L angfallegasti hluti Kanarí er án alls efa hálendið. Og það er sannarlega hálendi á þessari litlu eyju. Um leið og haldið er inn í land frá strandsvæðunum hækkar land skarpt og mikið og á eynni miðri eru bæir hátt í tvö þúsund metra hæð yfir sjávarmáli.

Guayadeque tilheyrir ekki þeim flokki bæja heldur er hér um að ræða djúpan dal í um 20 mínútna fjarlægð frá þjóðveginum um eyna. En þessi djúpi dalur er ekki bara næsti dalur. Þetta var einn þeirra staða þar sem frumbyggjar á eynni forðum daga komu sér fyrir í þeim hundruðum hella sem hér finnast um allt.

Þetta er afar heillandi svæði, þröngt og dimmt, sem er stór ástæða þess að fólk settist hér að á sínum tíma því hér var auðvelt að fá skjól fyrir sól.

Þessir frumbyggjar gerðu sitt besta til að gera hella sína vistlega og margir þeirra standa enn að mestu ósnortnir þó ekki þeir sem eru hvað neðst í dalnum. Þeim nokkrum hefur verið breytt í veitingastaði og eða bari og eru æði vinsælir fyrir ferðafólk. Hér býr fólk ennþá en þó með nútímalegum formerkjum.

Það sem gerir Guayadeque heillandi er að þó túrismi sé hér mikill sækja hingað líka heimamenn í svipuðum mæli og erlendir ferðamenn. Hér er kjörinn vettvangur fyrir sportista sem vilja ganga fjöll án þess að hiti og sól píni fram svitafossa við hvert skref. Víða finnast lautir fyrir þá sem mæta með nesti og nýja skó og vilja njóta samverustunda í náttúrunni.

Síðast en ekki síst er algjör nauðsyn að prófa mat og drykk hér. Þar er nefninlega svo að dimmir hellarnir eru kjöraðstæður fyrir hangikjöt og hér segja fróðir að kaupa megi besta svínakjöt á Kanarí. Gott er það í öllu falli og ekki síður ljúft að skola niður með Ronmiel, sem er romm að kanarískum sið blandað hunangi. Hér fæst heimalagað Ronmiel sem einnig þykir með því besta á eynni.