna Möltu sé fólk á annað borð undir stýri á bifreið. Hugaðir bílstjórar aka hana endilanga í rólegheitum á rétt rúmri klukkustund eða svo.

Bær Stjána bláa á Möltu er auðvitað yfirborðskenndur skemmtigarður en þó indælt að rölta um alvöru teiknimyndabæ. Mynd Jorsym

Bær Stjána bláa á Möltu er auðvitað yfirborðskenndur skemmtigarður en þó indælt að rölta um alvöru teiknimyndabæ. Mynd Jorsym

Við segjum hugaðir vegna þess að eyjan var löngum undir breskum yfirráðum og þess vegna er vinstri umferð reglan hér þó Bretarnir séu löngu hættir afskiptum sínum öðrum að mestu.

Þetta er himneskur sólarstaður en annað til dægrastyttingar hér er af skornum skammti. Reyndar er höfuðborgin Valletta indæll staður og hin gamla höfuðborg Mdina miðsvæðis á eynni er sannarlega skoðunar verð. Þá eru jú einnig hér töluverðar fornminjar en slík mannvirki eru ekki allra og jafnvel þó svo sé þá er slíkt meira forvitnilegt en beinlínis spennandi.

Það er hins vegar einn bær hér sem er afar frábrugðinn öllum öðrum bæjum á eynni. Formlegt nafn hans er Sweethaven en hann er betur þekktur sem Popeye Village eða bær Stjána bláa. Hér standa tugir undarlegra húsa og enn undarlegri götur. Einhvern veginn á þetta alls ekkert heima hér en það breytir ekki því að ósköp indælt er að rölta hér um. Ekki leiðist börnunum því innfæddir leikarar setja á svið Stjána bláa leikrit reglulega yfir daginn og jafnvel þó unga fólkið þekki ekki Stjána bláa lengur þá hafa flestir gaman að.

Sweethaven er gervibær í þeirri merkingu að bærinn var byggður fyrir 40 ára gamla kvikmynd um Stjána bláa. Kvikmynd sem var ein sú allra fyrsta sem Robin nokkur Williams fór með aðalhlutverkið. Myndin hlaut dapra dóma og hefur horfið í gleymskunnar dá en þorpið stendur enn og trekkir fjölda fólks árlega.