Skip to main content

F rægasti dalurinn á Madeira er Curral das Freiras eða Nunnudalurinn á ylhýrri íslenskunni. Dalurinn einn allra vinsælasta stopp ferðafólks til eyjunnar af þeirri einföldu ástæðu að hann er nánast í bakgarðinum á höfuðborginni.

Það kann að hljóma einfalt að hafa vinsælan, djúpan dal í næsta nágrenni við höfuðborgina. Það eru jú ekki allir sem komast í lengri ferðir og þar sérstaklega ekki þeir ferðamenn sem heimsækja dagsstund með skemmtiferðaskipum.

Hingað tekur þó góðar 30 til 40 mínútur að komast þó í kílómetrum talið sé þröngur dalurinn aðeins í tólf kílómetra fjarlægð í beinni loftlínu. Það helgast af því að hér er hvergi sléttur blettur að heita og til að komast til Curral das Freiras þarf vel upp í ellefu hundrað metra hæð áður en hægt er að aka niður göngin í dalinn.

Góðu heilli eru komin göng því áður en þau komu var bara á færi taugasterkasta fólks að keyra hingað. Dalurinn er aðþrengdur á þrjá kanta af fjallgarði sem alls staðar nær yfir tólf hundruð metrum og nánast hvergi eru ljúfar aflíðandi brekkur heldur. Hér er allt meira og minna snarbratt.

Bærinn er ekki stór en fallegur og íbúar hafa troðið sér mjög víða um dalinn og æði margir hátt uppi ef svo má að orði komast. Hér búa rétt rúmlega tvö þúsund manns og eru að flestu leyti sjálfum sér næg með mat og nauðsynjar. Hér er jú framleiddar mjólkurvörur ýmsar og grænmeti og ávextir ræktaðir í mörgum görðum og ekki skortir vatn svona hátt uppi í fjöllum.

Þó óhugnarlega hár fjallgarðurinn í kring sé ótrúlega falleg sjón þegar staðið er í bænum er það þó ekki útsýnið sem kom Curral des Freiras á kortið. Það gerði nunnuhópur sem árið 1566 flýði Funchal upp í fjöllin til að forðast rányrkju og jafnvel einhverju verra af hálfu franskra sjóræninga sem gerðu strandhögg á Madeira um það leyti.

Flóttinn tókst og hér komu nunnurnar á fót kirkju og klaustri og næstu aldirnar fjölgaði þeim sem Curral das Freiras kölluðu heimili.

Bærinn er þó kominn á kortið fyrir fleira þessa síðustu og verstu. Hér rækta margir kastaníuhnetur og selja og svo vildi til fyrir tveimur áratug eða svo að uppskera var með allra besta móti og bæjarbúar sátu uppi með töluvert af hnetum sem þeir náðu ekki að selja. Þá datt einhverjum það snjallræði í hug að efna til hnetuhátíðar enda leiðist fólki hér ekkert að lyfta sér upp.

Viti menn! Hnetuhátíðin, Festa da Castanha, varð á skömmum tíma mjög vinsæl og nú sækja þúsundir Curral des Freiras heim fyrstu helgina í nóvember þegar hátíðin stendur yfir.

Rútur fara frá Funchal til Curral des Freiras þrisvar á dag yfir vetrartímann og oftar á sumrin. Vagn 81 stoppar við kláfferjusvæðið við hafnarsvæðið. Túrinn til Curral des Freiras stoppar einnig á útsýnisstaðnum Eiro do Serrado þaðan sem útsýni yfir Nunnudal er vægast sagt stórkostlegt og talsvert ógnvekjandi líka. Af útsýnispallinum er 1100 metra fall beint niður í þorpið.

Sumir velja þann kost að fara frá borði í Eiro do Serrado og ganga niður í dalinn. Dágóð hugmynd en brattinn er mjög mikill. Sú ganga tekur meðalmann um tvær stundir í rólegheitum.