Skip to main content

Þ eir eru sennilega margir Íslendingarnir sem þekkja til danska bæjarins Hirtshals sökum þess að það er sá staður í Danmörku þar sem ferjan Norræna leggst að bryggju á leið frá Íslandi og Færeyjum í hverri ferð. Þar fer árlega fram hreint ágæt fiskihátíð svona aðeins í stíl við þá á Dalvík.

Litli fiskidagurinn. Eða dagarnir réttara sagt. Mynd Hirtshals Fiskefestival

Litli fiskidagurinn. Eða dagarnir réttara sagt. Mynd Hirtshals Fiskefestival

Þar reyndar þarf ekki að kúldrast í mörg þúsund manna röðum eins og stundum hefur verið uppi á teningnum í Dalvík. Einu gildir hversu frábærar hátíðir eru, of mikill mannfjöldi setur strik í reikning.

Það vandamál er ekki fyrir hendi í Hirtshals. Fiskidagar þar í bæ eru þrir talsins sem þýðir að engin örtröð og yfirgnæfandi mannfjöldi skyggja á partíið. Danirnir bjóða þar upp á smárétti úr hafinu, fiskmarkaður bæjarins er opinn og áhugasamir fá þar fræðslu, keppnir eru í hinu og þessu og hægt er líka að fá að fara stuttar sjóferðir með sjómönnum bæjarins.

Allt sem sagt æði ljúft á góðum degi en gallinn kannski sá að þegar kvölda tekur þarf að fara að greiða aðgang ætli menn sér að halda áfram gleði. Engar hræðilegar upphæðir samt eins og sjá má á heimasíðu hátíðarinnar hér. Ekkert til að aka langar leiðir eftir en ef þú finnur þig á þessum slóðum í lok júlí er óvitlaust að taka dag eða hálfan frá og njóta þess besta úr hafinu hér um slóðir.

Nánar má fræðast um þennan ágæta litla bæ hér.