V ínræktarferðir hafa um árabil notið vinsælda íslenskra sælkera sem erlendra og er engin tilviljun að víntúrismi er stór iðnaður í flestum stærri vínræktarhéruðum heims.

Krímskaginn í Úkraínu er velþekkt vínræktarsvæði innanlands en kannski ekki langt út fyrir landsteina.

Krímskaginn í Úkraínu/Rússlandi er velþekkt vínræktarsvæði innanlands en kannski ekki langt út fyrir landsteina.

En þó Bordeaux í Frakklandi, Napa dalur í Kaliforníu eða Rioja á Spáni séu allajafna á dagskrá vínáhugamanna og laumudrykkjufólks eru hér þrjár annars konar vínræktarferðir en fólk á að venjast.

♥ Úkraína – Það eru fimm héruð í Úkraínu þar sem vínrækt hefur verið stunduð síðan fyrir fæðingu Krists og eitt hérað sérstaklega þar sem vínið þykja barasta afbragð þó ekki hafi frægðin náð langt út fyrir landsteinanna. Það er við Yöltu á Krímskaganum (nú undir yfirráðum Rússa) en þar má finna velþekkta stofnun, Magarach Wine Institute, þar sem hægt er að dvelja í nokkra áratugi við smökkun. Þar eru á boðstólnum 20 þúsund mismunandi vín úr 3.200 mismunandi þrúgum.

Vínviður þrífst bærilega á heitum söndum Egyptalands þrátt fyrir reglulegan vatnsskort.

♥ Egyptaland – Egyptar framleiða engin ósköp af vínum en þau sem þar eru framleitt þykja afar sérstök og mörgum góð. Þrír helstu framleiðendur hafa allir vínekrur sínar við Mariout vatnið skammt frá Alexandríu sem er lítið annað en saltmýri í sjávarmálinu við Miðjarðarhafið. Saltur jarðvegurinn þykir skapa vín sem eru bæði afar sérstök á litinn en að sama skapi æði góð.

♥ Tæland – Flestir reka upp stór augu þegar þeir sjá tælensk rauð- og hvítvín í hillum verslana en hitastig og raki í landinu ætti að eðlilegu að gera vínrækt erfiða ef ekki vonlausa með öllu. En Tælendingar hafa ráð undir rifi hverju og rækta vín sín á nokkurs konar fljótandi vínekrum þar sem vatn flæðir endalaust í sérstökum áveituskurðum á milli vínviðarins. Vínrækt er takmörkuð og finnst helst í norðurhluta landsins nálægt Chiang Mai. Vínin flest fá engin sérstök verðlaun en sum þeirra hreint ágæt og þau kosta skid og ingenting.