Þ að verður ekki farið mikið norðar í Danmörku en til bæjarins Hirtshals í Hjørring kommúnu í Jótlandi ef frá er talinn sjálfur Skagerrak skaginn. Hirtshals kalla tæplega sjö þúsund manns heimili sitt og lifa flestir af útgerð sem héðan er stunduð.
Þó hefur ferðamennska verið vaxandi þáttur í bæjarlífinu en ekki sérstaklega vegna þess að Hirtshals hafi upp á margt að bjóða heldur helgast það fyrst og fremst af því að hér stoppa áætlunarferjur frá Noregi. Þótti lengi móðins þar að taka helgarferð yfir til Dananna og drekka stíft og djúsa á meðan. Fyrir vikið voru ekki svo margir sem beinlínis fóru frá borði í Hirtshals þegar þangað var komið.
Þetta hefur aðeins breyst því nú er ekkert verið að dóla heila nótt á leiðinni eins og raunin var áður fyrr. Er nú hægt að komast með fljótferju til Noregs á fjórum klukkustundum. Töluverður fjöldi fólks frá Evrópu notar ferjurnar héðan til að komast til Noregs.
En það eru fleiri en Norðmenn sem hingað komast með ferju. Það gera Íslendingar líka með Norrænu frá Seyðisfirði en Hirtshals er hin danska höfn þeirrar ferju.
Undir engum kringumstæðum gera þér sérstaka ferð hingað en ef þú ert á dólinu í grenndinni verður stutt stopp ekki neitt svekkelsi. Hér eru engin ósköp við að hafa en þó er margt til verra en rölta eftir strandlengjunni.
Til og frá
Eins og fyrr sagði ganga ferjur héðan reglulega til Noregs og Íslands auk þess sem ferjur hafa líka siglt hingað nokkuð reglulega frá Englandi á sumrin. Ferjustæði bæjarins er allgott og bærinn það lítill að enginn þarf að hafa miklar áhyggjur af því að villast. Fyrir utan Norrænu til Íslands fara héðan ferjur til Langasunds, Kristiansand, Larvik, Stavanger og Bergen í Noregi allan ársins hring. Sjá nánar á heimasíðum Colorline og Fjordline.
Hér er líka endastopp IC hraðlestanna dönsku og héðan hægur leikur að fara með þeim til helstu borga. Þær fara alla leið til Kaupmannahafnar með stoppi í Árósum, Óðinsvé, Álaborgar og Vejle svo einhverjar séu nefndar. Þessar lestir eru afar fínar til brúksins og eru allar með veitingasal og þjónustu um borð. Nánar hér.
Söfn og sjónarspil
>> Norðursjávarsafnið (Nordsøen Oceanarium) – Það kemur dálítið eins og skrattinn úr sauðaleggnum að í þessum litla og yfirlætislausa bæ er að finna eitt allra stærsta sædýrasafn Evrópu. En stærðin er reyndar ekki tilkomin vegna fjölbreytileika því hér er aðeins að finna þau sjávardýr sem hreiðrað hafa um sig í Norðursjónum ef svo má að orði komast. Þar á meðal er fjöldi forvitnilegra dýra og fiska og í öllu stærri tönkum en venja er fyrir í hefðbundnari sædýrasöfnum. Fínt stopp og skemmtilegt. Willemoesvej 2. Hér er opið allan ársins hring frá 10 til 16 yfir veturna en 9 til 18 yfir sumartímann. Prís á fullorðinn er 3.400 krónur og helmingur þess fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.
>> Vitahúsið (Hirtshals Fyr) – Áberandi í landslagi Hirtshals og það sérstaklega komið sjóleiðina er stór og mikill viti bæjarins sem rís 35 metra upp í loft. Sá var fyrst byggður árið 1861 en hefur reyndar fengið töluverða yfirhalningu síðan þá. En ekki aðeins er vitinn hár heldur stendur hann líka á hæð einni mikilli og frá toppnum gefur að líta frábært útsýni. Hann er opinn ferðafólki alla daga ársins frá 10 til 21 á kvöldin. Fullorðnir greiða 450 krónur fyrir herlegheitin en ef einhver vill forskot á sæluna er hægt að skoða vefmyndavél úr turninum hér. Heimasíðan.
>> Stríðsbyrgið (Bunkermuseet) – Í nokkurra skrefa fjarlægð frá hinum myndarlega vita bæjarins er að finna einar heillegustu leifar stríðsbyrgis frá Seinni heimsstyrjöldinni sem finnast í Danmörku. Hér vitanlega komu Þjóðverjar sér upp ágætum vörnum enda aðkoma að strandlengjunni hér tiltölulega auðveld. Byrginu er vel haldið við og forvitnilegt að rölta þar um. Hér er alltaf hægt að skoða hluta þess án þess að greiða fyrir en til að skoða það að innan þarf að banka hér upp á milli 10 og 16 á sumrin. Aðgangseyrir 900 krónur. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Engin stórkaup er hægt að gera hér í bænum enda bæði úrval og verðlag í lakari kantinum. Hér er þó eins og víða í dönskum bæjum ágæt göngugata, gågaden, full af smærri verslunum.
View Hirtshals í Danmörku in a larger map
[/vc_raw_html]