Skip to main content

H vað gera borgaryfirvöld í kaldri og fráhrindandi borg lengst inni í landi til að trekkja að fleiri íbúa og ferðamenn? Þeir skipuleggja hátíðir eins og þeir eigi lífið að leysa og byggja svo risastórar afþreyingarmiðstöðvar svo fólk þurfi nú alls ekki að labba úti í guðsgrænni náttúrunni.

Það má vera að við séum of hörð gagnvart kanadísku borginni Edmonton en hreinskilni er ávallt betri kostur en hitt. Því móti því verður vart mælt að miðað við borg sem telur hartnær eina milljón íbúa er hér ótrúlega lítið að upplifa innan borgarmarkanna. Það sem er í boði er undantekningarlítið innandyra. Það þótt hér sé gríðarlegt landflæmi til norðurs þakið fallegum skógum, yndislegum plöntum og trjám og miklu dýralífi þá er iðnaður og sérstaklega olíuiðnaður er gera sig breiðan á afar stórum hluta.

Edmonton er höfuðborg Alberta héraðs og fimmta fjölmennasta borg Kanada og hér snýst lífið að langstærstu leyti um olíu, gas og íshokkí. Annað hvert fyrirtæki í borginni hefur eitthvað með umsýslu kringum olíu að gera en miklir tjörusandar eru hér allt í kring sem hægt er að vinna úr fyrirtaks olíu. Aukinheldur hefur gas fundist hér í jörðu og sá iðnaður er hratt vaxandi.

Borgin skiptist eiginlega í tvennt og er ánni North Sasketschewan um að kenna en hún rennur hér í gegn og skapar góða stemmningu meðfram bökkum sínum yfir sumartímann. Hafa skal í huga að heimamenn tala um allt í námunda við ánna sem „river valley“ eða árdalinn og eiga þá við byggingar eða skemmtanir við árbakkann.

Til umhugsunar: Edmonton er næsta viðbjóðsleg í desember, janúar og febrúar. Ekki viðbjóðsleg per se heldur kuldinn sem hér er. Hér er blásið í blöðrur liggur við þessa þrjá mánuði ef hitastig fer hærra en sex gráðu frost og tíu til fimmtán stiga frost nær lagi almennt.

Til og frá

Flugvöllur borgarinnar er Edmonton International Airport sem er þokkalega nútímalegur en ekki ýkja vel tengdur. Það er að segja að úrval flugferða héðan er nokkuð takmarkað svo það er ekki mikið á því að græða að halda för áfram innan Kanada eða til Bandaríkjanna.

Völlurinn er heldur ekki svaðalega vel tengdur borginni. Sé seðlabúntið í veskinu af skornum skammti eru fáir aðrir kostir en taka rútu númer 747 frá flugvellinum áleiðis að Century Park samgöngumiðstöðinni í suðurhluta borgarinnar. Þar verður að stíga frá borði og taka strætisvagn í réttan borgarhluta. Túrinn með vagni 474 kostar manneskju 480 krónur aðra leiðina. Strætisvagnar inn í borgina eru allnokkrir og leiðakerfið einfalt og auðskiljanlegt og miðaverð aðra leiðina með einum þeirra er 250 krónur. Þannig kemst fólk alla leið að hóteli sínu eða nálægt fyrir alls 730 krónur í heild aðra leiðina. Leiðakerfi strætisvagnanna hér. Frá Century Park gengur líka léttlest beint niður í miðbæ.

Önnur leið er að taka flugskutlu svokallaða eða Skyshuttle á máli frumbyggja. Sú fer beinustu leið að hótelinu en fyrir túrinn þarf að greiða 1.600 krónur á hvern fullorðinn plús 700 krónur á hverja stóra tösku. Tæplega 2.500 krónur eða svo aðra leið. Vænlegast er að bóka á netinu fyrirfram en annars eiga að vera skutlur við flugvöllinn mjög reglulega.

Ef þú ert aðeins að stoppa hér stutta stund er ráð að bóka bíl Sundog Tours sem er aðili sem ekur fólki rakleiðis í stærstu verslunarmiðstöð Norður Ameríku, West Edmonton Mall,  og út á flugvöll aftur. Rúnturinn ekki ókeypis eða 8.000 krónur á hvern fullorðinn aðra leiðina.

