Fróðir segja að góðir hlutir gerist hægt. Það má til sanns vegar færa hvað Íslendinga varðar að uppgötva og mynda tengsl við afkomendur þeirra landa okkar sem á kreppuárum fyrr á öldum héldu alla leið til Brasilíu í von um betri tíð og tíma. Þó þeir útrásarvíkingar hafi dreifst nokkuð settust þeir flestir að í Piraná fylki og meirihlutinn í eða við borgina Curitiba.

Lesi fólk yfirborðskenndar lýsingar á borginni mætti jafnvel halda að hún sé æði falleg og hér sé kannski einna helst það samfélag sem margir vildu sjá í öllum borgum Brasilíu. Tíðni glæpa lægri en í öðrum stærri borgum landsins, umferðin ekki einn hnútur í allar áttir, fátækrahverfi fáséð og fólk liðlegra og vinsamlegra en jafnan tíðkast. Aðeins sumt af þessu er rétt.

Curitiba er þægilegri en margar aðrar borgir Brasilíu. Þægilegri hvað varðar að hún er ekki risastór og innantóm, það er hægt að aka hér um götur án þess að lenda í umferðarteppu á fimm mínútna fresti og þó stress sé ekki mikið almennt í Brasilíu er Curitiba mun afslappaðri en til dæmis Sao Paulo eða Rio de Janeiro. Fólkið hér er þó eins misjafnt og annars staðar. Besti kostur borgarinnar er fyrirtaks samgöngukerfi sem hefur valdið því að hér kemur fólk saman í fallegum miðbæ borgarinnar í stað þess að hírast í misgóðum úthverfum hist og her eins og raunin er annars staðar í Brasilíu.

Curitiba er þó ekki falleg borg þó segja megi að miðbærinn sé undantekning þar á. Hún er fjarri fallegum ströndum landsins og staðsetningin lítt eftirminnileg. Hér voru samkvæmt tölum hagstofu Brasilíu 122 fátækrahverfi, favelas, árið 2010 en vissulega eru samkvæmt opinberum tölum mun færri glæpir hér en í sambærilegum öðrum borgum landsins.

Fyrir ferðafólk sem stutt stoppar er Curitiba mjög þægileg og gæti jafnvel verið yndisleg. Miðbærinn hér er afar indæll og þar tekist að stóru leyti að vernda gamlar byggingar svo að hér eru ekki gler- og háhýsi allt að drepa. Þvert á móti finnst hér nettur evrópskur keimur sem flestum Evrópubúum þykir lofsvert. Og heimamönnum líka því í nýlegri alþjóðlegri könnun sögðust 99 prósent íbúa hvergi annars staðar vilja búa. Það eru sannarlega meðmæli en sá galli á gjöf Njarðar að glæpir eru hér stórt vandamál.

Loftslag og ljúflegheit

Þó Curitiba sé í Brasilíu og fáir tengi það ágæta land við kulda þá verður hér mjög kalt á veturna á þeirra mælikvarða. Hitastig yfir vetrarmánuðina fer alla leið niður í átta stig. Sem nægir þó varla til að frostbitnir Íslendingar klæði sig mikið í fatnað. Sumrin hins vegar, líka ólíkt því sem gerist norðan í landinu, er æði ljúft. Meðalhitastig er 27 stig sem merkir að hér verður næsta aldrei yfirgnæfandi hiti.

Til og frá

Fyrir ferðamenn má segja að aðeins séu tvær leiðir til að heimsækja borgina. Flug frá stórborgunum Rio eða São Paulo eða með rútum. Lest er ekki í boði þó lestarstöð sé í Curitiba og þaðan hægt að fara sunnar á skemmtilega staði.

Hér er úr dálítið vöndu að ráða því vegalengdir í Brasilíu eru gríðarlegar. Með flugi má taka inn fleiri staði en með rútunum er mun meira að sjá af hinni raunverulegu Brasilíu.

Til umhugsunar: Til að gefa hugmynd um vegalengdir tekur það rútu þrettán klukkustundir frá Rio de Janeiro til Curitiba. Tæpar fimm klukkustundir tekur að fara með rútu frá Florianopolis sem er næsta borg við sjávarsíðuna og rúma sex klukkutíma frá São Paulo. Almennt er hægt að segja að með sæmilegum fyrirvara sé best að fljúga og það á sæmilegu verði eða lítið eitt hærra en ferðir með rútum.

