Skip to main content

H öfuðborg Austurríkis er 100 prósent príma til að njóta lífsins og fá kalkúnafyllingu af kostulegum arkitektúr, gamaldags sælkerafæði og auðvitað anda inn sama lofti og allmargir af helstu snillingum fortíðarinnar. Snillum á borð við Freud, Beethoven, Mozart og Strauss svo fáir séu nefndir.

Það uppákomur í Vínarborg næstum alla daga ársins þó aldagamall jólamarkaðurinn taki sennilega kökuna.

Þar með ekki sagt að borgin séu fín í öllu tilliti. Austurríki og Vín sérstaklega er ekki sérstaklega vinsamlega veskinu þínu. Hér er allt undir sólinni í dýrari kantinum og nánast þarf umframheimild á kortinu til að negla einfaldan snúð í næsta bakaríi. Þá er heimafólk heilt yfir pínulítið snobbað ef við getum notað það leiðinlega orð. Sem þýðir að fólk er almennt ekkert mjög spennt fyrir erlendu ferðafólki og það ekkert yfirmáta auðvelt að kynnast hinum austurrísku Jóni og Gullu á flakkinu.

Við tókum saman nokkur korn sem þú ættir að leiða algjörlega hjá þér í Vín. Treystu okkur, þú verður betri manneskja fyrir vikið.

  • Sunnudagar eru hvíldardagar sagði Jesú Kristur og Biblían sennilega líka. Vínarfólk tekur þann kaflann bókstaflega og því er nánast ekkert opið í borginni á þeim dögunum. Okkur hjá Fararheill finnst þetta gott mál en fyrir marga verslunarelskendur er lífið varla þess virði að lifa ef ekki er hægt að bæta skópari og gullúri við safnið alla daga ársins.
  • Sunnudagar hvíldardagar fyrir flesta en ef þig langar að heimsækja eitthvert af þeim heimsklassa söfnum sem finnast í Vínarborg er mánudagurinn ekki dagurinn. Þann dag eru velflest, ef ekki öll, söfn borgarinnar og landsins, lokuð.
  • Vínarborg stendur þokkalega hátt yfir sjávarmáli og af þeim sökum getur orðið hér þokkalega kalt og það jafnvel yfir sumartímann. Taktu með þér eða keyptu sæmilegan klæðnað ef þú vilt njóta borgarinnar allan tímann sem þú ert hér.
  • Matarskammtar á veitingahúsum og reyndar í heimahúsum líka hér um slóðir eru næstum á pari við bandaríska skammta. Sem sagt fjórfalt það sem þú ættir að borða til að halda línunum svona sæmilega. Það auðveldara sagt en gert því bæði vill enginn leifa rándýrum mat og maturinn yfirleitt það góður að þú lætur þig hafa extra skammtinn. Sem auðvitað birtist á voginni þegar heim er komið.
  • Þú ferð ekkert langt í Vínarborg án þess að heyra um Spanischen Hofreidsschule eða spænska hestamannaskólann. Sá var lengi vel helsti og besti hestamannaskóli heims og hingað voru sendir prinsar og prinsessur og mikilmenni önnur öldum saman til að læra að ríða á heimsmælikvarða. Hér eru glæsilegir spænskir hestar, svokallaðir Lipizzaner hestar, enn þjálfaðir meira en Cristiano Ronaldo á hverjum degi og mörgum þykir mikið til koma. En það sem áður var sannarlega heimsklassa stofnun er nú ekkert annað en túristagildra dauðans. Hestarnir vissulega glæsilegir, húsakynnin mikilfengleg en punga þarf út frá 2.500 krónur og upp í tíu þúsund krónur fyrir hálftíma sýningarprógramm. Og þeir pakka inn fólki eins og Bláa lónið á sterum.