Þ eir sem til þekkja vestanhafs vita sem er að þar er golfvöllum skipt í tvo flokka. Almenningsvellir annars vegar og einkavellir hins vegar. Skal ekki koma á óvart að hringir á þeim síðarnefndu eru töluvert dýrari.
Fararheill hefur áður gefið það ráð til þeirra sem vilja spila golf í Bandaríkjunum að notfæra sér það ef þeir þekkja heimafólk því það getur sparað tugþúsundir fyrir gallharða golfara.
Á völlum sem flokkaðir eru sem almenningsvellir fá þeir sem framvísa skírteini þess efnis að vera búsettir nálægt þeim völlum aukalegan afslátt umfram það sem auglýst er á heimasíðum viðkomandi vallar. Getur munað allt að helmingi á verði.
En fyrir þá sem ekki þekkja mann og annan í Bandaríkjunum er samt ráð að halda á næsta almenningsvöll. Slíkir vellir eru ekki í einkaeigu og þar geta allir spilað sem áhuga hafa þó heimamenn hafi reyndar forgang fram yfir ferðafólk. Hringurinn kostar líka undantekningarlaust minna en á sambærilegum einkavelli.
Þessir vellir, public courses, eru margir hverjir engu síðri en frægari einkavellir. Við tókum saman nokkra slíka hér að neðan en hafa skal í huga að „ódýrt“ er teygjanlegt hugtak. Massachusetts er eitt dýrasta fylki Bandaríkjanna og verð á almenningsvelli tekur mið af því. Verðtékk tekið í ágúst 2016.
♥ RED TAIL GOLF COURSE >> Almenningsvöllur en nógu góður til að vera valinn besti golfvöllur fylkisins þrjú síðustu árin. Sé tekið mið af því að stöku mót á PGA- mótaröðinni fara fram í Massachusetts, þó ekki hér, eru það ekki lítil meðmæli. Hringur kostar frá 9.200 krónur með æfingaboltum og bíl.
♥ THE INTERNATIONAL >> Annar fyrsta flokks völlur sem þó er almenningsvöllur. Tveir vellir í boði, Oaks og Pines, og báðir fyrirtak en aðeins annar þeirra er opinn gestum og gangandi sísona. Það er Pines völlurinn og það kostar sitt að leika hring eða 16.300 krónur á þokkalegum tíma. Golfbíll innifalinn.
♥ BROOKLINE >> Enn einn sem þykir af bera er þessi hér. Hann er þó hræbillegur og þó margfalt betri en nokkuð sem í boði er heima á klaka. Hringur kostar frá 6.800 krónum en bíll kostar aukalega.
♥ SQUIRREL RUN >> Þessi dálítið fjarri Boston en fjarlægðin gerir fjöllin blá og gjöldin lág. Hringurinn á þessum ágæta velli á virkum degi aðeins 5.300 krónur. Bíll í viðbót kostar 1.400 krónur.
♥ SHAKER HILLS >> Annar stórfínn völlur og þessi fékk verðlaun 2013 sem besti völlur fylkisins frá Golf Digest tímaritinu. Átján holur með bíl frá 12.500 krónum.
♥ GRANITE HILLS >> Þessi var á lista Golf Digest 2012 sem einn af ómissandi völlum Bandaríkjanna. Aðeins hrapað niður á við síðan en fyrsta flokks engu að síður. Hringur með bíl 18.200 krónur á virkum dögum.
View Ódýrir golfvellir nálægt Boston in a larger map