Flugvöllur borgarinnar er Aeroporto Afonso Pena og farinn að láta á sjá enda í raun gamall herflugvöllur. Þar er þó verið að gera bragarbót á, bæta við og stækka. Hann er í tæplega 20 kílómetra fjarlægð frá miðborg Curitiba og tekur túrinn aldrei minna en 20 mínútur.

Flugskutla, Aeroporto Executivo, fer á milli á 20 mínútna fresti alla virka daga en hálftíma fresti um helgar. Túrinn aðra leið kostar 700 krónur. Aðeins seinlegri er að taka strætisvagn sem fer meira og minna sömu leið en stoppar aðeins oftar. Vagn 208 tekur 30 mínútur að fara á milli en fargjaldið hins vegar aðeins 220 krónur.

Bílaleigubílar eru hér tiltækir og auðvitað hefðbundnir leigubílar líka og eru mismunandi mjög. Gera skal ráð fyrir að greiða rúmlega 3.000 krónur fyrir túrinn aðra leið.

Sé fólk á ferð með rútum sem oftar en ekki eru þægilegar og nútímalegar er rútustöðin í Curitiba miðsvæðis og skammt í helstu hótel.

Til umhugsunar: Hafa skal í huga að sumar rútuleiðir eru ekki hundrað prósent öruggar og sérstaklega ekki að næturlagi. Rán eru nokkuð tíð.

Samgöngur og skottúrar

Hér er fólk í æði góðum málum því Curitiba er heimsþekkt sem ein vænasta samgönguborg heims. Það þýðir að hér eiga strætisvagnar yfirleitt réttinn, þeir eru margir, ferðir mjög tíðar og fargjöld ódýr.

Sé fólk ekki nógu öruggt með sig til að taka næsta vagn er annar æði góður möguleiki hér. Linha Tourismo er strætisvagnaleið sem fer á milli allra helstu staða í borginni. Svona svipað og útsýnisvagnar víða í borgum gera nema sá er munurinn að þetta er í boði borgaryfirvalda en ekki einkafyrirtækis. Yfir 20 fróðlegir staðir í boði en ekki á mánudögum. Þá eru bæði mörg söfn lokuð og túristavagninn gengur ekki þann dag. Annars vegar hægt að fara allan rúntinn á tæpum þremur klukkustundum eða hoppa úr og í alls fjórum sinnum í ferð. Fararheill mælir með fleiri en einni ferð því ómögulegt er að komast yfir allt í einni ferð.

Til umhugsunar: Mörg stærri og betri hótel í borginni bjóða ókeypis skutl alla leið í gamla borgarhlutann sé ferðinni heitið á bar eða veitingastað. Sú þjónusta er þekkt sem Leva e Traz og er til eftirbreytni.

Söfn og sjónarspil

>> Grasagarðurinn (Jardim Botânico)  –  Hér er um kostulegan grasagarð að ræða hvers frægð hefur víða borist. Kílómetrar eftir kílómetra af litríkum blómum og plöntum sem heilla alla sem fram hjá fara. Hér er líka það sem heimamenn kalla gróðurhúsið en er hin kostulegasta kristalshöll. Bak við það fallega hús má finna fleiri hundruð fallega skúlptúra pólska listamannsins Frans Kraycberg sem mjög er dáður hér. Strætisvagnar merktir Centenário/Campo Comprido eða Cabral/Portão stoppa við garðinn.  Opinn frá 6 á morgnana til 17 en gróðurhúsið er hægt að skoða til 21 á kvöldin alla daga. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Garður Páls páfa II (Bosque do Papa João Paulo II)  –  Þessi er nýlegur og reistur til minningar um komu Páls páfa II hingað en helsta ástæða þess var að Curitiba er innflytjendaborg mikil og þar voru Pólverjar hvað fjölmennastir á sínum tíma. Hér er þeirri sögu gerð skil. Hann stendur við Rua Mateus Leme og þangað komist með Linha Tourismo og Linha Mateus. Alltaf opinn og frítt að skoða.

