Íslendingar alltaf sáttir við Happy Hour en Bretinn er nú að fara á límingunum sökum þess að verðbólga í landinu er nú að slefa í tíu prósent og sú verðbólga hefur auðvitað áhrif á bjórverð eins og aðrar nauðsynjar í þessu lífi.
Sjónvarpsstöðin Sky gerði fyrir skemmstu úttekt á því hvað meðalverðið á hálfum lítra af bjór kostaði í kjölfar feitrar verðbólgu stjórnvalda sem hafa haft hreinræktaðan trúð í forsæti um nokkurra ára skeið. Þulnum svelgdist á, en ekki af bjór, þegar tölfræðin sýndi að Bretinn þarf nú að greiða 750 kall fyrir einn „pint” eða sem nemur 560 millilítrum af bjór af krana.
Heibabbílúlla segjum við bara.
Þrátt fyrir feita verðbólgu er skitið bjórglas enn á hálfvirði í Bretlandi að meðaltali miðað við algengt verð á klakanum í norðri. Gott betur reyndar því sökum þess að þessir deyjandi heimsveldissinnar, sem hafa alltaf viljað hafa allt spes og eftir sínu höfði eins og vinstriumferð, gátu ekki einu sinni haft bjórglasið „pint” hálfan lítra. Neibbs, þetta lið sem eitt sinn taldi það góða hugmynd að ráðast á litla, fátæka Ísland út af þorski, vill hafa nákvæmlega 560 ml. í sínum fræga „pint.” Sem auðvitað merkir að bjórinn er meira en helmingi ódýrari í Bretlandi að meðaltali en á farsæla Fróni.
Ofangreint auðvitað skemmtilegt fimbulfamb til að láta landann vita að sé för heitið til veldis Breta er allt þar orðið töluvert dýrara en verið hefur um langa hríð. Það er jú ekki nema eitt ár síðan þessi frægi „pint” kostaði að meðaltali 550 krónur…