H efði maður forvitnast um höfuðborg Skotlands hjá ferðalöngum fyrir 20 árum síðan eru meiri líkur en minni að borgin hefði fengið falleinkunn. Glæpir voru þar einna tíðastir í allri Evrópu, mengun út úr öllu korti og heimamenn sjálfir þóttu lítt gestrisnir ólíkt því sem gerðist utan borgarinnar. Það eina jákvæða við borgina virtist vera hvað hægt var að gera ótrúlega fín kaup þar miðað við verslanir á Fróni.
En 20 ár er langur tími í lífi borgar og óhætt er að fullyrða að yfirvöld í borginni sem höfðu verulegar áhyggjur af stöðu mála hér áður tóku til óspillta málanna og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Í dag eru glæpir vissulega enn til staðar en að mestu í stöku hverfum sem ferðamenn munu seint hafa eitthvað í að sækja nema verkamannablokkir sér heillandi.
Tekist hefur að minnka mengun og sót mikið og hafði þar mikið að segja að töluvert af þeim þungaiðnaði sem áður var í Glasgow hefur farið annað eða lagt niður starfsemi. Þá fer því ekki fjarri heldur að heimamenn séu farnir að líta ferðamenn öðrum og betri augum enda færir sá iðnaður nú fjölmörgum áreiðanlegar tekjur.
Glasgow er stærsta borg Skotlands og þriðja stærsta borgin á Bretlandseyjum með um milljón íbúa í kjarnanum og tæpar tvær þegar helstu úthverfi eru talin með. Það fer ekki framhjá neinum sem þangað fer í dag að borgin hefur sannarlega slitið öll tengsl við mengandi iðnað og stóriðju sem þar var uppistaðan því í dag eru undirstöðuatvinnugreinarnar þjónusta ýmis konar og ferðamannaiðnaður og menningarstarfsemi er þar furðu gróskumikil.
Hafi borgin einhvern tíma fallið í kram kaupglaðra Íslendinga í fortíðinni er alveg óhætt að endurtaka þann leik þegar og ef krónan okkar nær sér aftur á strik. Borgin er nefninlega ein besta verslunarborgin í Bretlandi fyrir utan London sjálfa. Aragrúi smærri sérverslana prýða götur Glasgow í viðbót við þeir hefðbundnu verslanir sem finna má í öllum helstu borgum heims. Miðborgin í heild sinni er lifandi og skemmtileg þegar veður leyfir. Öll helstu söfn borgarinnar eru þar og líka ókeypis og margt hægt að dunda á litlum bletti sem hentar ferðamönnum vel.
Samskipti við heimamenn fara mjög batnandi ef frá er talið að margir vel mæltir á enska tungu eiga í megnustu erfiðleikum að skilja rammskoskan framburð flestra. Enginn hefur þó dáið vegna slíkra vandræða svo vitað sé. Í raun er þó skoskur framburðurinn blanda af keltnesku og galísku auk tökuorða sem Skotar hræra saman eftir vild.
Nokkrir frasar sem vænlegt er að kunna:
• Aye – þýðir já
• Haw – þýðir hey í merkingunni að ná athygli einhvers.
• Ned – er slangur yfir vandræðaunglinga
• Tumshie – er slangur yfir vitleysing eða kjána.
• Baltic – þýðir að kalt sé í veðri.
Til og frá
Tveir alþjóðaflugvellir eru við Glasgow. Glasgow International Airport er sá stærri og veigameiri. Hann er í fjórtán kílómetra fjarlægð frá borginni. Einfaldasta leiðin frá þeim velli fyrir utan leigubíla sem nóg er af er með Arriva 500 vagninum sem fer fram vellinum beint í miðbæ Glasgow með tveimur stoppum við báðar helstu lestarstöðvar borgarinnar. Fargjaldið aðra leið er um 1.200 krónur og tekur um 20 mínútur.