>> Lestarferðasafnið (Museu Ferroviário)  –  Eitt af glæsilegustu byggingunum í miðborginni er gamla lestarstöðin en þar stoppa engar lestir lengur því húsinu hefur verið breytt í safn tileinkað lestum og þeim ferðamáta. Byggingin sjálf mjög fögur og innandyra ýmislegt að sjá tengt lestum, ferðum og fortíðinni þó miður sé að hluti hússins sé nú partur af verslunarmiðstöðinni Estação. Smáfólkið gæti unað sér vel hér stundarkorn en safnið er mjög lítið og fljótt þar farið yfir sögu. Opið daglega frá 13 til 20. Stöðin og verslunarmiðstöðin auðfundin við Sete de Setembro breiðgötuna.

>> Sólarhringsgatan (Rua 24)   –  Þeir sem flakka um miðborg Curitiba gætu fyrr en síðar komið að lítilli hliðargötu sem lítur ekki út fyrir að vera neitt sérstakt ef frá er talið hvolfþak yfir henni allri. Þetta er allsérstök gata sem heitir Sólarhringsgatan af þeirri einföldu ástæðu að allar verslanir undir þessu þaki eru opnar allan sólarhringinn allan ársins hring. Gatan er lítil en hér má samt finna á einum bletti töluvert af verslunum, bari, veitingastaði, hraðbanka, blómasala, lyfjaverslun og annað sem fólk gæti tekið upp á að þurfa um miðja nótt. Frábær punktur til að hitta fólk enda æði margt skemmtilegra staða allt í kring. Gatan liggur þvert á milli Visconde de Nácar og Visconde do Rio Branco gatna í miðbænum. Túristavagninn stoppar hér.

>> Oscar Niemayer safnið (Museu Oscar Niemayer)  –  Að öðrum söfnum ólöstuðum er þetta bæði það vinsælasta í borginni og jafnframt það safn sem fólk ætti fyrst að skoða ef tíminn er knappur eins og raunin er yfirleitt alltaf á ferðalögum. Safnið sjálft skiptist í níu hluta og mismunandi sýningar í gangi í hverjum og einum nema eitt sýningarplássið er tileinkað Niemayer sem þekktur er víða um heim. Allra athyglisverðust eru þó safnahúsin sjálf sem bæði eru frábærlega hönnuð. Ágætur garður er við safnið þar sem yngra fólk kemur gjarnan saman um helgar en á svæðinu má líka finna bókasafn og ráðstefnuhús auk þess sem Garður Páls páfa er skammt frá. Rua Marichal Hermes. Túristavagninn stoppar hér. Opið 10 til 18 daglega nema mánudaga. Aðgangseyrir 460 krónur. Heimasíðan.

>> Víróperuhúsið (Ópera de Arame)  –  Nafnið Ópera de Arame þýðir bókstaflega víróperuhúsið og þegar að er komið skilst hvers vegna. Þessi bygging, í miðjum Pedreiras garði umkringt fallegum trjám og lítill tjörn, er stálbygging með hvolfþaki en innandyra er lítið svið þar sem söngvarar og leikarar bregða oft á leik fyrir gesti og gangandi. Sérlega yndislegur staður. Opið daglega frá 8 til 21 á kvöldin. Rua João Gava. Túristavagninn stoppar hér. Ókeypis inn en stöku sýningar þarf að greiða sig inn á.

>> Dómkirkjan (Catedral Basilica Menor Nossa Senhora da Luz)  –  Þær eru allnokkrar hér kirkjurnar en þessi er þeirra merkilegust og skipar mikilvægan sess hjá bæði trúuðum og öðrum í borginni sökum þess að hún stendur á frábærum stað við Tiradentes torgið sem allir þekkja því það var hér árið 1693 að borgin Curitiba var stofnuð með formlegum hætti. Kirkjan sjálf lætur þó lítið yfir sér og er ekki mjög sérstök. Hún er opin skoðunar daglega milli 11 og 18.

