S jaldan amalegt að stoppa í smáþorpum Þýskalands. Flest eiga þau sína sérstöku sögu og sinn eigin karakter jafnvel þó þorpin mörg virðist fjarska svipuð við fyrstu sýn. Það má sannarlega færa til sanns vegar þegar kemur að Rhodt unter Rietburg.

Fögur er sléttan. Þorpið Rhodt fyrir miðju fyrir neðan rústir gamals kastala.

Neibbs. Nafnið kveikir engar perur og það má reyndar til sanns vegar færa um héraðið sem þorpið er í. Rínarland er almennt eitt af minnst þekktu héruðum Þýskalands fyrir útlendinga. Stærsta borg héraðsins er Mainz svona til að setja hlutina í samhengi með sína tvö hundruð þúsund íbúa. Það er tómt krummaskuð sé haft í huga að Þjóðverjar telja alls 83 milljónir manna.

En Rínarlandið er að ná vopnum sínum á ný smám saman. Þetta var jú lengi vel, ásamt Ruhr-héraði til norðurs, vagga kolavinnslu í Þýskalandi. Vinnslu sem á ekkert skylt við hreina, fagra og heillandi náttúru. Sem er auðvitað meginástæða heimsóknar ferðafólks.

Kolavinnsla heyrir nú næstum alfarið sögunni til og hafi einhver áhuga á þeirri sögunni er brilljant að flakka hér um sökum þess að í stað þess að fjarlægja kolavinnslurnar hafa þær margar verið gerða upp og boðið upp á leiðsögn um svæðin. Kol auðvitað viðbjóður út í eitt en engu að síður sá orkugjafi sem hélt lífi í hundruðum milljóna um margra áratuga skeið.

Elsti vínviður heims

Einhvern veginn er töluverð mótsögn í því að mitt á milli mengandi kolanáma og verksmiðja skuli finnast þær vínekrur heimsins sem lengst hafa dafnað og gefið af sér. Nánar tiltekið vínviður sem hefur gefið ávexti sem aftur hefur verið breytt í vín linnulaust í tæp 400 ár.

Merkilegt ekki satt?

Komdu við í verslun hér um slóðir og finndu flöskur merkta Gewürztraminer. Ef heppnin er með finnurðu meðal þeirra flösku frá Rhodter Rosengärten. Það eru hvítvín sem hafa verið framleidd allar götur frá árinu 1600 af einum og sama akrinum. Bragðið kannski ekki allra en svíkur heldur engan mann 🙂

PS: Ef þú ert á þvælingi hér og ert ekki bindismaður eða kona er þjóðráð að prófa Pfalzer vínbúðing á næsta veitingastað. Það eðli máls samkvæmt búðingur af gamla skólanum en með drjúgri skvettu af hvítvíni. Sérdeilis ljúffengt.