Þ ó lítið fari fyrir þá heldur tiltölulega stór hópur Íslendinga árlega til borgarinnar Pattaya á suðurströnd Tælands. Hluti þeirra heillast af þarlendu kvenfólki, hluti af yndislegu veðri út í eitt en hluti sömuleiðis vegna þess að hér kostar nánast ekkert að lifa.

Pattaya í Tælandi nýtur alltaf vinsælda þrátt fyrir að vera orðinn nokkuð útjaskaður staður. Mynd Derik Lawson
En það er eitt að ímynda sér að dvöl og hlutir í fjarlægum löndum kosti lítið sem ekkert. Í samanburði við verðlag á Íslandi gegnum tíðina má heita að allir aðrir staðir heims séu ódýrir. En Tæland og ekki síst Pattaya er meira en ódýrt. Það er hræbillegt og það staðfesta tölur frá bæði hagstofum og vefmiðlum sem sérhæfa sig í að mæla ferðakostnað og almennt verðlag.
Til að setja það í samhengi er óhætt að benda á að hlutir í verslunum í Pattaya kosta að meðaltali 92% minna en í Reykjavík. Með öðrum orðum þá er almennt verð í verslunum þar svipað og við útsölulok hjá verslunum hérlendis. Hér fær fólk Levi´s gallabuxurnar á rúmar fimm þúsund kall eða nýjustu hlaupaskó frá Nike á sex þúsund krónur að meðaltali.
Matur er mannsins megin hér sem þar. Verðlag í matvöruverslunum í Pattaya er 75% lægra en að meðaltali í Reykjavík.
Það er þó nánast morð að kaupa í matinn í Pattaya þegar tekið er tillit til hvað veitingastaðir eru að bjóða. Þeir vissulega margir þar sem seint myndu uppfylla kröfur um aðbúnað og hollustu í vestrænu ríki en gómsætir eru réttir heimamanna og aldrei hefur matareitrun verið stórt vandamál í Tælandi. Verðlag á veitingahúsum í Pattaya mælist 113% lægra en í Reykjavík. Á mannamáli þýðir það að rúmur tvö þúsund kall dekkar fína máltíð fyrir tvo á góðum veitingastað og drykkir þar meðtaldir. Þá ekki tekið tillit til götuveitingasala sem margir hverjir selja hreint ágætan skyndibita fyrir hundrað íslenskar krónur eða svo.
Ekki þarf heldur að fara um fólk ef flakka þarf um svæðið. Strætófargjaldið í Pattaya slefar í 22 krónur og rúnta má um í leigubíl hér í klukkustund fyrir tæpan þúsundkall eða svo.
Af þessu má ráða að hægt er að lifa og njóta í Pattaya fyrir brotabrot af því sem heima gerist. Doblaðu þá staðreynd með 100 prósent góðu veðri alla daga ársins og þá orðið vel skiljanlegt hvers vegna þeir sem hingað koma einu sinni koma aftur og aftur og aftur og aftur.