B orgarferð til London á döfinni í nóvember eða desember? Þjóðráð þá að eyða stundarkorni af tíma þínum og taka inn jólastemmningu annars staðar en í verslunargötunum.

Einn af þeim betri ár hvert er jólamarkaðurinn við South Bank Centre. Mynd Gary Knight
Jóla- eða aðventumarkaðir eiga sér ekki mjög langa sögu í London ólíkt því sem gerist sunnar í álfunni þar sem slíkir markaðir hafa sumir hverjir verið haldnir áratugum saman. Það breytir ekki því að Bretar hafa tekið ástfóstri við og í London má fyrir hver jól nú finna hátt í 20 mismunandi slíka markaði.
En hverja er skemmtilegast að heimsækja og hvar eru þeir?
♥ Rík ástæða er til að heimsækja markaðinn við South Bank Centre við Belvedere Road skammt frá London Eye. Sá opinn frá miðjum nóvember fram í byrjun janúar ár hvert. Þessi er þokkalega stór og flott staðsettur við bakka Thames en það sem kannski er mest um vert fyrir okkur er að hér er sérstaklega lagt upp með að hafa markaðinn að skandinavískum sið. Hér má því finna danska, sænska, finnska og norska bása og hver veit nema einn daginn finnist hér íslenskur bás líka.
♥ Öllu smærri en ekki síður flott staðsettur er London Bridge City jólamarkaðurinn spottakorn frá hinnu frægu og fallegu Tower Bridge. Hér allt fallega skreytt og yfir 40 aðilar selja gjafavörur af ýmsu tagi. Hér líka hinn ágætasti bar ef hugmyndin er bara að virða fyrir sér mannlífið. Þessi opnar seint í nóvember ár hvert og lokar í byrjun janúar.
♥ Tate Modern listasafnið þekkja margir enda eitt af betri söfnum Lundúna. Þar fyrir framan hefur síðastliðin ár verið settur upp ágætur lítill jólamarkaður. Hreint ágætt stopp eftir að hafa tekið inn myndlist innifyrir. Þessi markaður aðeins opinn í rétt tæpan mánuð fram til Þorláksmessu.
♥ Einn stærsti og um leið fjölbreyttasti jólamarkaðurinn í London er jólamarkaðurinn í Camden í norðurhluta borgarinnar. Þetta svæði allt á mikilli uppleið og í Camden High Street opna um 60 aðilar jólabása um miðjan nóvember. Ólíkt öðrum mörkuðum þá er vikulegt mismunandi jólaþema hér svo þú finnur ekki endilega það sama hér til sölu eða afþreyingar allan tímann.
Að þessum frátöldum eru aðrir staðir sem kveikja auðveldlega jólaneista í brjósti víða um borgina. Jólamarkaður er í Hyde Park garðinum og æði vinsæll en hér er þó áherslan mest á smáfólkið og afþreyingu til handa þeim. Töluverð örtröð á köflum sem á lítið skylt við notalega jólastemmningu. Á Leicester Square er lítið fallegt jólaþorp sett up árlega en hér er verðlag í hæsta kanti og sömuleiðis fullmikið af fólki til að vel sé notið. Sé áhugi á jólaskreytingum sérstaklega er eðalmál að skoða Chelsea Pyshic Garden við Royal Hospital Road. Hér yfir hundrað jólabásar þar sem skreytingar hvers kyns fyrir jólin eru í aðalhlutverki. Síðast en ekki síst er yfirleitt ljúft að þvælast milli bása á Greenwich markaðnum. Vel yfir hundrað söluaðilar að bjóða eitthvað jólalegt og hér sést meira að segja jólasveinninn sjálfur nokkuð reglulega.