V issulega er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um nokkra fimm stjörnu staði í næsta nágrenni við Parísarborg. Það er jú ekki eins og sú borg ein og sér bjóði ekki upp á töluvert meira en meðalmaður kemst yfir á einni ævi. Hvað þá í skemmri ferðum.

Það ætlum við samt að gera. Ekki síst vegna þess að sé einhver stór mínus á París og öðrum stórborgum, þá fá sumir upp í kok af malbiki, hávaða og erli hversdagsins. Slíkt ekki endilega mjög afslappandi sem er einmitt stór hluti þess að við ferðumst.

En líka sökum þess að þessir fjórir staðir munu allir auðga líf þitt þó ekki nema augnablik og kannski meira.

VERSALIR Allir hafa heyrt um Versali. Nú síðast sennilega þar sem frönsk stjórnvöld íhuga að breyta hluta þessa gríðarmikla mannvirkis í hótel. Það væri afleitt en peningar tala í vestrænum heimi svo við skulum gera ráð fyrir að það verði að veruleika.

Það enn veigameiri ástæða til að drífa sig og berja staðinn augum. Honum verður ekki gerð nein merkileg skil í orðum. Upplifunin af rölti um ganga eftir ganga sem hver um sig er svo mikilfenglegur að sumir ferðamenn komast bókstaflega við er ólýsanleg. Ekki síður er ævintýri líkast að ganga um gríðarmikinn garðinn hér og þá helst að sumarlagi þegar allt er í blóma. Það líka upplifun sem geymist en ekki gleymist.

Ferðahandbækurnar segja allar að Versalir séu aðeins í 30 mínútna fjarlægð frá París. Það er fræðilega rétt ef þú ert bílandi og engin er umferðin. En flestir taka lest eða rútu og sá túr tekur vart undir 45 mínútum. RER lestir fara frá miðborginni langleiðina að Versölum (merkt Versailles Chateau eða Versail.Chat) og sá túr kostar rétt tæpar þúsund krónur.

Versalir

Annað stórkostlegt mannvirki er þetta hefðarsetur í 50 mínútna fjarlægð frá París. Líkt og með Versali er óhægt um vik að koma orðum að hversu magnað þetta fyrirbæri er. Einnig líkt og við Versali er óhætt að taka frá hálfan dag hið allra minnsta.

Það er lágmarkstími til að taka inn nema brot af þeim 1900 herbergjum og sölum sem finnast í Fontainebleau. Hvert og eitt þeirra skreytt í hólf og gólf af færustu mönnum á sínum tíma. Það mátti ekki minna vera því þeir sem hér hafa annaðhvort búið sér heimili eða dvalið hér ítrekað teljast flestir eða allir til aðalsins í Evrópu langt aftur í aldir. Þar má nefna Medici fólkið, Lúðvík konung og Napóleón vitaskuld.

En aðdráttaraflið einskorðast ekki við byggingarnar. Garðar Fontainebleau eru ekki síðri og komi einhver beint hingað frá Versölum má kannski sjá einhvern svip. Það helgast af því að sami hönnuður skipulagði garða beggja og tókst vægast sagt vel upp. Í ofanálag má hér líka finna Fontainebleau skóginn. Stór og mikill og afar vinsælt útivistarsvæði.

Fontainebleau er ekki lengra frá París en svo að setrið og samnefndur bær tilheyra Parísarumdæmi. Hingað tekur samt 40 mínútur að komast með lest og smá labbi í þokkabót. Frá Gare de Lyon skal finna lestir hvers endastöð er Migennes, Montargis, Montereau eða Sens. Þær lestir stoppa allar á Fontainebleau-Avon þar sem þú vilt fara úr. Frá lestarstöðinni er hægt að ganga að höllinni en það tímafrekt. Nær lagi að taka rútu númer eitt sem stoppar fyrir utan Fontainebleau. Ef hópurinn er stór getur borgað sig að kaupa pakkaferð á staðinn í París.

Fontainebleau

Nafnið Picardy eða Picardie á frönsku hringir kannski engum bjöllum. Það er samheiti yfir töluvert landsvæði til norðurs af París þar sem finna má marga af þessum yndislegu litlu þorpum og bæjum sem margir heillast svo af. Ekki svo að skilja að hér sé ekkert sem fólk getur tengt við. Nöfn á borð við Agincourt eða Somme. Hér er líka Íslandsvinurinn Jules Verne í hávegum hafður en hann bjó og dó hér í borginni Amiens.

Hér er vænlegast að hafa bíl til umráða en ekki mikla vegalengdir fyrir þér. Til Amiens frá París tekur aðeins rúma klukkustund með lest svo dæmi sé tekið.

Við mælum sérstaklega með að eyða tíma í litlu þorpunum hér. Skiptir engu hvaða þorp enda þau öll jafn indæl. Heimamenn hér hjálpsamari en reyndin er víða annars staðar í Frakklandi.

Söguþyrstir komast í feitt hér um slóðir enda þessi hluti landsins þar sem barist var hvað harðast í Fyrri heimsstyrjöldinni. Í Somme létust tæplega 1,2 milljón manna í þeim átökum. Kirkjugarðar og minningarreitur eru hér víða þess vegna.

Dagstúr er vel mögulegur frá París en gáfulegra að taka tvo til þrjá sólarhringa og rúnta um á bílaleigubíl

picardy

Það er enginn ægilegur skortur á fallegum svæðum í Frakklandi og sitt sýnist hverjum um hvaða svæði er mest og best. En eitt nafn stendur þó oft upp úr í könnunum meðal Frakka sjálfra: Loire dalurinn.

Loire er lengsta á Frakklands og þar sem hún rennur hvað dýpst og skapar hvað fallegasta landslagið er aðeins í rétt rúmlega klukkustundar fjarlægð frá París með TGV hraðlest.

Á því svæði og í næsta nágrenni er að finna nokkrar æði fallegar borgir á borð við Tours og Orléans en ekki síður þorp og bæi sem eru sem klipptir úr gömlum ævintýrum. Það var vitaskuld í Orléans sem Jóhanna nokkur af Örk náði frægð og frama.

Hér má finna allmikið af ljómandi fallegum köstulum víða um héraðið. Þeir flestir í fallegum endurreisnarstíl og opnir ferðafólki að mestu. Vínbændur eru hér víða og opin hús hjá þeim nokkrum sinnum á ári.

Hér aftur er þörf á bíl til umráða til að fá sem mest út úr þvælingi en einfalt að leigja hann í borgunum hér og brúka svo hraðlestina til og frá París enda fólk töluvert lengur að aka þann spotta.

]Hraðlestir frá París eru klukkustund að Loire dalnum og lengst eina og hálfa klukkustund alla leið að Tours

Loire