Ú tsýnið yfir Parísarborg frá toppi Eiffel turnsins er andartak sem flestir muna sitt líf til enda. Það er hins vegar mikill fjöldi fólks sem sökum lofthræðslu eða annars þorir ekki upp á topp þessa sögufræga turns. Þeir hinir sömu gætu þó notið fínasta útsýnis líka annars staðar frá.

Allra flottustu ljósmyndir yfir París eru gjarnan teknar af toppi Montparnasse turnsins. Mynd Jean-Phi92

Allra flottustu ljósmyndir yfir París eru gjarnan teknar af toppi Montparnasse turnsins. Mynd Jean-Phi92

Þó víða í París megi finna dágóða staði sem gefa ágæta sýn yfir hluta þessarar dásamlegu borgar eru í raun aðeins þrír sem veita mesta og besta yfirsýn og um leið mestu upplifunina. Þar er vitaskuld fremstur í flokki Eiffel turninn fallegi en þrátt fyrir mikla löngun veitist mörgum erfitt að fara mjög ofarlega í þann turn. Skiljanlegt því þetta er járnturn sem á það til að sveigjast lítið eitt til og frá þegar vindar blása og mörgum þeim er upp á toppinn komast svimar ægilega allan tímann.

Öllu lakari útsýnisstaður en góður samt er hin fallega hvíta kirkja Sacre Coeur en frá turnum hennar gefur að líta skemmtilega sýn yfir stóran hluta Parísar.

En kannski er sá þriðji allra bestur og þá sérstaklega fyrir þá sem glíma við lofthræðslu af einhverjum toga. Það er Montparnasse turninn sem ólíkt Eiffel turninum er rammgert háhýsi í samnefndu hverfi borgarinnar. Það er af sérstökum útsýnispalli frá þessum turni sem margar af allra fallegustu ljósmyndum af París eru teknar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvers vegna Montparnasse turninn ætti að vera eitthvað auðveldari uppgöngu fyrir lofthrædda en Eiffel turninn? Fyrir það fyrsta sveiflast Montparnesse ekki til og frá eftir því sem ofar er komist. Í öðru lagi er sá turn öllu lægri en hinn frægi Eiffel. Sá síðarnefndi er hæsta mannvirki Parísar og nær 324 metra upp í loft meðan skrifstofubyggingin Montparnasse er „aðeins“ 210 metrar. Í þriðja lagi er fólk innandyra sem skapar hjá flestum meira öryggi en á galopnum topppallinum á Eiffel. Svo skemmir ekki fyrir að hægt er að setjast niður og snæða góðan mat í rólegheitum í Montparnasse.

Ekki kannski fyrir alla en sjálfsagt að reyna því þótt París sé oft falleg á labbinu er hún alveg mögnuð úr lofti.

Aðgangur að toppnum kostar fullorðna kringum tvö þúsund krónur en lægra fyrir börn og unglinga. Yfir sumartímann er opið frá 9:30 til 22:30 en skemur á veturnar. Heimasíðan hér.