>> Þýski skógurinn (Bosque Alemão)  –  Til norðurs frá miðborginni í Jardim Schaffer hverfinu er að finna svæði tileinkað þýskum innflytjendum til forna en þeir auk Pólverja flykktust hingað á sínum tíma þegar bágt var ástandið heimavið. Hér má meðal annars finna lítinn tónleikasal, Oratorio Bach, í fallegu timburhúsi en þar fara reglulega fram tónleikar. Hér er einnig Hans og Grétu stígurinn þar sem fólk getur rifjað upp ævintýrið með fallegum teikningum sem festar hafa verið upp meðfram stígnum. Að síðustu er hér leiksvið tileiknað Fausto þar sem sýningar fara fram á sumrin. Frá þessum stað má fá ágæta útsýn yfir gamla borgarhlutann frá útsýnispalli sem hér hefur verið reistur. Rua Francisco Schaffer. Opið daglega frá morgni til kvölds. Aðgangur ókeypis.

>> Barigüi garður (Parque Barigüi)  –  Allra vinsælasti almenningsgarður borgarinnar er þessi hér og mælum við með kvöldstund hér í góðu tómi. Hingað safnast mikið af fólki jafnan og á góðar stundir og það í félagsskap við fjölda dýra sem hér halda fyrir. Bráðskemmtilegur.

>> Paraná safnið (Museu Paranaense)  –  Fylki það sem Curitiba er höfuðborgin í er Paraná og á þetta safn er samankomið allt það sem viðkemur sögu fylkisins gegnum tíðina. Sérstaklega fróðlegt að skoða muni sem tilheyrðu þeim tveimur ættbálkum sem hér réðu ríkjum áður en hvíti maðurinn fór að gera sig merkilegan. Líka fróðlegt að sjá hér ljósmyndir af Curitiba þegar hún var aðeins afdalaþorp. Rua Kellers. Opið daglega 10 til 18. Miðaverð 300 krónur. Heimasíðan.

>> Þekkingarturnarnir (Farol Do Saber)  –  Það kann að hljóma fáránlega að borgaryfirvöld hafi reist eins og 45 vita hér lengst upp í landi og víðsfjarri nokkru vatni. Það er samt raunin en fljótt verður ljóst að þarna er ekki tilraun til að lýsa skipum leið heldur vísa fróðleiksþyrstum leiðina. Turnarnir hýsa allir almenningsbókasöfn til afnota fyrir alla sem áhuga hafa og er til dæmis kjörin leið til að komast á netið. Allt frítt og turnarnir vel merktir í öllum hverfum.

>> Iguaçu garður (Parque Iguaçu)  –  Þessi ágæti garður í suðurhluta borgarinnar er stórmerkilegur. Þetta er stærsti almenningsgarður í landinu öllu og alls 2,3 milljón ferkílómetrar að stærð og margir kjósa fremur að kalla þetta dýragarð en almenningsgarð. Vel yfir þúsund dýrategundir hér að sjá og það sem næst í sínu náttúrulega umhverfi. Ótrúlega mikið í boði hér fyrir útivistarfólk of ómissandi fyrir smáfólkið. Garðurinn opinn 9 til 17 daglega. Inngangur við Marechal Floriano Peixoto. Aðgangur frír.

>> Útsýnisturninn (Torre Panorâmica)  –  Langbesta útsýn sem fæst í Curitiba er frá þessum 109 metra háa sjónvarpsturni en þetta er sá eini í landinu þar sem gestum er heimilt að fara upp á topp og skoða sig um. Það er 110 prósent þess virði. Hann er staðsettur við Rua Prof Lycio Grein de Castro Vellozo. Opið daglega 10 til 17. Túristavagninn kemur hér við. Aðgangur 300 krónur.

Verslun og viðskipti

Seint verður sagt að hlutirnir séu dýrir í Brasilíu og hið sama gildir um Curitiba. Í samanburði við það sem gerist norðar í álfunni er ódýrt hér að vera og ódýrt að lifa. En það er sennilega dýrara að versla hér vörur en margur heldur. Það skýrist af því að velmegun hefur verið í landinu um nokkurt skeið og því til sönnunar nægir að nefna að atvinnuleysisbætur hjá ríkisstarfsmönnum í Brasilíu eru hærri en á Íslandi.

Í Curitiba eru næg tækifæri til að eyða peningum en kannski væri nær lagi, sé hugmyndin að versla, að geyma það sökum þess að hingað er ekki komist á auðveldan hátt og fyrir Íslendinga þarf að millilenda á tveimur stöðum hið minnsta. Það er því töluvert vesen að þvælast með þungar vörur.

