Ferðaskrifstofan GB Ferðir auglýsir nú golfferðir til Skotlands með vorinu sem lóan kemur með aðeins fyrr til Bretlandseyja en okkar ylhýra föðurlands. Þar í boði nokkuð safarík dvöl á gömlu sveitahóteli við hlið tveggja fínna golfvalla að skoskum stíl og lágmarksverð á þriggja daga pökkum með golfi í vor 125 þúsund krónur á mann. En hægt er að negla sömu ferð mun ódýrara en það.
Sem fyrr segir er um þriggja daga ferðir að ræða á þessu sveitahóteli í um tíu mínútna fjarlægð frá Edinborgarflugvelli og um 15 til 20 mínútna fjarlægð frá miðbæjarstemmningu í borginni sjálfri. Æði margt innifalið; þar á meðal morgun og kvöldverður alla dagana plús fjórir golfhringir og er flogið með Icelandair í lok apríl á næsta ári. 250 þúsund krónur miðað við tvo saman.
En eru aðrar leiðir til að njóta golfs á þessum stað á sama tíma fyrir lægra verð? Sannarlega svo.
Fararheill leitar að flugi til Edinborgar og frá á sömu dagsetningum, 24. til 27. apríl 2014, hjá easyJet. Þar eru ferðir í boði og þegar bætt hefur verið við einni tösku á mann og einu golfsetti á mann kostar það ferðalag fram og aftur alls 65.781 krónur miðað við miðgengi 7. október 2013.
Því næst förum við á heimasíðu hótelsins þar sem meðal annars má finna golfpakka í boði. Þar finnum við ekki gistingu þrjár nætur og fjóra golfhringi en við finnum gistingu þrjár nætur og tvo golfhringi á sérstöku tilboðsverði samtals 115.988 miðað við gengi dagsins. Um sama díl er að ræða og GB ferðir bjóða; morgunverður og kvöldverður innifalinn auk sams konar herbergja.
Nú þykir Fararheill pínu súrt að halda erlendis og eyða öllum tímanum í golf þó skemmtilegt sé svo okkur líst bara vel á að eyða kannski einum degi í verslun í Edinborg eða rúnta um nálægar sveitir og þamba skoskt vískí beint frá framleiðendum. En ef svo vildi til að krafa væri um fjóra golfhringi er hægt að verða sér úti um aukahringi á vef Marriott þessa daga frá 20 pundum og upp í 40 pund.
Nískupúkarnir í Fararheill velja vitaskuld að golfa sem billegast og veljum rástíma sem fást á 25 pund. Tveir hringir á mann í viðbót kosta því 19.600 krónur í ofanálag.
Heildarkostnaðurinn við að fara þessa leið er fyrir tvo samtals: 201.369 krónur. Það þýðir að sá sem fer þessa leið í stað þess að bóka bara strax hjá GB Ferðum sparar sér 48.631 krónur. Sú upphæð dugar til dæmis vel til að leigja bílaleigubíl umræddan tíma eða kaupa aðeins dýrari gjafir í Edinborg en ætlunin var.
* Rétt er reyndar að hafa í huga að vél Icelandair fer mun fyrr af stað 24. apríl í þessu dæmi en vél easyJet svo sá tími nýtist aðeins betur. Á móti reyndar fer vél easyJet líka síðar af stað þann 27. apríl svo það jafnast aðeins út. Þá nýtur fólks trygginga gagnvart ferðaskrifstofum ef eitthvað bjátar á sem það nýtur ekki þegar ferðast er á eigin vegum.