Annar möguleiki er að taka tvo vagna sem eru hluti af strætókerfi borgarinnar. Vagnar númer 747 og 757. Fyrir dagpassa í þessa vagna og flesta aðra í borginni greiðast 950 krónur en þá er hægt að skipta eins oft og þörf er á og fara um alla borg á þeim miða innan sólarhrings. Aðeins fimmtán mínútur eru milli vagna.
Hinn flugvöllurinn,Glasgow Prestwick, er öllu minni og helst notaður af lágfargjaldaflugfélögum. Þaðan er hægt að taka lest alla leið inn í miðbæ og fara tvær lestir þaðan á hverjum klukkutíma. Tekur ferðin 45 mínútur.
Samgöngur og skottúrar
Sé hugmyndin að slaka og njóta mælir Fararheill.is með að sleppa öllum vélknúnum ökutækjum og rölta þegar þess er þörf. Sérstaklega ef hugmyndin er að dúlla sér að öllu leyti í miðbænum.
Sé ævintýraþráin sterkari en það er jarðlestakerfi borgarinnar, subway, auðvelt og þægilegt. Fara lestirnar hring um allan miðbæ Glasgow og koma að auki við í West End sem er háskólasvæði borgarinnar og það mest lifandi að miðborginni frátalinni. Kerfið er einfalt og auðlært og hvert stakt far kostar 250 krónur.
Strætókerfið er gott hér og ferðir vagna tíðar. Að meðaltali líða aðeins tíu mínútur milli vagna yfir daginn en allt upp í hálftíma þegar kvölda tekur. Leiðakerfið og tímar hér. Hafið í huga að ekki allir vagnar stoppa alltaf á sínum stoppustöðvum í miðbænum. Fargjald er og gæta þarf þess að hafa rétta skiptimynt.
Tvær tegundir leigubíla starfa í borginni. Annars vegar þessir hefðbundnu svörtu bresku sem þú grípur þegar á þarf að halda en hins vegar leigubílar sem panta þarf sérstaklega. Eru þeir síðarnefndu ódýrari. Þá eru ótaldir harkarar sem bjóða ferðir með bílum sínum sérstaklega á næturnar þegar barir og klúbbar loka. Þá er hægt að fá talsvert ódýrari en þeir starfa ólöglega.
Til umhugsunar: Fjölmörg afsláttarkort eru í boði bæði í strætisvagna og lestirnar. Kosta þau frá 600 krónum og uppúr. Reynsla ritstjórnar Fararheill.is er þó sú að lítið er á þeim að græða þar sem flest áhugavert að sjá og skoða er á tiltölulega litlum bletti í miðbænum. Ekki er ýkja mikið að sjá eða upplifa sérstakt í öðrum hlutum borgarinnar að West End frátalinni. Þetta er þó ágætur kostur að hafa og sé dvalið lengur en viku í borginni er vikupassi farinn að borga sig.
Ratvísi
Glasgow er stórborg og auðvelt er fyrir ferðarfólk að mikla stærð hennar fyrir sér. Engu að síður er miðborgin tiltölulega lítil en þar er allt það helsta sem ferðamenn mögulega hafa áhuga að kynna sér. Auðvelt er að rölta um miðbæinn og engin þörf á bíl nema tími sé af skornum skammti. Helstu götur eru göngugötur fyrst og fremst og fótgangandi fá forgang á helstu umferðarleiðum. Hafið með borgarkort ef ætlunin er að vaða út fyrir miðbæinn. Sumir borgarhlutar eru verri en aðrir og ber að hafa það í huga.
Söfn og sjónarspil
Glasgow er merkilega listhneigð borg miðað við sögu hennar sem iðnaðarborg. Sjálf borgaryfirvöld reka ein tólf söfn og er aðgangur að þeim ókeypis. Tugur einkasafna er þar einnig.
>> Nýlistasafnið (Gallery of Modern Art) – Eitt besta safn sinnar tegundar í Bretlandi í hjarta Glasgow. Bókasafn, kaffi og internet í kjallaranum. Opið 10 – 17 mánu-, þriðju og miðvikudaga. 10 – 20 á fimmtudögum og 11 – 17 lauga- og sunnudaga. Aðgangur frír. Heimasíðan.
