Skip to main content

S kiptar skoðanir eru meðal ferðamanna á borginni London og hennar lystisemdum. Sumum finnst hvergi skemmtilegra að koma meðan enn aðrir geta ekki hugsað sér að stíga þar niður fæti. En hvað sem þeim skoðunum líður er vandfundinn betri staður í veröldinni til að njóta tónlistar og það þráðbeint af kúnni.

Hvort sem fólk telur sig tónlistarunnendur eður ei mun heimsókn í Royal Albert Hall seint gleymast

Hvort sem fólk telur sig tónlistarunnendur eður ei mun heimsókn í Royal Albert Hall seint gleymast

Það hefur alltaf verið mikil gróska í tónlistarlífinu í London. Velflest helstu tónlistartímarit heimsins hafa bækistöðvar sínar hér og fjölmargir þekktustu listamenn heims hófu feril sinn hér í borg.

Hér er úr nógu að moða hvern dag ársins sé hugur í mannskapnum fyrir lifandi tónlist en hér að neðan eru þeir fimm staðir sem ritstjórn Fararheill hefur persónulega langbesta reynslu af. Með því er átt við að á þessum stöðum er yfirleitt dagskrá fimm til sex daga vikunnar, stærri númer koma þar fram reglulega og húsin sjálf eðalfín til áhorfs og hlustunar.

*Sjá kort að neðan.

♥  O2 Academy Brixton  –  Um það eru flestir sammála að hér verður best notið lifandi tónlistar og ekki er verra ef hún er í háværari skalanum. Þetta hét áður Brixton Academy og er stofnun meðal tónlistarfólks enda hafa hér stigið á svið velflestir sem eitthvað hafa fram að færa í tónlistinni. Húsið gamaldags sem aðeins eykur sjarmann framyfir nýtískulegri hallir sem allar eru meira og minna eins. O2 Academy Brixton stendur við 211 Stockwell Road í Brixton hverfinu. Jarðlest að Brixton stöð og 5 mínútna labb.

♥  Royal Albert Hall  –  Þessa klassísku byggingu þekkja flestir sem þvælst hafa um London. Hér verður lúxusinn vart meiri í tónleikasal sem ekki er dónalegt því hér er yfirleitt boðið upp á klassískar perlur úr heimi óperu, sinfóníu auk þess sem aðrir jassskeggjarar rúlla á sviðið inn á milli. Höll Alberts er vitaskuld staðsett í Albertopolis hverfinu sem aftur er í suðurhluta Kensington. Jarðlest að South Kensington ellegar að Hyde Park Corner en frá báðum stöðvum er ljúfur spölur að tónleikahúsinu.

♥  Hammersmith Apollo  –  Í árafjöld hefur þetta ágæta hús gengt hinum ýmsu hlutverkum en árið 2009 opnaði hér undir nafninu Hammersmith Apollo eftir miklar breytingar og endurbætur. Húsið er nú vafalaust eitt allra besta tónlistarhús borgarinnar og trekkir vel að stærri stjörnur. Það finnst við Queen Carolina street í Hammersmith Broadway hverfinu. Jarðlest að Hammersmith og nokkur skref þaðan.

♥  Koko London  –  Eins og Hammersmith Apollo er þetta gamalt leikhús sem gegnum tíðina hefur gengt ýmsum misjöfnum hlutverkum. En síðan Koko kom til sögunnar árið 2004 er þetta orðið mekka margra sem njóta framsækinnar tónlistar en mjög ber á slíkum böndum hér. Camden High street við Regent´s Park. Jarðlest að Mornington Crescent.

♥  O2 Shepherds Bush Empire  –  Ætli Siggi Hlö að taka skrens í London gæti þessi staður passað honum. Afar vinsæll tónlistarstaður poppara sem komnir eru af léttasta skeiði og áttu ef til vill aðeins eitt merkilegt lag á ferlinum. Þess á milli koma reyndar merkilegri bönd hér fram. Húsið hundrað ára gamalt og var hannað og byggt sem tónlistarhús. Það er staðsett við Shepards Bush Green stræti og næsta jarðlestarstöð er vitaskuld Shepards Bush.


View Fimm bestu tónleikastaðir London in a larger map