Bílaleigubílar er ágætur kostur ætli fólk ekki að stoppa í borginni og auðvitað eru hér leigubílar í tonnatali líka. Fast verð er á ferðum milli flugvallarins og miðbæjar Edmonton og er það 5.500 krónur.

Samgöngur og snatterí

Edmonton er engin risaborg en hún er mikil um sig að því leyti að hér er velmegun og íbúar flestir búa í sínum einbýlishúsahverfum sem ná í allar áttir. Góðu heilli eru fæstir ferðamenn komnir til að skoða einbýlishúsahverfi.

Almennt talað þarf lítt að nota almenningssamgöngur en sé þess þörf eru hér strætisvagnar og léttlestir á ferð. Sama verð í er lestirnar og strætó, 250 krónur, en gæta þarf þess að hafa nákvæmt mynt við höndina. Leiðakerfi strætó hér og leiðakerfi léttlestanna hér.

Til umhugsunar: Langi fólk rakleitt í West Edmonton Mall verslunarmiðstöðina eru vagnar 1, 2, 4 og 14 málið.

Söfn og sjónarspil

>> Konunglega listasafnið (Royal Alberta Museum)  –  Helsta listasafn borgarinnar er svona allt í lagi. Fátt hér til að missa hland yfir og reyndar ekkert en ágæt verk inn á milli. Hluti af safninu er náttúrfræðisafn sem gefur ágæta innsýn inn í náttúru landsins. Staðsett við 12845-102nd Avenue norðan Saskatchewan árinnar. Opið 9 til 17 daglega. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Þinghúsið (Government House)  –  Lítið er þingað í þessu opinbera þinghúsi Alberta fylkisins enda byggingin komin til ára sinna og þar eru nú aðallega haldnar samkomur og veislur auk þess sem hér er opið listasafn yfir daginn. Ágæt verk um alla veggi og óvitlaust að reka inn nefið á göngu. Segja má að þetta sé Höfði þeirra í Edmonton. Það stendur við 12845-102 Avenue. Opið daglega nema samkomur eigi sér stað. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Náttúrumiðstöðin (John Janzen Nature Centre)  –  Þessi miðstöð í árdalnum er velþekkt meðal íbúa hér og er í raun ætlað að fræða borgarbúa um dýralíf innan borgarmarkanna. Ágætt stopp á góðum sumardegi. Miðstöðin er opin allt árið og stendur við 7000-143 Street með aðgengi frá Fox stræti. Greiða verður 700 króna aðgangseyri sem er varla þess virði. Heimasíðan.

>> Dýragarðurinn (Valley Zoo)  –  Skiptar skoðanir eru um þennan litla dýragarð en borgaryfirvöld eru með á stefnuskránni að stækka hann og færa til nútímans en hann þykir of lítill bæði fyrir gesti en ekki síst fyrir dýrin sjálf. Ekki ýkja fjölbreyttur en ef smáfólk er með í för er til margt vitlausara en kíkja. Hann stendur í árdalnum á bökkum árinnar við Buena Vista stræti. Opið 10 til 17 daglega. Aðgangur aðeins 1.000 krónur fyrir fullorðna og 650 fyrir börn.

>> Sögugarðurinn (Fort Edmonton Park)  –  Þetta er líklega vinsælasti skemmtigarður borgarinnar en þó skemmtigarður með mjög sögulegu ívafi því hér er sögð saga frumbyggja Kanada sem og fyrstu hvítu mannanna sem hér settust að og gerðu sér heimili. Margt forvitnilegt að sjá og margt hér sett skemmtilega á svið fyrir þau sem yngri eru. Óhætt að mæla með hálfum degi hér hið minnsta ef veður er gott. Þessi garður líka staðsettur í árdalnum við Fox Drive. Strætisvagnar 595 og 596 aka hingað. Opinn 10 til 18 alla daga en garðurinn er lokaður yfir vetrartímann. Aðgangseyrir 1.800 krónur fyrir fullorðna. Aukakostnaður ætli fólk að prófa þau tæki og tól sem hér eru. Heimasíðan.

