Skip to main content

M örg okkar halda árlega til Kanaríeyja til dvalar og yndisauka og sá hópur er stór sem það gerir jafnvel oftar en einu sinni á ári. En skrambi fáir nota tækifærið til að flakka um þessar fallegu eyjar sem saman flokkast sem Kanaríeyjar.

Það tekur aðeins klukkustund að fara milli Kanarí og Tenerife með ferju. Mynd Juan Ramon Rodriguez

Það tekur aðeins klukkustund að fara milli Kanarí og Tenerife með ferju. Mynd Juan Ramon Rodriguez

Það er sérdeilis skemmtilegt að þvælast um eyjarnar og furðu einfalt og ódýrt í þokkabót. Kjörin leið til að brjóta upp hefðbundið strandlífið sem einkennir jú oftast nær ferðir til þessa hluta heimsins og mörg okkar fá leið á eftir nokkra daga.

Einhverjir mikla fyrir sér þvæling í fríinu en vissir þú að það tekur aðeins rétt rúma klukkustund að fara milli Kanarí og Tenerife með ferju? Tvær stundir að sigla milli Kanarí og Fuertaventura? Rétt rúma klukkustund að fara frá Tenerife til La Gomera svo fátt sé nefnt?

Slíkar ferðir eru nokkuð tíðar en allra best að þær eru, með fyrirvara og gegnum netið, nokkuð ódýrar líka. Hægt er að finna fargjald á mann frá Kanarí til Tenerife niður í 3.800 krónur. Tveggja stunda siglingin til Fuerteventura frá Kanarí kostar allt niður í 4.400 á mann aðra leið þegar þetta er skrifað en taka ber tillit til gengisins hverju sinni.

Þá er heldur ekki mikið dýrara að fljúga milli eyjanna. Með nokkurra vikna fyrirvara má þar finna fargjöld niður í fimm til sex þúsund krónur aðra leið og flugtíminn nánast grín. Um 30 mínútur tekur að skottast frá Tenerife Sur til Kanarí svo dæmi sé tekið.

Slíkt flakk gæti líka verið kjörið fyrir þá sem vilja ferðast ódýrt og skipuleggja eigin ferðir. Kjörið sökum þess að um árasekið hafa hin ýmsu flugfélög boðið upp á reglulegt áætlunarflug til bæði Tenerife og Kanarí. Sem þýðir að það getur verið lægra verð út til Tenerife með einu flugfélaginu en svo aftur mun ódýrara með hinu flugfélaginu til baka til Íslands frá Kanarí. Með þeim hætti má skoða báðar eyjur og fljúga til og frá á lægsta mögulega gjaldi.

Svo má heldur ekki gleyma fyrir þá sem nógan hafa tímann og drjúga heimild á kortinu að margir láta vel af því að sigla frá Spáni til Kanaríeyja. Daglegar siglingar eru á milli með minnst tveimur ferjufélögum og þótt skipin séu ekki í lúxusklassa er siglingin ljúf og góð og af því hefur Fararheill reynslu. Það er þó lítt sniðugt fyrir marga því sigling fram og aftur fæst ekki undir 80 þúsund krónum á mann miðað við tvo í innri káetu. Sem er heldur mikið að okkar mati.

Þau þrjú skipafélög sem ferja fólk milli eyjanna hér eru Naviera Armas, Fred Olsen og Trasmediterranea. Tvö flugfélög þvælast milli eyjanna en Binter þar fremst jafningja.