Eðlileg afleiðing af innrás erlendra ferðamanna til Mallorca síðastliðin 20 ár er sprenging í fjölda golfvalla á eynni en þeim fjölgar mjög ört ára á milli. Eru golfvellir á eynni nú 22 talsins og minnst fjórir aðrir í byggingu.

Því miður fyrir landann er illfært orðið til Mallorca því  innlendar ferðaskrifstofur hafa dregið verulega úr beinum ferðum á þessar slóðir og óvíst hvort Mallorca þykir boðlegt að nýju í náinni framtíð.

Yfir vetrarmánuðina er hægt að spila hér golf á ódýrustu völlum fyrir um átta þúsund krónur en eftirspurn er næg þegar líða fer á sumar til að punga þarf út tíu til fimmtán þúsundum fyrir ánægjuna af einum einasta hring.

Sé hugmyndin að fara einhvers konar hópferð og spila nokkra velli er hægt að spara einhverjar upphæðir með að bóka gegnum aðila sem sérhæfa sig í golfferðum hingað.