Skip to main content

F ararheill fékk fyrirspurn nýlega frá fjölskyldu einni sem ætlar að heimsækja Boston og vildi vita hvort raunverulega væri hægt að skoða borgina og næsta nágrenni án þess að leigja til þess bíl.

Bíll er meira til vansa í Boston sjálfri en utan hennar er þörf á farartæki ef njóta á ferðalagsins

Bíll er meira til vansa í Boston sjálfri en utan hennar er þörf á farartæki ef njóta á ferðalagsins

Góð og gild spurning enda nánast allar borgir í Bandaríkjunum bílaborgir og almenningssamgöngur víða lélegri en nýársræður Ólafs Ragnars á hans forsetaárum.

Því er til að svara að í Boston eru almenningssamgöngur eins góðar og hægt er vestanhafs. Sjá má nánar um samgöngumöguleika þar í vegvísi Fararheill hér.

Má í raun fullyrða að mun betra og þægilegra er að þvælast um Boston bíllaus en bílandi. Umferð getur verið æði mikil og tafir víða plús auðvitað að fólk er yfirleitt nokkuð á nálum þegar ekið er um erlendar borgir sem menn þekkja ekki vel.

Málið vandast aðeins langi fólk aðeins út fyrir borgina. Margt er að sjá og skoða í grennd við Boston en töluvert mál að flakka á milli með rútum eða lestum. Nornaborgin Salem er ekki langt frá. Cape Cod er æði yndislegur staður og á leiðinni smærri bæir og staðir sem eru þess virði að staldrað sé við á ferðalagi.

Í einhverjum tilfellum er hægt að taka ferjur frá Boston til vinsælli strandbæja og héraðslestir stoppa á nokkrum helstu þéttbýlisstöðum en oftar en ekki er fólk þá fast á þeim stöðum nema hafa bíl til umráða. Það er með öðrum orðum mjög erfitt að njóta margs utan borgarinnar án þess að vera bílandi.

Í sjálfu sér er ekki erfitt að aka hér um slóðir. Allt er vel merkt, vegir stórfínir og nánast allir bílaleigubílar með gps-tæki. En á móti kemur að á annatímum eru til dæmis vegir til Cape Cod troðnir eins og mallakútur á aðfangadagskvöldi og tímann sinn tekur að komast áleiðis. Ekki spennandi leið til að eyða takmörkuðu fríi.