Hvað er til ráða þegar fólk hefur fengið upp í háls af London, París og Róm, komin með hreinan viðbjóð á Tenerife og Alicante og deyjum fyrr en við stígum fæti í tíunda skiptið í Kaupmannahöfn?

Bled í Slóvakíu er æðislegur staður og enn ekki pakkaður af ferðafólki. Mynd danieleemharms
Bled í Slóveníu er æðislegur staður og enn ekki pakkaður af ferðafólki. Mynd danieleemharms

Það er tiltölulega stór hópur Íslendinga sem ferðast hefur svo mjög undanfarin ár og áratugi að heita má að þau hafi séð flest markvert í Evrópu allri. Auðvitað er það ekki á færi margra en þeir sem eiga í vandræðum með að ákveða næsta áfangastað ættu kannski að lesa aðeins lengra.

Ritstjórn Fararheill er með fimm hugmyndir að stöðum utan þjónustusvæðis, ef svo má að orði komast, sem standast engu að síður fyllilega allar kröfur um eðaldvöl með vænum skammti af fróðlegheitum og skemmtun. Ekki er mínus heldur að verðlag er eðalfínt enda engir af neðangreindum að fyllast af ferðamönnum og verðlag miðast við við hefðbundna borgara.

Fjallasalir Kotor í Svartfjallalandi eiga sér fáa sína líka og verðlag í landinu hentar tómustu buddum

♥  BLED, Slóveníu – Í norðvesturhluta Slóveníu er að finna einn fallegast bæinn í Evrópu allri. Bled heitir sá og stendur við samnefnd vatn og við rætur Júlían Alpanna. Þarna eru vissulega ferðamenn á ferð en í litlum mæli og sé fólk ekki heltekið af náttúrufegurðinni þann tíma sem þarna er dvalist er tonn af afþreyingarmöguleikum í boði. Ýmis konar vatnasport á Bledvatni og gönguferðir, fjallklifur og eða skíðaferðir í Ölpunum fyrir ofan bæinn. Sé þann enn ekki nóg eru íbúarnir ennþá sérstaklega vinsamlegir og leggja sig í líma til að aðstoða og jafnvel kynnast fólki sem þar dvelur lengur en helgi. Þá er vart til meira kódak augnablik en róa út á Bled vatn og ná mynd af hinum glæsilega Bled kastala sem sannarlega á heima í ævintýrum.

♥  ORTA SAN GIULIO, Ítalíu – Vatnasvæði norður Ítalíu eru bæði velþekkt og vinsæl… nema þá helst Il Lago d´Orta, Orta vatn, sem tekur nafn sitt af litlum bæ við vatnið og er umkringdur á þrjá kanta af ítölsku Ölpunum. Hér eru einnig ferðamenn en ekki í stríðum straumum eða í þeim mæli að það eigi að fara í taugarnar á nokkrum manni. Hér er bæði friðsælt og hollt að vera því loftmengun sem er sífellt stærra vandamál víða í norðurhluta landsins nær hér ekki inn. Hafa stórmenni á borð við Friedrich Nietsche, Honoré de Balzac og ljóðskáldið Robert Browning allir misst sig við dvöl hér og allir skrifað um þá reynslu með stórum lýsingarorðum. Örstutt frá bænum úti í vatninu er eyjan San Giulio sem er agnarlítil en dásamleg.

Gamli miðborgarhluti Salamanca á Spáni er ótrúlega heillegur og vel dagsstundar virði að rölta bara um.

♥  SARANDA, Albaníu – Allir þekkja frönsku rivíeruna og þá ítölsku sem svo eru kallaðar sendnar strendur þessara landa við Miðjarðarhafið. Ölli færri þekkja albönsku rivíeruna við Jónahaf sem er á engan hátt síðri og jafnvel töluvert yndislegri rivíera en á Ítalíu og í Frakklandi. Saranda er Benídorm Albaníu með þeim blæbrigðum þó að útlendingar hafa ekki enn uppgötvað staðinn í massavís. Sé enginn áhuginn á að láta sólina baka sig á sólarströndu er enginn skortur á forvitnum hlutum að sjá bæði úr fortíðinni og ekki síður nútíðinni en Albanía er sem kunnugt er tiltölulega nýkomið inn úr kuldanum eftir að kommúnísk herforingjastjórn réði þar lögum og lofum um áratugaskeið. Hér er sem sagt Miðjarðahafsfílingur að frátöldum látum í frekum evrópskum börnum að deyja úr heimtufrekju og foreldrum sem láta það eftir þeim.

♥  SALAMANCA, Spáni – Salamanca er að heita mitt á milli höfuðborgarinnar Madríd og landamæranna að Portúgal á Íberíu skaganum. Borgin hefur það sér til mikils ágætis að eiga einhvern yndislegasta gamla borgarhluta sem fyrirfinnst á Spáni en vera þó í nægilegri fjarlægð frá öðrum helstu ferðamannastöðum í landinu til að þar geti fólk spásserað töluvert lengi um án þess að rekast á þá stóru ferðamannahópa sem of algengir eru í borgum Spánar. Fátt er yndislegra en gleyma sér og jafnvel villast oggustund í gamla borgarhlutanum sem er á skrá Sameinuðu þjóðanna yfir merkar heimsminjar í heild sinni. Þar sem sjá má margar forvitnilegar byggingar sem allir eiga sína merkilegu sögu og fremstur meðal jafningja er sennilega Háskólinn í Salamanca sem er elsti háskóli Spánar og sá þriðji elsti í Evrópu allri.

♥  KOTOR, Svartfjallalandi –  Bærinn og umhverfi hans allt eru á Heimsminjaskrá SÞ og auðvelt er að sjá hvers vegna af myndum einum saman. Stendur bærinn við samnefndan flóa sem ekki aðeins er svo fallegur að engin orð fá honum lýst heldur og stendur bærinn við afskekktan hluta flóans svo þar er friður og ró og það líka fyrir sterkum vindum sem stundum vilja hér blása. Hér er þó nokkuð um merkilegar minjar frá rómverskum tímum og sennilega einu borgarveggjunum sem eru meira heillandi en fráhrindandi í heiminum. Þá er ekki dapurt prógramm að vera hér þegar einhver af allnokkrum bæjarhátíðum fara fram en Svartfellingar kunna að skemmta sér og gestum sínum og fylla andrúmsloftið einskærri gleði.