Skip to main content
golfTíðindi

Gott og slæmt golftilboð Úrval Útsýn í desember

  11/12/2010febrúar 3rd, 2021No Comments

Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn býður nú tvær golfferðir yfir jólahátíðina. Annars vegar 20 daga ferð yfir jól og áramót frá 16. desember fram til 5. janúar og hins vegar sjö daga ferð frá 29. desember og til 5. janúar. Fyrri ferðin er fyrirtak en sú seinni helst til dýr.

Gist er á Hotel Husa golfhótelinu nálægt Alicante en hótelið þekkja margir undir nafninu Hesperia. Er það ágætt hótel og þykir það 18. besta af hótelum á Alicante svæðinu samkvæmt Tripadvisor.

Lengri ferðin er alveg eðalfín fyrir þá sem kveðja vilja kulda, trekk og ekki síst jóla- og áramótastress. Fátt yndislegra á aðfangadag en taka átján holur og borða svo góðan mat og hafa ekki neitt fyrir neinu. Ekki skemmir heldur að golfbíll, morgun- og kvöldverður er innifalinn í verðinu.

Kostar lengri ferðin 239 þúsund á mann og miðast við tvo saman. Það gerir gróflega tólf þúsund krónur á mann á dag og verður að teljast mjög gott verð á ágætu hóteli með hálfu fæði og golfi alla dagana með golfbíl.

Styttri ferðin yfir áramótin er ekki síðri hvað varðar að þá gefst fólki tími til að njóta jóla með ættingjum og vinum en einnig að njóta golfs á grænum völlum yfir áramótin. Það er dágóð tvenna.

Hér er sama hótel með morgun- og kvöldverði inniföldum auk golfs með bíl alla sjö dagana en verðið er töluvert lakara. Fer ferðaskrifstofan fram á 149.900 krónur á mann miðað við tvo sem þýðir að hver dagur er að kosta manninn 21 þúsund krónur eða 42 þúsund saman. Það fer seint í bækur sem góður díll.

Heimasíða Úrval Útsýn hér.