>> Transmission Gallery – Sett upp og rekið af ungu lista- og námsfólki sem fannst sér lítill gaumur gefinn hjá listasöfnum í borginni. Sýningar úr öllum áttum og safnið bæði framsækið og merkilegt. Heimasíðan.
>> Kelvingrove listagallerí og safn (Kelvingrove Art Gallery & Museum) – Ef þú heimsækir aðeins eitt safn í Glasgow veldu þá Kelvingrove. Hýst í stórglæsilegum kastala og innandyra finna flestir eitthvað við hæfi. Safnið er þjóðarsafn í eiginlegri merkingu og saga lands og þjóðar fyrirferðamikil í sýningum þess. Fróðlegt og skemmtilegt. Opið 11 – 17 alla daga. Frítt er inn á safnið sjálft en greiða verður fyrir stöku farandsýningar þess annars lagið. Heimasíðan.
>> Höll fólksins (People´s Palace) – Sögusafn um allt er viðkemur lífi fólks í Glasgow og nágrenni. Við höllina er Vetrargarður sem ljúft er að labba um. Opið alla daga 11 – 17. Aðgangur ókeypis.
>> Provands Lordship – Elsta standandi byggingin í Glasgow frá árinu 1471 stendur efst í Castle stræti. Húsið er nú safn um liðna tíma en vart fyrir nema alhörðustu áhugamenn um gamla menningu.
>> Clyde viðburðahúsið (The Clyde Auditorium) – Stórglæsilegt og framúrstefnulegt tónlistar- og ráðstefnuhús sem kallað er Armadillo af heimafólki. Sýningar og uppákomur þar nánast alla daga. Heimasíðan.
>> Georgstorg (George Square) – Eitt aðaltorg Glasgow beint fyrir framan Ráðhúsið. Mikið mannlíf þar jafnan og sérstaklega þegar mikið stendur til eins og um jól, áramót eða hásumar. Uppákomur tíðar og margt að sjá.
>> Heilanman’s Umbrella – er gamalt heiti yfir stálbrú á aðalbrautarstöðinni í Glasgow. Afar þekkt kennileyti en afskaplega takmarkað að sjá eða upplifa fyrir gesti í borginni. Nafnið er tilkomið vegna þess að þar vart þurrt og aðkomufólk hittist þar gjarnan á árum áður.
>> Kaupmannsborg (Merchant City) – Örskammt frá verslunargötum Gullnu Zetunnar er að finna Kaupmannsborgina. Er það einn elsti hluti borgarinnar og þar hafa verslunareigendur tekið sig saman um að skapa sérstaka umgjörð um hverfið sitt. Eru þar verslanir, veitingastaðir, barir og gallerí auk götusala, markaðar og af og til fer þar fram Kaupmannshátíð. Mikið um að vera og stutt að fara. Allar upplýsingar hér.
>> Ráðhúsið (City Chambers) – Ein glæsilegasta byggingin í borginni og þótt víðar væri leitað. Hýsir borgarráð Glasgow en daglega eru skoðunarferðir í boði og þær eru aldeilis þess virði. Fyrir smærri hópa eða einstaklinga eru slíkar 45 mínútna ferðir í boði tvisvar hvern virkan dag kl. 10:30 og 14:30 og eru ókeypis. Lokað um helgar.
>> Necropolis – er gamall grafreitur við hlið Dómkirkjunnar í Glasgow. Fallegur garður og fjöldi skúlptúra og stytta eftir fræga hönnuði er þar að finna. Opið frá 7 á morgnana meðan ljós lifir. Heimasíðan.
>> Red Road Flats – sé arkitektúr eða niðurníðsla að höfða til þín gæti verið gaman að sjá risablokkirnar sem þarna standa. Byggðar 1970 og voru og eru stærstu verkamannablokkir í heimi. 2003 voru þær seldar einkafyrirtæki en lítið hefur breyst síðan.Þá má fylgja sögunni að kringum þær allar eru glæpir algengir. Sjá myndband hér.
