Skip to main content

N okkur þúsund Íslendingar halda til Tælands árlega og enda oftar en ekki á Phuket og þar í nágrenni og mörgum klæjar í puttana að komast í golf við kjöraðstæður.

Tæland er frábær staður til golfiðkunar en hringur hér kostar vænan skilding. Mynd prempcc

Tæland er frábær staður til golfiðkunar en hringur hér kostar vænan skilding. Mynd prempcc

Phuket er stórkostlegur staður en úttekt Fararheill.is á þeim golfvöllum sem á Phuket finnast leiðir í ljós að ódýrasti hringurinn kostar kylfinga rúmlega fjórtán þúsund krónur þegar þetta er skrifað. Það er aðeins hringurinn en ofan á það bætist leiga á golfbíl, sem víðast er skylda, og þjórfé fyrir kylfubera sem einnig er víðast hvar skylda að hafa með.

Tuttugu þúsund krónur á mann er ekki fjarri lagi þegar allt er talið. Það segir sig sjálft að par eða hjón hanga ekki lon og don á vellinum þegar allt að 50 þúsund krónur hverfa við hvern hring þegar nesti og nýir skór eru meðtaldir.

Það hentar kannski veskjum þeirra útrásarvíkinga sem náðu að koma eigum sínum undan áður en bankarnir hrundu 2008 en varla margra annarra.

Kemur því annað af tvennu til greina; að spila ekkert golf í Phuket og byggja fremur sandkastala á ströndinni eða slappa af heima og sleppa ferðinni alfarið. Það gildir nefninlega hið sama um alkóhólista og kylfinga að hvorugir eru ýkja færir um að standast freistingar á erlendum grundum.

Annars nýta rekstraraðilar golfvallanna í Phuket sér öll tækifæri til að hirða peninga af kylfingum. Dæmi um það er að greiða þarf sérstaklega fyrir hvern þann sem fylgir hópnum en spilar ekki; til að mynda eiginmaður eða eiginkona sem labbar með. Það gjald skjagar langleiðina upp í gjaldið fyrir að spila.

Vellirnir sem um ræðir eru eftirtaldir:

Blue Canyon Country Club – þar eru tveir vellir til boða og báðir á heimsmælikvarða.

Laguna Phuket Golf Club

Thai Muang Beach Golf & Marina

Phuket Country Club

Loch Palm Golf Club – Tveir vellir standa til boða þar.

Mission Hill Phuket Golf Club