Skip to main content

Í myndaðu þér Dalvík á fimmtudegi í nóvember. Stöku bíll á ferð um mannlausar göturnar, engir ferðamenn, bingókvöld framundan á elliheimilinu en annars heilt yfir ekkert að frétta.

Ímyndaðu þér svo Dalvík á fimmtudegi fyrir Fiskidaginn mikla. Iðandi af lífi og fjöri. Heimamenn spenntir og glaðir enda vita þeir að gott er í vændum. Aðkomufólk og gestir í þúsundavís streyma að og með þeim breytist Dalvík úr svefnbæ í fjörugasta staðinn á landinu.

Þetta er Ebeloft í hnotskurn nema hvað „Fiskidagurinn“ endist allt sumarið! Þessi líflitli smábær á veturna breytist í allsherjar sólardvalarstað á sumrin og stemmningin sem við það skapast er engu lík. Danir eru jú jafnan „ligeglad“ og ligeglaðastir í fríi á heimaslóðum. Andinn hér er engu líkur sem er ein ástæða þess að bærinn er einn vinsælasti staðurinn í landinu fyrir hvers konar smærri uppákomur, ráðstefnur eða hátíðir.

Hingað er ekki komist með öðrum hætti en bílandi en reglulegar rútuferðir eru hingað frá helstu þéttbýlisstöðum. Næsti flugvöllur, Aarhus Airport er reyndar aðeins í 30 mínútna fjarlægð ef sá gállinn er á fólki.

Séu samskipti við mann og annan ekki sérstaklega á dagskránni er merkilega mikið um að vera yfir sumarmánuðina í bæ sem öllu jöfnu telur aðeins sex þúsund íbúa.

Stór og vinsæll dýragarður eru á svæðinu, Ree Park og  og vel þess virði að skoða. Einn frægasti skemmtigarður Danmerkur er hér skammt frá. Djurs Sommerland þekkir hver Dani og þar geta bæði börnin og þeir eldri sem varðveitt hafa barnið í sér gleymt sér heilu dagana. Djurs Sommerland opnar jafnan í byrjun maí og lokar í byrjun október.

Freigátan Jótland er hér geymd og til sýnis og blasir tignarleg við úr fjarlægð áður en komið í bæinn. Jótland er lengsta tréskip heims og hefur verið gert fullkomlega upp. Þar er hægt að halda veislur og jafnvel gista sé áhugi á því. Veitingahús og safn er einnig þar til staðar.

Gistimöguleikar eru annars fjölmargir. Sumarhús til leigu eru hér fjölmörg sem og hefðbundin gistiheimili og hótel. Þá er og einnig hægt að tjalda víða við ströndina. Skal þó hafa góðan fyrirvara á gistingu yfir háannatímann enda margir um hituna.

Fortíðin heillar marga og Ebeltoft á sér langa sögu á danskan mælikvarða. Staðurinn var einn sá fyrsti til að hljóta kaupstaðarréttindi árið 1301 og finna má byggingar og götur sem hafa lítið breyst í aldanna rás. Gamla ráðhúsið þar fremst í flokki en það var byggt árið 1576.

Fullorðna fólkið, í það minnsta kvenkynið, á auðvelt með að gleyma sér yfir mörgum smærri verslunum sem í Ebeltoft eru og ástæðan fyrir því einna helst sú að ekki er um keðjubúðir eða útibú frá vinsælum verslunum að ræða. Vissulega finnast þær en flestar eru búðir hér oftar einstakar og yfirleitt reknar af íbúum af svæðinu.

Margur karlpeningurinn hefur lítt gaman af verslunarrápi en það er ekki vandamál hér enda fá skrefin á fína áfangastaði þar sem hægt er að drekkja þorsta og fylgjast með mannlífinu í rólegheitum.

5 ómissandi hlutir:

  1. Freigátan Jótland
  2. Safarí í Ree dýragarðinum
  3. Glerlistasafnið
  4. Gamli bærinn
  5. Djurs Sommerland skemmtigarðurinn