>> Hreyfilistagalleríið – (Glasgow Sharmanka) – Sérstakt safn hreyfilistamuna í smærri kantinum. Safnið hlotið einstök viðbrögð og þykir afar forvitnilegt. Heimasíðan.
>> Doulton gosbrunnurinn (The Doulton fountain) – Stærsti gosbrunnur heims sem aðeins er byggður úr leir. Nýuppgerður og listasmíð á alla kanta. Stendur fyrir framan Höll fólksins.
>> Listaskólinn í Glasgow (Glasgow School of Art) – Frægur listaskóli og þar var nemi Charles Rennie Mackintosh sem þekktur er í Glasgow sem einn helsti arkitekt borgarinnar. Hann hannaði skólahúsið. Heimasíðan.
>> Háskólinn í Glasgow (University of Glasgow) – Einn besti háskóli í veröldinni og verið starfræktur frá árinu 1451. Bygging skólans mikil og falleg. Óhætt að skoða hvenær sem. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Þúsundir Íslendinga flykktust til Glasgow hér um árið til að gera góð kaup enda íslenskar verslanir fáar og fákeppni meira ríkjandi en nú. Glasgow er töluvert betri verslunarborg í dag en þá en kannski ekki fyrir Íslendinga enda á krónan litla sér lítils gegn evrunni nú um stundir.
Sé engu að síður peningur í veski og vilji til að eyða þá er ekkert annað svæði sem kemur til greina en Gullna Zetan. Gullna Zetan kallast flottasta og dýrasta en um leið fjölbreyttasta verslunarsvæði Glasgow en það samanstendur af Argyle, Sauchiehall og Buchanan strætum. Það er einmitt á Argyle stræti sem aðallestarstöð borgarinnar stendur. Á þessum bletti má finna allar tegundir verslana, miðstöðva og kjörbúða sem henta mismunandi þykkum veskjum.
View Verslunargötur Glasgow in a larger map
Barrowland, eða Barras eins og heimamenn kalla hann, er flóamarkaður innandyra á borð við hið íslenska kolaport. Áður fyrr var hægt að versla þar beint vörur frá bændum og grænmetisframleiðendum en nú á dögum er sala ólöglegs varnings þarna allsráðandi. Er áhugavert að kíkja en vasaþjófar og misyndismenn eru þarna fjölmennir og hafið því extra vara á við rölt þar. Lögregluyfirvöld gera rassíur þarna mjög reglulega en án sýnislegs árangurs. Í sömu byggingu er hið fræga Barrowland Ballroom sem er einn merkilegasti tónleikastaður borgarinnar. Markaðurinn er opinn allar helgar frá 10 – 17.
Djamm og djúserí
Eftirtaldir staðir eru í eða við miðbæ borgarinnar og þykja með þeim betri í borginni.
Matur og mjöður
Nægt framboð er af veitingastöðum í Glasgow. Gott úrval er í miðbænum öllum en sérstaklega í West End og Merchant hverfunum. Þá ber og að geta þess að Glasgow hefur nokkrum sinnum hlotið titilinn karrí höfuðborg Bretlands enda er þar gnótt indverskra staða. Einn vefmiðill sem bragð er að í þessu sambandi er www.5pm.co.uk en þar má panta borð á meirihluta veitingastaða í Bretlandi öllu og sjá að auki þá staði sem bjóða upp á tilboð eða annað sérstakt.
*Fararheill.is hefur þá reglu að mæla ekki sérstaklega með veitingastöðum eða hótelum einfaldlega vegna þess að smekkur fólks er misjafn og það sem starfsfólki Fararheill.is þykir framúrskarandi þarf ekki að falla öðrum í geð. Þá er og vonlaust að ná að dekka alla veitingastaði allra borga heimsins með góðu móti og því verða ábyggilega margir útundan við slíka upptalningu. Við biðjumst velvirðingar ef þér þykir það miður. Í staðinn bendum við þessa tvo vefmiðla sem sérhæfa sig í veitingastöðum: Britainsfinest.co.uk og Glasgoweating.co.uk