Ó kei, fyrirsögnin kannski ekki alveg sannleikanum samkvæm enda okkur vitandi engin sérstök íslensk húsráð gegn miklum hitum. Eðlilega, enda hitastig á Íslandinu góða sjaldan með þeim hætti að fólki svitni út í eitt. Sérstaklega á sumrin þegar heimamenn fárast öllu meira yfir sólar- og hitaleysi en hinu.

Köld sturta er ekki ráðleg þegar hiti er mikill heldur er volg sturta mun ráðlegri

Köld sturta er ekki ráðleg þegar hiti er mikill heldur er volg sturta mun ráðlegri

En það ættu allir íslenskir sólarlandafarar að þekkja að ekki er mjög líft á mörgum vinsælum áfangastöðum þegar sólin rís sem hæst á daginn.

Allra heitustu dagarnir í Alicante eða Barcelona fljúga langt yfir 30 gráðurnar og löngu fyrir þann tíma er hinn hefðbundni norræni og fölbleiki Íslendingur annaðhvort byrjaður að leka niður eða hefur forðað sér í skjól. Svo ekkert sé nú minnst á staði inni í landi. Sumarhitastig í Madríd hefur farið nokkrum sinnum í 45 gráður svo bara eitt dæmi sé tekið.

Vandinn stór en hvað hafa vísindin fram að færa? Eitthvað nýtt í kortunum sem hjálpar okkur að ráða við yfirgnæfandi hita? Sum svör vísindamanna þessi dægrin æði merkileg og henda út í hafsauga algengum mýtum eins og þeirri að ljós klæðnaður sé betri en dökkur.

♥  Alklæðnaður >>Klæddu þig frá toppi til táar og allra helst í pokalegum fatnaði sem ekki þrengir að. Liturinn breytir engu. Rannsókn sem gerð var meðal Bedúína í Sahara fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að líkamshiti þeirra er klæddu sig í ljósan fatnað var ekkert lægri en hinna er klæddust dökkum skikkjum eða fatnaði. Reyndin er nefninlega að þó ljós fatnaður varpi frá sér meira ljósi þá er hitaútstreymi meira í dökkum klæðnaði.

♥  Volgar sturtur >> Hún er freistandi tilhugsunin að stökkva í jökulkalda sturtu þegar hitastig fer upp í ruglið og menn hafa ekki undan að þerra svita. En þvert á það sem margir halda er það hreint ekki gott. Ísköld vatnsbuna á heitan líkamann vekur viðvörunarkerfi líkamans og hann leitar um leið leiða til að verja sig. Líkaminn lokar því á blóðflæði til stórra líkamshluta og festir þannig hitann inni. Sturtur skulu vera volgar.

♥  Blástur >> Fjölmargir brúka handhægar litlar viftur þar sem hiti gerist of mikill. Það er jákvætt að vissu marki en slíkar viftur skyldi fólk þó aðeins nota á andlit þar sem hvað flestir skynjarar líkamans eru staðsettir og alls ekki lengi í einu. Það er afar þunn lína milli þess að blástur kæli andlit og beinlínis haldi því heitu. Ekki blása svo mikið að þú hættir að svitna því sviti er besta ráð líkamans til að losna við umframhita.

♥  Krydd >>  Fararheill hefur áður fjallað um það að borða eins sterkan mat og mögulegt er þegar hiti er mikill. Af því höfum við persónulega reynslu en sterkt kryddaður matur eykur til muna svitaframleiðslu líkamans sem lækkar líkamshita fljótt og örugglega. Hafa skal í huga að sé fólk lítið fyrir kryddaðan mat er líka ráð, óþægilegt, að drekka brennheitt te eða kaffi. Í Brasilíu er það húsráð númer eitt, tvö og þrjú við hita og virkar eins og hendi sé veifað. Það þarf þó að drekkast hratt og varast skal að brenna sig ekki.

♥  Blaut föt >> Önnur leið en kannski ekki frábær nema fólk sé hreint og beint í sundi er að klæðast blautum fötum eða rennbleyta föt sín. Vökvi þarf orku til að gufa upp og sú orka kemur þráðbeint frá líkamanum sem kælist í leiðinni.

♥  Kaldar hendur >> Þó óráð sé að henda sér í heilu lagi undir kalda sturtu er ráð talið að setja hendur einar saman í ískalt vatn í skamma stund.

Kannt þú ráð gegn hita og stækju? Ófeimin að deila með okkur hinum.