L íklega eru það bara harðkjarna golfarar sem hafa veitt því athygli allra síðustu misserin að hinn ágæti golfáfangastaður Alicante Golf hefur tekið miklum breytingum. Merkilegt nokk, bæði til hins betra og verra!

Golfskálinn, sem lengi vel hélt úti skipulögðum ferðum á þennan ágæta golfvöll í útjaðri ágætrar og vinsælrar borgar, fékk sparkið einn góðan veðurdag þegar Pálmi nokkur Haraldsson,  framsóknarmaður, dæmdur glæpamaður og einn þeirra sem sekur var um Hrunið sem setti þúsundir manns út á gaddinn, tók yfir klabbið með klækjum og gerræðisaðgerðum og tók sér einkaleyfi á sölu ferða á þennan ágæta golfvöll.

Við hér, og eflaust þið þarna úti, heyrt þúsund sögur af því sem fram fór á sínum tíma…

Sumir segja að Golfskálinn hafi einfaldlega boðið of illa enda mikill fjöldi Íslendinga sem nýtti sér ferðir þeirra með hringjum á Alicante Golf innifalið. Um tíma áttu viðskiptavinir Golfskálans alla teigtíma á Alicante Golf fyrir hádegi alla virka daga vikunnar og eðli máls samkvæmt varla þverfótað fyrir landanum á staðnum á þeim tíma. Landinn líka svo grimmur að tryggja sér hring númer 2 síðdegis um hríð að lengi vel var ekki spilað á vellinum án þess að hitta um það bil þúsund aðra Íslendinga með tilheyrandi stuði og stemmningu.

Aðrir segja að græðgi Golfskálans vegna vinsældanna hafi orðið til þess að eigandi svæðisins hafi hugsað sig tvisvar um. Svo vel gekk að fá golfara á staðinn að forsvarsmenn Golfskálans hafi beinlínis heimtað drjúgari afsláttarkjör fyrir vikið. Of drjúg það er að segja.

Reyndin er sú að skítaplebbinn Pálmi Haraldsson (sjá hér, hér, hér og hér) gerði eigandanum það tilboð að kaupa upp alla teigtíma á Alicante Golf síðla árs 2019. Skítaplebbinn áttaði sig á því aðdráttarafli sem væri á fínum golfvelli inni í borg sem tugþúsundir Íslendinga sóttu allt árið í beinu flugi.

Sagan segir að svindlarinn Haraldsson hafi farið á fund eigandans, boðið gull, græna skóga og það mörg ár fram í tímann og eigandinn, feitur og ríkur Spánverji, hafi strax séð að þarna var um feitt fífl að ræða og greip tækifærið óðum. Sólarhring síðar fengu Golfskálamenn skeyti þess efnis að þeir þyrftu að yfirgefa svæðið og hefðu til þess 24 stundir.

Það fylgir líka sögunni, hvað sem satt er í því, að framsóknarmaðurinn Pálmi Haraldsson, hafi svo drjúgt borgað fyrir herlegheitin að ferðaskrifstofur hans (ÚrvalÚtsýn, Sumarferðir og Heimsferðir) séu beinlínis á heljarþröm fjárhagslega vegna þessa díls. Díllinn hafi með öðrum orðum kostar hundruð milljóna króna sem Haraldsson var á nippinu um að eiga fyrir. Enn finnast einstaklingar sem telja að ferðaskrifstofuveldi Pálma Haraldssonar sé á bjargbrún. Vaxandi verðbólga alls staðar hjálpar auðvitað ekki til.

Hvað sem satt er í sögunum er engum blöðum um að fletta að þar var ALLTAF stemmning þegar íslenskir golfarar héldu á teig á Alicante Golf. Íslendingar á undan, Íslendingar á eftir, Íslendingar að æfa sig á æfingasvæðinu nálægt fyrsta teig og auðvitað Íslendingar á barnum við teiginn að heilsa upp á daginn með 6,5 prósentum eins og gerist og gengur.

Þessi stemmning dó þegar skíthællinn tók yfir. Ekki aðeins dró feitt úr aðsókn á Alicante Golf og gistingu á hótelinu heldur og dó ákveðin stemmning sem Íslendingar elska; að hitta aðra Íslendinga undir sólinni og allir á leið í góða skemmtun. Svona dálítið eins og stemmarinn var og er  í anddyrinu á þeim félagsheimilum sem eftir eru í landinu áður en opnað er fyrir Þorrablót. Mesti stemmarinn er alltaf í upphafi áður en allir verða mökkaðir og dauðsjá eftir öllu saman daginn eftir.

Það er allavega þunnur þrettándi að sækja Alicante Golf heim þessi dægrin. Það hafa krotarar hjá Fararheill gert tvívegis síðustu misserin og í bæði skipti saknað Golfskálans. Ekki þess fyrirtækis per se heldur þeirrar stemmningar sem var þegar það fyrirtæki sá um ferðir Íslendinga á staðinn. Nú er Alicante Golf ekki svipur hjá sjón. Íslendingar vandfundnari en samkennd hjá stjórnvöldum í Ísrael og stemmarinn eftir því.

Það lyftist því brún á þeim tveimur, af fjórum, pennum Fararheill.is fyrir skömmu þegar fregnaðist að Golfskálinn væri hugsanlega að taka við Alicante Golf á nýjan leik vegna skulda Pálma Haraldssonar.

Sú von dó þó þegar haft var samband við forsvarsmenn Golfskálans. Það fyrirtæki er ekki að fara að lífga upp á steindauðan, en súpergóðan, golfvöll á besta hugsanlega stað á Spáni á næstunni.