Golfunnendur hafa síðustu misserin misst sig nokkuð yfir ágætum og ferskum golfferðum í boði hjá fyrirtækinu Icegolf. Allmargar fínar ferðir í boði á flotta velli sem ekki eru staðsettir sunnantil á Spáni. En drjúg er álagningin.
![Sannarlega glæsileg staðsetning fyrir golf. Mynd Thracian Cliffs](https://fararheill.is/wp-content/uploads/2016/09/thrac-400x200.jpg)
Sannarlega glæsileg staðsetning fyrir golf. Mynd Thracian Cliffs
Sá túr sem vakið hefur neista í golfurum á klakanum er vikulöng ferð til Varna í Búlgaríu. Nánar tiltekið á Thracian Cliffs Resort sem er fimm stjörnu gististaður og golfvöllur með stórkostlegu útsýni yfir Svartahaf. Ekki að furða að uppselt sé að mestu í túra Icegolf því völlurinn atarna er sannarlega glæsilegur og er með þeim allra bestu í austanverðri Evrópu. Hér er meðal annars leikið á evrópsku mótaröðinni og þar komast engir inn nema toppvellir.
Vikupakkinn hjá Icegolf með flugi til Köben og þaðan áfram til Varna og sömu leið til baka, með gistingu með hálfu fæði og sex hringjum á vellinum kosta mann miðað við tvo saman 223.400 þúsund alls eða 446.800 þúsund á par, hjón eða vini. Þar reyndar gert ráð fyrir að viðkomandi sé meðlimur í Icelandair Golfers og greiði því ekki sérstaklega fyrir flutning á setti til og frá eins og Icegolf setur hlutina fram. Kostnaðurinn er þó nokkur eða 8.900 krónur fyrir ársaðild að þeim klúbbi svo ekki er flutningurinn frír á nokkurn máta eins og gefið er í skyn.
Ferð þessi er að líkindum aðeins ætluð golfsjúklingum. Bæði er ekki mikill tími fyrir neitt annað ef spila á hring hvern einasta dag og jafnvel fleiri en einn. Það eru fjarri því allir sem það geta jafnvel þó golfbíll sé undir rassinum allan hringinn. Jafnvel harðasta fólk finnur fyrir þreytu og eymslum eftir þrjá til fjóra hringi á jafnmörgum dögum.
Þess vegna er ráð að skoða hvaða pakkar bjóðast á Thracian Cliffs gegnum erlenda aðila. Ekki kemur á óvart að enginn sem við fundum er að bjóða sex hringi á sex dögum. Aðrir gera sér grein fyrir að það er jú aðeins fleira að upplifa við Svartahaf en golf út í eitt. Okkur dettur í hug að elska, njóta, skoða eða versla en þó ekki endilega í þessari röð.
Við fundum til dæmis þetta:
![Vika og þrír hringir á Thracian Hills fyrir 67 þúsund á mann.](https://fararheill.is/wp-content/uploads/2016/09/thac1.jpg)
Vika og þrír hringir á Thracian Hills fyrir 67 þúsund á mann.
Einhver kann að benda á að þrír hringir sé bara djók. Alltof lítið golf þar í boði. En þá er líka hægt að bæta við hring eða hringjum eftir behag hvers og eins en aukahringur kostar hótelgesti tæplega þrettán þúsund krónur á mann. Bætum við þremur hringjum og förum sex alls og pakkinn þá kostar manninn 106 þúsund kall eða 212 þúsund á parið.
Sjáiði hvert við erum að fara með þetta? Ef dvölin með sex hringjum fæst niður í 212 þúsund þá má flugið kosta helv. helling til að koma ekki vel út í plús miðað við tilboð Icegolf.
Hvað kostar svo flug? Góðu heilli er auðveldlega komist til London héðan fyrir þetta 10 til 12 þúsund kall á haus aðra leið. Bætum við golfsetti og skjótum á að einstaklingur komist til og frá London fyrir 35 þúsund með golfsett og tösku báðar leiðir.
Frá London er beint flug til Varna í Búlgaríu og til dæmis hægt að rúlla þangað með Wizz Air næstu mánuði niður í 25 þúsund fram og aftur. Hendum inn golfsetti og tösku og við kringum 40 þúsund fram og aftur.
Leggjum nú saman pakkann og niðurstaðan er að við njótum Thracian Cliffs í vikutíma kringum þetta 180 til 190 þúsund krónur á mann. Samtals fyrir tvo: 360 til 380 þúsund kallinn.
Við getum meira að segja lækkað þessa upphæð og sleppt því að burðast með hundþungt golfsettið heimanfrá. Sett eru leigð hótelgestum fyrir 2500 kall á dag og við því sparað okkur gjald fyrir golfsett í fluginu og leigt það á staðnum.
Í öllu falli er hér um að ræða 80 til 100 þúsund króna sparnað með því einu að gera hlutina sjálf 🙂
Mínusinn þó sá að enginn er fararstjóri að halda í höndina og ekki er um að ræða hálft fæði heldur aðeins morgunverð. En síðan hvenær kostar góður kvöldverður í Búlgaríu stóran pening…