>> Flugsafnið (Alberta Aviation Museum)  –  Eins og nafnið gefur til kynna er hér saga flugs á þessum slóðum frá a til ö. Ekki stórmerkilegt í neinu tilliti en vissulega forvitnilegt fyrir flugáhugamenn. Um 40 vélar alls til sýnis. Opið daglega 10 til 18. Safnið stendur við 11410 Kingsway við hlið gamals flugvallar.  Aðgangseyrir 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> Vísindasafnið (Telus World of Science)  –  Stærsta vísindasafn í Kanada og sannarlegt margt að sjá, skoða og ekki síst fikta með. Sjö mismunandi svæði og sjö mismunandi viðfangsefni vísindanna tekin fyrir. Þá er hér IMAX kvikmyndahús þar sem vísindaboðskapurinn kemst mætavel til skila. Að síðustu eru hér farandsýningar reglulega sem fá afar góða dóma og þykir vel að þeim staðið. Fínt stopp fyrir alla. Opið 10 til 17 virka daga en 10 til 21 á föstu- og laugardögum. Fullorðnir þurfa að greiða 1.600 krónur fyrir aðgang en ungmenni lægra. Heimasíðan.

>> Listasafn Alberta (Art Gallery of Alberta)  –  Lítið en gott safn í miðborginni. Safnið er reyndar of lítið til að njóta mikils og almennt eru hér engar stórmerkilegar sýningar en byggingin sjálf er glæsileg og það er ekki leiðinlegt að eyða hér klukkustund eða tveimur. Opið 11 til 17 virka daga nema mánudaga þegar er lokað og miðvikudaga þegar opið er til 21 á kvöldin. Winston Churchill stræti. Heimasíðan.

>> Hawrelak garðurinn (William Hawrelak Park)  –  Annar mætafínn almenningsgarður í Edmonton er þessi hér sem er vinsælt athvarf heimamanna sjálfra á heitum sumardögum. Hér fara fram alls kyns viðburðir nánast viðstöðulaust meðan gott  er veður og þess utan er hægt að njóta lækja, tjarna og dýralífs og það í nægilegri fjarlægð til að heyra ekki ysinn og þysinn á götum borgarinnar. Þá er hér líka vinsælt skautasvell, útileikhús og golfvöllur finnst hér í nálægð. Opinn frá fimm á morgnana til 23 öll kvöld vikunnar. Garðurinn auðfundinn við Groat stræti. Heimasíðan.

>> Úkraínska þorpið (Ukrainian Cultural Heritage Village)  –  Lítið safn til minningar um það fólk sem kom alla leið frá Úkraínu á sínum tíma og settist hér að. Það byggði allmerkileg hús og líkt og Íslendingarnir annars staðar í landinu héldu sig töluvert út af fyrir sig. Forvitnilegt en ekki ómissandi og reyndar spottakorn utan við borgina eftir þjóðvegi 16.

>> Gamla Strathcona (Old Strathcona)  –  Segja má að í Edmonton séu tveir miðborgarkjarnar þar sem örlar á lífi flestum stundum sólarhringsins. Strathcona hverfið er hið skemmtilegra af þeim kjörnum en margir heimamenn sjálfir segja engan vafa leika á að hingað eigi gestir að koma til að njóta borgarinnar. Fyrir utan allnokkuð af skemmtilegum smærri verslunum hér, börum og klúbbum er hér líka að finna elstu hús borgarinnar og þeim flestum afar vel við haldið. Sérstaklega er mikið um að vera í Whyte stræti og þar er besta bændamarkað Edmonton að finna svo fátt sé nefnt.

>> Ráðhúsið (Edmonton City Hall)  –  Ólíkt kannski ráðhúsum flestum er þetta ráðhús við Churchill torgið nokkuð einstakt. Ekki aðeins er það undir fallegu glerþaki og hér fallegir gosbrunnar fyrir utan heldur og er margt annað um að vera undir glerinu en aðeins gráir borgarstjórnarmenn í jakkafötum. Hér er fínn veitingastaður þar sem allur ágóðu rennur til líknarsamtaka og hér er líka þessi fíni salur sem oft á tíðum er notaður undir skemmtilega viðburði. Hér er sett upp vinsælt skautasvell þegar kólna fer í veðri yfir vetrartímann.

