Þ ó margir telji íbúa á höfuðborgarsvæðinu stálheppna að eiga tvö fín skíðasvæði, Bláfjöll og Skálafell, í um hálftíma fjarlægð eru íbúarnir ekki svo heppnir að eiga skíðasvæði innan borgarmarkanna. Það eiga hins vegar Oslóbúar.

Aðstaðan í Tryvann í Osló er príma á alla kanta og sérstaklega góð aðstaða fyrir smáfólk og skíðabrettaunnendur. Mynd GU-JO
Tvö eðalfín skíðasvæði finnast nefninlega í Osló og tekur aðeins 20 mínútur að komast þangað frá miðborginni og það hægt með strætó í öðru tilfellinu.
Um er að ræða Oslo Vinterpark í Tryvann sem þykir sérstaklega heppilegur staður fyrir smáfólkið og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðum eða brettum. Fyrir hina er líka nóg að hafa því brekkurnar með lyftum eru alls átján talsins og hér er fyrsta flokks brettasvæði líka. Allar brekkurnar flóðlýstar fram til 22 öll kvöld þegar skíðafært er. Til Tryvann er komist með sporvagni 1 til Voksenkollen en þaðan fer alla leiðina sérstök skíðarúta reglulega meðan opið er. Einnig er hægt að taka sporvagn 2 til Røa og þaðan taka strætisvagn 41 alla leiðina.
Oslo Skisenter er annað nafn yfir Grefsenkollen sem er hitt skíðasvæðið og einnig í 20 mínútna fjarlægð frá miðborginni. Grefsenkollen er mun brattari en Tryvann og því meira fyrir vanari skíðafólk. Þá eru brekkurnar hér færri en í Tryvann. Þar er líka tiltölulega þekktur veitingastaður sem ber sama nafn. Strætisvagn 56 fer langleiðina upp fjallið en þó þarf að ganga síðustu 300 metrana.