F errari! Nafnið eitt sendir heitar unaðsgusur niður bak á velflestum bílaáhugamönnum. Ekki hefur áhuginn minnkað með frábærri frammistöðu þessara ítölsku bíla í kappaksturskeppnum víða um heim og líklega Formúla 1 þar allra þekktust þó Ferrari sendi bíla til keppni í fjölda annarra slíkra ár hvert.
Allt um það og miklu meira til má fræðast um í Ferrari safninu í smábænum Maranello sem er tæknilega séð úthverfi í ítölsku borginni Modena. Kveiki sú borg engar perur er ágætt að muna að hún er ekki ýkja langt frá Bologna.
Þangað er óhætt að senda alla bílaáhugamenn áhyggjulaust í nokkrar vikur ef því er að skipta enda mikið að sjá á safninu og stóru svæði Ferrari liðsins allt um kring en verksmiðjur bílaframleiðandans eru hér spölkorn frá. Kappaksturbrautir eru hér nokkrar sem og æfingabrautir. Sérstakt Ferrari kaffi og te er á boðstólnum í kaffiteríu og veitingastaður er að sjálfsögðu þar líka.

Safnið athyglisvert að utan ekki síður en að innan.
Þar er einnig hægt að leigja sér Ferrari og taka rúnt um nálægar sveitir í fáeinar klukkustundir. Það reyndar kostar að lágmarki 3,8 milljónir króna og ekkert eldsneyti innifalið þannig að best er að byrja að safna strax.
Á safninu ægir saman Ferrari bifreiðum frá öllum tímum auk allra þeirra stórkostlegu sportbíla sem fyrirtækið hefur selt auðplebbum um áraraðir. Síðast en ekki síst eru hér til sýnis nokkrir keppnisbíla Michael Schumacher úr Formúlu 1 en á slíkum bílum varð hann margfaldur heimsmeistari.
Safnið er opið alla daga . Heimasíðan hér.