>> Eimreiðarsafnið (Alberta Railway Museum)  –  Hingað verða allir lestaráhugamenn að koma og eyða nokkrum stundum. Hér er að finna safn elstu eimreiða og lesta fylkisins á einum stað og annað tengt lestarsamgöngum í landinu. Um margt skemmtilegt og smáfólkið ætti að hafa gaman af líka enda hægt að taka rúnt með þessum fornu tækjum. Aðeins opið um helgar á sumrin og þá á milli 10 og 17. Staðsett við 34.stræti. Aðgangseyrir 800 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Sé það eitthvað eitt sem gæti dregið fólk hingað sérstaklega er líklegt að stærsta verslunarmiðstöð Norður Ameríku hafi þar mikil áhrif en miðað við fjölda slíkra miðstöðva mætti halda að hér búi aðeins verslunarsjúkt fólk. West Edmonton Mall var lengi vel stærsti verslunarkjarni heims en það var áður en uppgangur hófst í Kína og víðar í Asíu þar sem stærstu miðstöðvarnar eru í dag. WEM er reyndar miklu meira en verslunarmiðstöð. Hér eru heilu skemmtigarðarnir, vatnsleikjagarður, stórt kvikmyndahús, leikhús, næturklúbbar og sædýrasafn svo fátt sér nefnt. Fyrir utan auðvitað einar 800 verslanir og allt heila klabbið undir einu og sama þakinu.

Einhverjum þætti nóg að hafa eina risaverslunarmiðstöð í Edmonton en því fer fjarri. Kingsway Mall er önnur þokkalega stór hér staðsett við 109 Street & Kingsway. Þriðja, Edmonton City Centre, er sú eina sem er á miðborgarsvæðinu og kannski einfaldast að heimsækja. Við 5015 – 111 Street er sú fjórða með aðeins 160 verslunum en það er Southgate Centre. Í vesturhlutanum er að finna Mayfield Common verslunarmiðstöðina. Þá eru enn eftir South Edmonton Common og Londonderry Mall.

Fyrir þá fáu sem enn kjósa að versla í verslunargötum eru þrjú svæði best til brúksins. Það er fyrrnefnt Old Strathcona og þar sérstaklega Whyte Avenue en þar eru á einu bretti um 600 söluaðilar með verslanir.  Downtown er svæðið kringum háhýsin kallað og þar eru töluverður fjöldi verslana. Til norðurs af Downtown er Chinatown þar sem kínverskar verslanir og aðrir smærri aðilar eiga sér samastað. Að síðustu eru 124 Stræti velþekkt verslunargata og þar margar dýrari verslanirnar á einum stað.

Tveir stórir og fínir markaðir eru starfræktir í Edmonton allan ársins hring. Annar í Old Strathcona alla laugardaga og City Market er í miðborginni, Downtown, og er opinn alla daga ársins.

Matur og mjöður

Segja má að bestu veitingastaði borgarinnar og mesta úrval veitingastaða megi finna á sömu svæðum og helstu verslanir finnast. Old Strathcona er líklega vinsælasta hverfið og þar eigi færri en 200 veitinga- og matsölustaðir. 124 Strætið er líka kjaftfullt af betri veitingastöðum og skyndibitastaðir inn á milli. 104 Stræti þykir mest inn þessi dægrin enda þar að opna hvað ferskustu staðirnir og kringum Downtown eru mökkur af veitingastöðum líka.

Sex staðir sem allir fá fína dóma frá viðskiptavinum á vefmiðlunum Yelp, Tripadvisor og Foundlocally eru:

Líf og limir

Glæpir eru nokkrir hér eins og í öðrum stærri borgum Kanada en fáir ferðamenn þurfa að hafa miklar áhyggjur af því. Eitt og eitt svæði eru ekki upp á marga fiska en þau eru fjarri þeim stöðum sem ferðalangar heimsækja. Þó þykir mörgum lítt spennandi að hanga mikið á Whyte Avenue langt frameftir nóttu. Þó þar sé mikið af fólki og gott að vera á kvöldin eru útigangsmenn hér margir og ágengir á stundum. Sömuleiðis eru slagsmál töluvert algeng.

Svæðið við Churchill torgið í miðbænum er helsta vinnusvæði þjófa og kannski einna helst þar sem ferðafólk ætti að hafa varann á sér eða sleppa því að geyma verðmæti á sér. Þá er svæðið kringum West Edmonton Mall ekki spennandi eftir lokun en þar safnast oft saman hópar sem hafa lítið gott í hyggju. Þar eru næturklúbbar og erfitt getur verið að fá leigubíl þar seint á næturnar.