„En Guð þarf líka að hjálpa leigubílstjórunum. Þeir þurfa jú að lifa eins og aðrir á þessari jörð.“ 

Stór hluti þeirra sem „ganga“ veg heilags Jakobs á Spáni labba ósköp lítið þegar til kemur. Mynd David Rodriquez Martin

Stór hluti þeirra sem „ganga“ veg heilags Jakobs á Spáni labba ósköp lítið þegar til kemur. Mynd David Rodriquez Martin

Svo mörg voru orð konu einnar sem blaðamaður hins þýska Der Spiegel hitti í smábæ einum meðfram Jakobsveginum fræga en ferðamálayfirvöld á Spáni tilkynntu fyrir skömmu þær fregnir að árið 2019 gengu fleiri einstaklingar veg hins heilaga Jakobs en hafa gert frá því að formlegar talningar hófust. Leið hins heilaga Jakobs er með öðrum orðum funheit gönguleið þessi dægrin (ef frá er talið Kófið.)

Sem var ekki ástæða sérstakrar umfjöllunar Spegilsins þýska heldur sú staðreynd að af þeim rúmlega tvö hundruð og tuttugu þúsund einstaklingum sem fengu heiðursstimpil kirkjunnar manna í Santiago de Compostela að 600 til 1.600 kílómetra gönguferð lokinni það ár, er talið að minnst helmingur þeirra hafi alls ekki gengið Jakobsveginn nema að örlitlum hluta. Stærstur hluti hafi stytt sér leiðina atarna með alls kyns bellibrögðum. Hvað heiðurinn sjálfan varðar ætti að nægja að benda fólki á að árið 1978 fengu aðeins þrettán einstaklingar kirkjustimpil í bók fyrir að ljúka Jakobsveginum frá A til Ö.

Vinsældir leiðarinnar þvert yfir norðurhluta Spánar eru slíkar að síðustu tíu ár hafa sprottið upp fyrirtæki sem sérhæfa sig í að ferja fólk og farangur milli staða á leiðinni svo pílagrímarnir þurfi nú ekki að hafa allt of mikið fyrir hlutunum. Ekki bara það heldur hafa leigubílstjórar nóg að gera að ná í ofurþreytta göngumenn og skutla þeim í næsta bæ. Nema erfið ganga er jú meginhugmyndin með að feta í fótspor heilags Jakobs.

Velgengni slíkra fyrirtækja slíkur að sífellt fleiri bætast í hópinn og hjálpa til með að fá þartilgerða stimpla á leiðinni til að viðskiptavinurinn geti nú sannarlega sagst hafa gengið langar leiðir og erfiðar þegar á leiðarenda er komið í Santiago.

Nei, kjósi fólk að fara hjáleið er samt sem áður hægt að fá nauðsynlega stimpla á leiðinni og auðvitað ef fólk fær nóg eftir einn kílómetra nægir að stökkva upp í rútuna og fá sér vatn og leggja sig jafnvel. Það er að segja kaupi fólk slíka þjónustu.

Allmörg fyrirtæki bjóða rútufylgd með smærri hópum og á leiðinni sér bílstjóri eða fararstjóri um að afgreiða þá stimpla sem þarf ef einhver fær nóg af labbinu. Rúturnar skutla svo fólki á almennileg hótel eða gistihús þegar dag tekur að skyggja enda lítt eftirsóknarvert að sofa á harðri dýnu í eldgömlu og óhituðu klaustri ásamt hundrað öðrum pílagrímum.  Þar er bara táfýla, hrotur og leiðindi. Mun skemmtilegra að eiga sitt herbergi og geta skroppið á bæjarpöbbinn í gott rauðvínsglas.

Sem kannski er ekki slæm hugmynd út af fyrir sig. En skrambi slæm ef fólk á annað borð ætlar sér að ganga veginn heilaga af fullri alvöru. Gangan á nefninlega að vera erfið. Fólk á að láta sig hafa þorsta og svengd og það langar leiðir til þess að finna sjálft sig og á endanum njóta og læra.

Heimafólk á fátækari hluta leiðarinnar er þó á því að rútu- og leigubílstjórar séu Guðs fólk líka og hagnist þeir á leti erlends göngufólks sé það í anda himnaföðurins sem vilji öllum vel.

Sem er niðurlag Spiegel sem spyr hvers virði sé að ganga í fótspor heilagra manna spottakorn dag hvern, hirða heiðurinn en í raun gera ekkert mikið öðruvísi en væri fólk í sólstól á Benídorm. Fararheill tekur undir með Der Spiegel: Það er svindl og ekkert annað.