Að þessu sögðu er fínt úrval verslana hér og þar er miðbærinn, Centro, fremst meðal jafningja. Þar er bæði meiri fjölda verslana en annars staðar, meiri fjölbreytni og fleiri verslunarmiðstöðvar. Göngugatan Rua das Flores er allra vinsælasta verslunargata borgarinnar og þar má finna meðal annars mörg þekkt merki.

Einar sex verslunarmiðstöðvar er hér að finna og allar tiltölulega stórar. Þær eru:

Þá má heldur ekki gleyma Feira do Largo da Ordem sem er besti útimarkaður Curitiba. Þar má finna æði margt merkilegt hafi fólk nennu til og ekki kosta hlutirnir mikið heldur. Þessi markaður er opinn alla sunnudaga frá 9 til 14.

Matur og mjöður

Brasilískur matur er eins og kannski gefur að skilja undir sterkum áhrifum frá Portúgal en vitaskuld eiga heimamenn sína eigin rétti og drykki sem náð hafa heimsfrægð. Fiskréttir eru jafnan æðislegir hér og ýmsa slíka rétti er jafnvel hægt að fá sem skyndibita á hinum og þessum götustöðum. Ekki óttast að prófa neitt hér.

Til umhugsunar: Sé fólk opið fyrir nýjum hlutum er algjört snjallræði að panta Barreado þegar tækifæri gefst. Það er nokkurs konar þjóðarréttur í Piraná fylki og er skrambi góður.

Hafa skal í huga að það er þokkalega dýrt að fara vel út að borða á fínni veitingastöðum. Þá skal gera ráð fyrir að tvíréttað geti kostað allt upp í fjögur þúsund krónur og plús það með víni.

Fararheill prófaði fjarri því marga staði á ferðalagi sínu um borgina en alls óhætt að mæla með Forneria Copacabana sem þrátt fyrir túristalegt nafnið er bæði flottur og maturinn fyrirtak. Okkur var bent á veitingastaðinn Caruso Empadas af heimafólki og hann sveik engan með sinn ekta brasilíska mat en matreiddan á nýstárlegan máta. Camponesa Do Minho er sagður annar af tveimur allra bestu fiskveitingastöðunum í borginni og þeir kunnu ýmsar leiðir til að matreiða gamla góða saltfiskinn og gera það betur en mamma gamla.

Líf og limir

Þó risaskref hafi verið tekin í baráttu gegn glæpum um land allt er raunin samt sú að hætta er á hverju strái. Það gildir líka um Curitiba og illu heilli hefur glæpum þar fjölgað undanfarin misseri. Alvarlegir glæpir gegn ferðafólki eru afar sjaldgæfir og einskorðast næstum alveg við þjófnaði og stöku líkamsárásir í leiðinni.

Ekki þarf að benda fólki á að vera ekki að þvælast mikið í fátækrahverfum. Glæpaherrar ráða yfirleitt ríkjum í þeim og þeir yfirleitt vel vopnaðir og hika lítt við að ræna vitlausa ferðamenn.

En ekki þarf endilega að vera þar til að lenda í vandræðum. Í Curitiba er stærsti vandinn glæpir í hverfum kringum gamla miðbæinn. Þar skal fólk ávallt vera vart um sig dag og nótt og aldrei ganga mikið um með veskið fullt af kortum eða seðlum. Skal helst ekki ganga neitt eftir að kvölda tekur nema í hóp en taka leigubíl ella.

Svæði sem forðast skal í Curitiba eru kringum umferðarmiðstöðina komi fólk hingað með rútum. Öll miðbæjartorg eru fín á daginn en fíkniefnasalar taka þau svæði oft yfir á kvöldin og best að halda sig fjarri. Hér er hver einasti glæpamaður vopnaður og lögreglumenn sömuleiðis. Hverfin Batel, São FranciscoRebouças og Prado Velho eru ekki 100 prósent örugg og öll nálægt miðborginni. Fjarri burtu skal láta vera að þvælast í Sitio Cercado, Fazendinha eða Tatuquara.


View Curitiba in a larger map