M argir Íslendingar sækja Kanarí ekki síður til að spila golf en til að sóla sig og sjá aðra. Eyjan er fantagóður staður til golfiðkunar enda veðurfar undantekningarlítið frábært og ólíkt mörgum öðrum stöðum verður sjaldan of heitt hér.

Töluverður verðmunur er á golfhring milli árstíða á Kanarí. Mynd ovidio vidal

Töluverður verðmunur er á golfhring milli árstíða á Kanarí. Mynd ovidio vidal

Alls eru átta golfvellir á eynni Gran Canaria og flestir þeirra nýir eða nýlegir og allir opnir aðkomufólki þó með takmörkunum á tveimur þeirra.

Verð per hring er æði svipað á þeim öllum en rokkar aðeins eftir árstíð. Aðal annatíminn er frá október til apríl og þá má gera ráð fyrir að hringur per mann kosti 90 til 120 evrur eða ellefu til fimmtán þúsund íslenskar krónur. Verðið lækkar svo ört þess utan og yfir sumarið er hægt að spila hér hring allt niður í sjö til átta þúsund krónur. Á sumum þeirra er veittur afsláttur sé gist á ákveðnum betri hótelum og sjálfsagt að forvitnast um það í lobbíinu.

Allir vellir bjóða upp á leigu á bíl, kerru, kylfum og öðrum nauðsynjum og alls staðar er klúbbhús þar sem njóta má veitinga.

Lopesan Meloneras Golf

Einn sá allra nýjasti er þessi völlur við Meloneras ströndina á Maspalomas. Hann er bæði víður og flatur enda hannaður sérstaklega með tilliti til þess mikla fjölda eldri borgara sem hingað koma reglulega og vilja spila. Hótelgestir hafa forgang á aðra sem hér vilja spila en hringurinn að vetri til kostar manninn rúmar 15 þúsund krónur að vetrarlagi en fer niður í 11 þúsund yfir sumartímann. Heimasíðan.

Salobre Golf Resort

Hér er um tvo velli að ræða en þeir reknir af og tengdir samnefndu hóteli. Þeir heita svo mikið sem gamli völlurinn og nýi völlurinn. Sá gamli var opnaður 1999 en sá nýji 2008. Báðir eru mjög góðir og nokkuð krefjandi og sérstaklega sá nýi. Salobre stendur dálítið hátt og iðagrænn völlurinn skapar mikla andstæðu við þá þurru eyðimörk sem hér er í kring. Hringur hér kostar tæplega 13 þúsund krónur og enn dýrara að spila yfir jólahátíðina þegar prísinn skoppar upp í 16 þúsund á mann. Heimasíðan.

El Cortijo

Þessi völlur finnst skammt frá höfuðborginni Las Palmas og vinsæll meðal borgarbúa sem þýðir að bóka verður með töluverðum fyrirvara hér ellegar nýta sér þjónustu golfbókunarfyrirtækja. Þessi er skrambi erfiður. Grínin jafnan eiturhröð og ekki bætir úr skák að hér eru ein sex vötn og yfir 600 pálmatré sem geta auðveldlega sett stórt strik í reikning kylfinga. Hringur hér kostar manninn kringum 14 þúsund krónur að vetrarlagi en dettur niður í rúmar 8 þúsund krónur þess utan. Heimasíðan.

Las Palmeras Golf Club

Þetta er reyndar aðeins smávöllur, allar brautir par 3, en æði vel staðsettur í Las Palmas sjálfri svo stutt er að fara ef fólk dvelur þar. Ýmsir setja þennan niður sökum þess hve lítill hann er en það verður að segjast að bæði er ódýrt að spila hér og þrátt fyrir smæðina er hann mjög krefjandi. Hér reynir verulega á stutta spilað og er það ekki hausverkurinn hjá okkur flestum. Hringur kostar niður í 2.500 þúsund krónur og yfirleitt nægir að mæta bara og hefja leik. Heimasíðan.

Anfi Tauro Golf

Á Tauro svæðinu, 20 mínútur til vesturs frá Playa del Inglés, er að finna þennan nýja fína völl sem liggur að hluta í stóru gili með frábæra útsýn til strandar. Þessi völlur er með þeim erfiðari, vötn víða og pálmatré byrgja sýn á mörgum brautum og hæðarmunur er töluverður. Það heillar marga því enginn völlur á Kanarí fær betri einkunn en þessi. Hringur að vetrarlagi kostar um 16 þúsund krónur en fellur niður í 10 þúsund að sumarlagi. Óhætt er að bæta við 4 þúsund krónum fyrir golfbíl að auki enda nánast nauðsyn. Heimasíðan.

Maspalomas Golf Club

Þennan þekkja líklega margir enda mitt á milli Playa del Inglés og Maspalomas og kominn til ára sinna enda að nálgast fimmtugsaldur. Hann er að hluta byggður á hinum frægu sandöldum Maspalomas og þess vegna mun mýkri að spila en aðrir vellir hér. Nokkur vötn hér gera leik erfiðan og stórar glompur eru skeinuhættar. Hann þykir orðinn dálítið lúinn en á móti kemur að hann er svo flatur að afar auðvelt er að spila hann. Hringurinn kostar manninn 15 þúsund að vetrarlagi en rúmar 7 þúsund krónur að sumarlagi. Heimasíðan.

Real Las Palmas Club de Golf

Hann er kannski ekki sá allra besti þessi en enginn völlur hér er á stórfenglegri stað en þessi konunglegi klúbbur höfuðborgarinnar. Það fyndna við það heiti að völlurinn er alls ekkert í Las Palmas. Hann er staðsettur uppi í fjöllum, nánar tiltekið á barmi einhvers fallegasta gígs sem finnst á Kanarí: Bandama-gígnum. Hér getur verið flókið að spila því meðlimir hafa forgang og sömuleiðis hótelgestir nálægs hótels. Verðmiði per hring er 14 þúsund að vetrarlagi en um 9 þúsund að sumarlagi. Heimasíðan.